Upp­gjörið: Ís­land - Svartfjallaland 27-36 | Þungur róður í Dortmund

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dana Björg Guðmundsdóttir skorar eitt af mörkum sínum í Dortmund í kvöld.
Dana Björg Guðmundsdóttir skorar eitt af mörkum sínum í Dortmund í kvöld. Getty/Alex Gottschalk

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola níu marka tap er liðið mætti Svartfjallalandi í millirðili á HM í kvöld, 27-36.

Óhætt er að segja að íslenska liðið hafi átt í brasi í upphafi leiks og liðið átti í stökustu vandræðum með að koma boltanum í netið. Nokkur skjálfti virtist í íslensku stelpunum, sem töpuðu hverjum boltanum á fætur öðrum.

Sem betur fer var íslenski varnarleikurinn skárri en sóknarleikurinn og þrátt fyrir að skora ekki mark fyrr en eftir tæplega tíu mínútna leik voru Svartfellingar ekki komnir með nema þriggja marka forskot.

Íslenska liðið minnkaði muninn og jafnaði metin í stöðunni 5-5, en þá tók við annar slæmur kafli og Svartfellingar skoruðu næstu fimm mörk leiksins.

Mestur varð munurinn sex mörk í fyrri hálfleik þegar Svartfjallaland komst í 7-13, en íslenska liðið skoraði fjögur af síðustu fimm mörkum fyrri hálfleiksins og staðan því 11-14 þegar flautað var til hlés og liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur fór svo svipað af stað og sá fyrri. Íslenska liðið átti stökustu vandræðum með að skora mörk, en í þetta skipti gekk varnarleikur liðsins ekki jafn vel og í fyrri hálfleik.

Svartfellingar skoruðu fyrstu fjögur mörk seinni hálfleiks og settu þar með tóninn. Íslensku stelpurnar hleyptu Svartfellingum vissulega ekkert mikið lengra fram úr sér, en náðu heldur ekki að saxa á forskotið.

Svartfellingar náðu að lokum tíu marka forskoti og þar með voru úrslitin svo gott sem ráðin. Niðurstaðan varð að lokum níu marka tap íslenska liðsins, 27-36.

Íslensku stelpurnar eru þar með enn án stiga á botni milliriðils 2, en Svartfellingar eru nú með fjögur stig í öðru sæti riðilsins.

Atvik leiksins

Dönsku dómararnir Mads Hansen og Jesper Madsen þurftu að taka stóra ákvörðun strax á annarri mínútu þegar Armelle Attingré, markvörður Svartfjallalands, rauk út úr markinu og komst inn í langa sendingu fram. Attingré virtist mögulega hafa hlaupið á Dönu Björg Guðmundsdóttur sem var í hraðaupphlaupi, sem hefði þá þýtt að Attingré hefði farið í snemmbúna sturtu. Danska dómarateymið var þó ekki á því að um brot hafi verið að ræða og Attingré fékk því að halda leik áfram.

Stjörnur og skúrkar

Nokkrar af íslensku stelpunum sýndu í skorpum hvað í þeim býr í leik kvöldsins. Elín Rósa Magnúsdóttir átti góðan kafla í síðari hálfleik og Dana Björg Guðmundsdóttir sýndi hvaða hraða hún hefur að geyma í hraðaupphlaupum svo eitthvað sé nefnt.

Hins vegar er ábyggilega margt sem Arnar Pétursson, þjálfari liðsins, er til í að skerpa á eftir leikinn. Til að mynda er algjörlega óásættanlegt að tapa tólf boltum í fyrri hálfleik.

Dómararnir

Fyrir utan atvikið snemma leiks þurftu Danirnir ekki að taka mikið af stórum ákvörðunum og komust nokkuð vel frá verkefni kvöldsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira