Viðskipti innlent

Vélfag á­frýjar dómnum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Höfuðstöðvar Vélfags á Akureyri.
Höfuðstöðvar Vélfags á Akureyri. Vélfag

Vélfag ehf. mun áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í morgun þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfum félagsins. Félagið hefur sætt þvingunaraðgerðum vegna tengsla eiganda þess við rússneskt félag sem talið er hluti af skuggaflota Rússa frá því í sumar. 

Annað málið sem var höfðað gegn ríkinu snerist um þá ákvörðun utanríkisráðuneytisins að hafna beiðni Vélfags um að skrá Ivan Kaufmann, meirihlutaeiganda fyrirtækisins, sem stjórnarformann í sumar.

Í hinu málinu krafðist Vélfag þess að ákvörðun Arion banka um að frysta fjármuni fyrirtækisins í júlí yrði endurskoðuð.

Framkvæmd þvingunaraðgerða framseld til einkarekins viðskiptabanka

Í tilkynningu frá Vélfagi segir að félagið sé ósammála niðurstöðunni og muni áfrýja dómnum. Fyrirtækið muni halda áfram að vinna málið af fullri festu og tryggja að réttur þess verði virtur á öllum stigum málsmeðferðar.

„Málið vekur upp áleitnar spurningar um valdheimildir og framkvæmd íslenskra stjórnvalda á settum lögum. Það er afar óvenjulegt, og að okkar bestu vitund fordæmalaust, að framkvæmd þvingunaraðgerða gagnvart íslensku fyrirtæki virðist hafa verið framseld til Arion banka, einkarekins viðskiptabanka.“

,,Niðurstaðan kemur Vélfagi á óvart. Félagið telur að það gangi ekki upp að í lögum sé lögð sú skylda á fjármálafyrirtæki að frysta bankareikninga og að svo skuli sá, sem sætir frystingu, þurfa að beina kröfu um afléttingu til viðkomandi fjármálafyrirtækis,“ er haft eftir Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni Vélfags, í tilkynningu.

„Fjármálafyrirtækið er ekki bundið af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar og hefur þvertekið fyrir að það hafi hlutverk við afléttingu frystingarinnar. Höfði félagið mál á hendur fjármálafyrirtækinu er jafnframt ljóst að málið fengi ekki flýtimeðferð og gæti tekið tvö ár í hið minnsta,” segir Sigurður.

Haft var eftir Ivan Kaufmann, skráðum stjórnarformanni Vélfags, í Morgunblaðinu í dag að hann ætti von á að málið færi alla leið fyrir dómstóla í Evrópu.

Hann væri fullviss um að sigur næðist fyrir dómstólum í Evrópu þegar málið kæmist þangað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×