Handbolti

Elísa meidd fyrir HM og Alexandra með til Fær­eyja

Sindri Sverrisson skrifar
Elísa Elíasdóttir í jafnteflinu við þýska stórliðið Blomberg-Lippe á sunnudaginn. Hún hefur glímt við meiðsli í öxl eftir leikinn.
Elísa Elíasdóttir í jafnteflinu við þýska stórliðið Blomberg-Lippe á sunnudaginn. Hún hefur glímt við meiðsli í öxl eftir leikinn. vísir/Anton

Alexandra Líf Arnarsdóttir, línu- og varnarmaður Hauka, er komin inn í íslenska landsliðshópinn sem mætir Færeyjum í vináttulandsleik ytra, fyrir HM í handbolta sem hefst í næstu viku.

Alexandra, sem lék sína fyrstu landsleiki fyrr á þessu ári, var kölluð til vegna meiðsla Valskonunnar Elísu Elíasdóttur sem glímt hefur við meiðsli í öxl frá slagnum við Blomberg-Lippe í Evrópudeildinni á sunnudaginn.

Þetta staðfesti Arnar Pétursson, þjálfari Íslands, við Handkastið í dag.

Meiðsli Elísu bætast við meiðsli Andreu Jacobsen sem sömuleiðis ferðast ekki til Færeyja en heldur þó enn í vonina um að geta tekið þátt í HM.

Ísland hefur keppni á HM með leik við Þýskaland næsta miðvikudag, í Stuttgart, og spilar svo við Serbíu næsta föstudag og við Úrúgvæ sunnudaginn 30. nóvember. Þrjú liðanna komast áfram í milliriðlakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×