Viðskipti innlent

Meiri­hluti vill af­nema áminningarskyldu

Agnar Már Másson skrifar
Fleiri opinberir starfsmenn eru hlynntir heldur en andvígir því að áminningarskylda verði lögð niður.
Fleiri opinberir starfsmenn eru hlynntir heldur en andvígir því að áminningarskylda verði lögð niður. Vísir/Vilhelm

Um 48 prósent opinberra starfsmanna eru hlynnt afnámi áminningarskyldu ríkisstarfsmanna en aðeins um 32 prósent eru andvígir afnámi hennar, samkvæmt nýrri könnun. Á sama tíma eru um 54 prósent landsmanna hlynnt því að áminningarskyldan sé afnumin en aðeins 23 prósent andvíg.

Þetta kemur fram í niðurstöðum úr könnun Maskínu sem framkvæmd var í október og Vísir hefur undir höndum. Þar voru þátttakendur spurðir hvort þeir væru hlynntir eða andvígir því að áminningarskylda sem undanfari uppsagna ríkisstarfsmanna væri afnumin.

31 prósent landsmanna mjög hlynntir 

En þegar þátttakendum gafst kostur á ítarlegri svörum um hversu hlynntir eða andvígir þeir væru kom í ljós að allt að 31,3 prósent kváðust mjög hlynnt en 21,9 fremur hlynnt. Á sama tíma kváðust 14,5 prósent vera fremur andvíg en 10 prósent mjög andvíg afnámi kerfisins.

Fjármálaráðherra hefur birt frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda þar sem áformað er að afnema áminningarskyldu sem undanfara uppsagnar starfsmanna ríkisins og tímabundinnar lausnar þeirra. 

Áformin hafa verið harðlega gagnrýnd af verkalýðsleiðtogum sem hafa sagt áformin fela í sér einhliða skerðingu á réttindum launafólks.

Samkvæmt þessari könnuun eru karlar þó nokkuð líklegri en konur til þess að vilja afnema áminningarskylduna. Um 59 prósent karla vilja afnema kerfið en um 46 prósent kvenna.

Tekjuhærri líklegri til að vilja afnema áminningarskyldu

Menntun virðist hafa lítil áhrif á afstöðu fólks til skyldunnar en þó eru háskólamenntaðir örlítið andvígari því að hún verði afnumin, (28 prósent gegn 22).

Tekjuhærri einstaklingar eru nokkuð líklegri til þess að vilja afnema kerfið, þar sem um 66 prósent þeirra sem hafa um 1.200 til 1.600 í heimilistekjur eru hlynnt afnámi.

Kjósendum Pírata og Vinstri grænna líst langverst á hugsanlegt afnám. Um 43 prósent kjósenda Pírata eru andvígir afnámi og 19 prósent hlynntir, en um 33 prósent kjósenda VG eru hlynntir en 40 prósent andvígir.

Um 60 prósent kjósenda Miðflokks, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar eru hlynnt afnámi en um 15-20 prósent þeirra eru andvígir afnámi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×