Uppgjörið: Álftanes - Njarðvík 99-93 | Álftanes vann Njarðvík í bikarnum í hörkuleik Hjörvar Ólafsson skrifar 20. október 2025 21:06 vísir/Anton Álftanes lagði Njarðvík að velli, 99-93, þegar liðin mættust í stórleik kvöldsins í 32 liða úrslitum VÍS-bikarsins í körfubolta karla í Kaldalóns-höllinni í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi allt frá upphafi til enda og liðin skiptust á að hafa forystuna. Það var svo í þriðja leikhluta sem Álftanes náði góðum kafla og náði 10 stiga forskoti. Njarðvíkingar voru hins vegar ekki af baki dottnir og Dwayne Lautier jafnaði metin, 84-84, með þriggja stiga körfu um miðjan fjórða leikhluta. Undir lok leiksins setti Dúi Þór Jónsson niður þriggja stiga körfu og kom Álftanesi sex stigum yfir, 97-91, og fór langleiðina með það að að tryggja heimamönnum farseðilinn í 16 liða úrslitin. Ade Murkey innsiglaði svo sigur Álftaness af vítalínunni og niðurstaðan 99-93 sigur heimaliðsins. Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness. Vísir / Anton Brink Kjartan Atli: Leið vel þegar Dúi Þór skaut boltanum „Þetta var vel spilaður körfuboltaleikur hjá báðum liðum og ég held að þetta hafi verið skemmtlegur leikur á að horfa. Mikil gæði og spenna allt til loka leiksins. Það var frábær stemming í húsinu og ég var stoltur af leikmönnum og stuðningsmönnum Álftaness í kvöld,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness. „Mér fannst við spila þétta og góða vörn lungann úr leiknum og í þriðja leikhluta fannst mér þeir nánast bara skora körfur sem ekkert var við að gera. Leikmenn voru vel tengdir í þessum leik og kemistrían var góð innan liðsins,“ sagði Kjartan Atli enn fremur. „Það var vont að missa Hauk Helga af velli með fimm villur fyrir lokakafla leiksins. Við erum hins vegar með sterkan leikmannahóp og það kemur bara maður í manns stað þegar svona gerist. Við fengum framlag frá mörgum á báðum endum vallarins,“ sagði hann. Aðspurður um hvernig honum hefði liðið þegar Dúi Þór tók þristinn á mikilvægum tíma sagði Kjartan Atli: „Ég hef séð þetta skot mjög oft áður og leið bara mjög vel þegar ég sá Dúa Þór sleppa boltanum. Ég á auðvitað langa sögu með Dúa Þór og það gleður mig mjög mikið á hvaða stað Dúi Þór er kominn. Hann er búinn að spila mjög vel í upphafi tímabilsins og er að uppskera eins og hann hefur sáð.“ Rúnar Ingi: Fórum aðeins út úr skipulaginu þegar á móti blés „Þessi leikur var bara í járnum og það var lítið sem ekkert sem skildi liðin að. Við spiluðum heilt yfir bara vel í þessum leik og sigurinn hefði alveg getað dottið okkar megin. Þeir ná hins vegar góðum kafla í þriðja leikhluta og setja svo niður stór skot sem þýðir að við þurfum að fara í þriggja stiga skots leik sem gekk ekki upp að þessu sinni,“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur. „Þegar við lentum sex til sjö stigum undir þá fórum við aðeins út úr skipulaginu og tókum ekki bestu ákvarðanirnar sem voru í boði á þeim tíma. Það skorti kannski aðeins meiri skynsemi og það er ekki nýtt á nálinni hjá okkur,“ saðgi Rúnar Ingi þar að auki. „Þetta er vandamál sem við höfum verið að glíma við í upphafi leiktíðarinnar en mér finnst við vera að bæta okkur leik frá leik og á stærri köflum í leikjunum þar sem leikmenn spila þann bolta sem við viljum spila,“ sagði hann. „Það kemur svo stórt atvik þar sem við fáum dæmdan á okkur fót þegar lítið var eftir sem var ekki rétt ákvörðun. Það voru smáatriði sem skildu liðin að og þetta var eitt af þeim. Við hefðum getað gert ýmislegt betur og passað boltann betur á lykilaugnablikum. Við lærum bara af þessu og höldum áfram að bæta leik okkar,“ sagði Rúnar Ingi. Rúnar Ingi Erlingsson reynir að koma skilaboðum áleiðis til leikmanna sinnaVísir/Hulda Margrét Atvik leiksins Dúi Þór rak síðasta naglann í líkkistu Njarðvíkur með þriggja stiga körfu á ögurstundu í leiknum. Dúi Þór hafði verið góður allan leikinn og kórónaði frammistöðu sína með þessum huggulega þristi. Stjörnur og skúrkar Ade Murkey var stigahæstur í liði Álftaness með 23 stig og David Okeke stóð sig mjög vel á báðum endum vallarins, skoraði 20 stig og spilaði öfluga vörn. Dúi Þór og Shawn Hopkins settu mikilvægar körfur þegar á hólminn var kominn undir lok leiksins. Dúi Þór sendi þar að auki sjö stoðsendingar. Dwayne Lauter var fremstur meðal jafningja hjá Njarðvíkurliðinu en hann skoraði 34 stig. Brandon Averette mataði samherja sína með sjö stoðsendingum og setti niður 17 stig sjálfur. Dómarar leiksins Dómarar leiksins, Bjarki Þór Davíðsson, Gunnlaugur Briem og Jón Þór Eyþórsson, áttu gott kvöld og gæði leiksins fengu að skína í gegn vegna flottrar dómgæslu þeirra. Þeir höfðu flotta stjórn á leiknum og samskipti við leikmenn og þjálfara voru á yfirveguðum nótum sem er jákvætt. Stemming og umgjörð Það var vel mætt í Kaldalóns-höllina í kvöld og stemmingin bara býsna góð. Trommusveit heimamanna stóð sig með stakri prýði og stuðningsmenn einbeittu sér að mestu leyti að því að hvetja sín lið til dáða. VÍS-bikarinn UMF Álftanes UMF Njarðvík
Álftanes lagði Njarðvík að velli, 99-93, þegar liðin mættust í stórleik kvöldsins í 32 liða úrslitum VÍS-bikarsins í körfubolta karla í Kaldalóns-höllinni í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi allt frá upphafi til enda og liðin skiptust á að hafa forystuna. Það var svo í þriðja leikhluta sem Álftanes náði góðum kafla og náði 10 stiga forskoti. Njarðvíkingar voru hins vegar ekki af baki dottnir og Dwayne Lautier jafnaði metin, 84-84, með þriggja stiga körfu um miðjan fjórða leikhluta. Undir lok leiksins setti Dúi Þór Jónsson niður þriggja stiga körfu og kom Álftanesi sex stigum yfir, 97-91, og fór langleiðina með það að að tryggja heimamönnum farseðilinn í 16 liða úrslitin. Ade Murkey innsiglaði svo sigur Álftaness af vítalínunni og niðurstaðan 99-93 sigur heimaliðsins. Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness. Vísir / Anton Brink Kjartan Atli: Leið vel þegar Dúi Þór skaut boltanum „Þetta var vel spilaður körfuboltaleikur hjá báðum liðum og ég held að þetta hafi verið skemmtlegur leikur á að horfa. Mikil gæði og spenna allt til loka leiksins. Það var frábær stemming í húsinu og ég var stoltur af leikmönnum og stuðningsmönnum Álftaness í kvöld,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness. „Mér fannst við spila þétta og góða vörn lungann úr leiknum og í þriðja leikhluta fannst mér þeir nánast bara skora körfur sem ekkert var við að gera. Leikmenn voru vel tengdir í þessum leik og kemistrían var góð innan liðsins,“ sagði Kjartan Atli enn fremur. „Það var vont að missa Hauk Helga af velli með fimm villur fyrir lokakafla leiksins. Við erum hins vegar með sterkan leikmannahóp og það kemur bara maður í manns stað þegar svona gerist. Við fengum framlag frá mörgum á báðum endum vallarins,“ sagði hann. Aðspurður um hvernig honum hefði liðið þegar Dúi Þór tók þristinn á mikilvægum tíma sagði Kjartan Atli: „Ég hef séð þetta skot mjög oft áður og leið bara mjög vel þegar ég sá Dúa Þór sleppa boltanum. Ég á auðvitað langa sögu með Dúa Þór og það gleður mig mjög mikið á hvaða stað Dúi Þór er kominn. Hann er búinn að spila mjög vel í upphafi tímabilsins og er að uppskera eins og hann hefur sáð.“ Rúnar Ingi: Fórum aðeins út úr skipulaginu þegar á móti blés „Þessi leikur var bara í járnum og það var lítið sem ekkert sem skildi liðin að. Við spiluðum heilt yfir bara vel í þessum leik og sigurinn hefði alveg getað dottið okkar megin. Þeir ná hins vegar góðum kafla í þriðja leikhluta og setja svo niður stór skot sem þýðir að við þurfum að fara í þriggja stiga skots leik sem gekk ekki upp að þessu sinni,“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur. „Þegar við lentum sex til sjö stigum undir þá fórum við aðeins út úr skipulaginu og tókum ekki bestu ákvarðanirnar sem voru í boði á þeim tíma. Það skorti kannski aðeins meiri skynsemi og það er ekki nýtt á nálinni hjá okkur,“ saðgi Rúnar Ingi þar að auki. „Þetta er vandamál sem við höfum verið að glíma við í upphafi leiktíðarinnar en mér finnst við vera að bæta okkur leik frá leik og á stærri köflum í leikjunum þar sem leikmenn spila þann bolta sem við viljum spila,“ sagði hann. „Það kemur svo stórt atvik þar sem við fáum dæmdan á okkur fót þegar lítið var eftir sem var ekki rétt ákvörðun. Það voru smáatriði sem skildu liðin að og þetta var eitt af þeim. Við hefðum getað gert ýmislegt betur og passað boltann betur á lykilaugnablikum. Við lærum bara af þessu og höldum áfram að bæta leik okkar,“ sagði Rúnar Ingi. Rúnar Ingi Erlingsson reynir að koma skilaboðum áleiðis til leikmanna sinnaVísir/Hulda Margrét Atvik leiksins Dúi Þór rak síðasta naglann í líkkistu Njarðvíkur með þriggja stiga körfu á ögurstundu í leiknum. Dúi Þór hafði verið góður allan leikinn og kórónaði frammistöðu sína með þessum huggulega þristi. Stjörnur og skúrkar Ade Murkey var stigahæstur í liði Álftaness með 23 stig og David Okeke stóð sig mjög vel á báðum endum vallarins, skoraði 20 stig og spilaði öfluga vörn. Dúi Þór og Shawn Hopkins settu mikilvægar körfur þegar á hólminn var kominn undir lok leiksins. Dúi Þór sendi þar að auki sjö stoðsendingar. Dwayne Lauter var fremstur meðal jafningja hjá Njarðvíkurliðinu en hann skoraði 34 stig. Brandon Averette mataði samherja sína með sjö stoðsendingum og setti niður 17 stig sjálfur. Dómarar leiksins Dómarar leiksins, Bjarki Þór Davíðsson, Gunnlaugur Briem og Jón Þór Eyþórsson, áttu gott kvöld og gæði leiksins fengu að skína í gegn vegna flottrar dómgæslu þeirra. Þeir höfðu flotta stjórn á leiknum og samskipti við leikmenn og þjálfara voru á yfirveguðum nótum sem er jákvætt. Stemming og umgjörð Það var vel mætt í Kaldalóns-höllina í kvöld og stemmingin bara býsna góð. Trommusveit heimamanna stóð sig með stakri prýði og stuðningsmenn einbeittu sér að mestu leyti að því að hvetja sín lið til dáða.