Neytendur

Greiði til ný­lega ein­hleyprar konu sprakk í and­lit flutningsþjónustu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm

Flutningsþjónusta sem par nokkuð rekur þarf að punga út nokkur hundruð þúsund krónum eftir að hafa stefnt nýlega einhleypri konu vegna vangreiðslu. Konan sagði eiganda og bílstjóra þjónustunnar hafa boðið aðstoð endurgjaldslaust og blöskraði svo þegar reikningur upp á tæplega hundrað þúsund krónur barst.

Konan var starfsmaður fyrirtækis og kynntist þar manninum sem sinnti flutningsþjónustu á starfsstöð fyrirtækisins. Konan tjáði honum að hún þyrfti að flytja vegna sambúðarslita og fór svo að hann mætti á flutningabíl í júní 2024 og hjálpaði henni við flutningana.

Hins vegar er umdeilt hvort greiðsla ætti að fara fram og þá hve há. Bílstjórinn sagði konuna hafa óskað eftir þjónustu, hann orðið við því en svo ekki staðið skil á greiðslu reikninga. Konan sagði þau hafa hist í vöruhúsi, hún sagt frá stöðu sinni og að hún ætti erfitt með að greiða fullt verð. Bílstjórinn hefði boðið fram aðstoð sína, vel hafi farið á með þeim og hún tekið boði hans sem persónulegum vinagreiða. Hún hafi boðist til að greiða 40 þúsund krónur en hann sagt það óþarfa.

Ekki grænt ljós frá sambýliskonu

Konunni hefði svo komið í opna skjöldu þegar reikningur barst mánuði síðar upp á 96 þúsund krónur. Hún hefði rætt málið við bílstjórann daginn eftir sem hefði orðið vandræðalegur. Hann hefði lýst því að hafa ekki fengið grænt ljós frá sambýliskonu sinni sem væri bókari flutningsþjónustunnar. Hann hefði lofað því að græja málið, reikningurinn yrði lagfærður og hún þyrfti að greiða 40 þúsund krónur miðað við 60 prósenta afslátt.

Meðal gagna málsins voru skilaboð milli bílstjórans og konunnar dagana áður en flutningarnir fóru fram. Efst á skjáskoti mátti sjá hreyfimynd af fólki í rúmi sem var send konunni. Hún spurði hvort bílstjórinn væri sendandi og hann játaði því. Hann hafi í framhaldinu spurt hvert hann ætti að koma á morgun. Eftir að hafa skipulagt flutningana sagði konan:

„Enn og aftur. Takk æðislega fyrir hjálpina“ og bílstjórinn svaraði: „Minnsta málið.“ 

Rotinn lygari?

Tveimur dögum eftir að reikningurinn var sendur bárust konunni skilaboð frá bílstjóranum. „Ég er rotin lygari“ stóð í skilaboðunum. Konan spurði hvað hann ætti við með því og hann svaraði „hverju?“. Sama dag sendi konan skilaboð á bílstjórann, gagnrýndi að reikningurinn sem hefði verið sendur væri ekki sundurliðaður og óskaði eftir slíkum, ella ætti að eyða kröfunni úr heimabankanum. Þá óskaði hún eftir nýjum reikningi með 60 prósenta afslætti eins og þau hefðu talað um.

„Heyrðu vinan róaðu þig og nei krafan fer ekki út hún sendir nótuna á eftir. Og ég mismælti mig þegar ég sagði 60% afsláttur það er 20% afsláttur á þessu þetta voru rúmir 5 tímar ekki hélstu að þú fengir flutninginn gefins?“

Í framhaldinu tókust konan og bókarinn, sambýliskona bílstjórans, á í skilaboðum varðandi greiðslu. Bílstjórinn sendi svo á konuna:

„Ég hefði aldrei trúað því að þú værir svona óheiðarleg [...], þú varst alveg viðþolslaus að flytja út frá honum, og ég í góðmennsku minni vorkenndi þér og bauð þér að fá að borga seinna því þú værir blönk eitthvað sem við gerum aldrei, öll verk fara í gegnum [flutningsþjónstuna] og [bókarinn] var búinn að ákveða að gefa þér meiri afslátt en nei þá ertu með endalausa stæla sem gerir það að verkum að hún hefur engan áhuga á að gera það ég bara veit ekki hvað er að hjá þér,“ sagði í skilaboðunum.

Óheiðarleiki og hroki

Viku síðar kvað hann hana óheiðarlega í skilaboðum, bað hana að hætta að vera með hroka við sambýliskonu sína og ljúga því að þau hefðu ekki flutt fyrir hana. Degi síðar sendi hann skilaboð:

„Drullastu til að borga ég hefði aldrei átt að treysta þér þú getur prófað að hringja í [bókarann] hún er kannski tilbúinn að gefa þér meiri afslátt ef þú sýnir að þú sért heiðarleg og borgar, ég hef aldrei vitað annað eins ef ég hefði eins og þú heldur fram ætlað að gefa þér 60% afslátt þá segir það sig sjálft að ég var að þessu í gegnum fyrirtækið af hverju hefði ég annars sagst ætla að gefa þér afslátt? Og ég sagði aldrei 60% ég gef ekki einu sinni bróður mínum svona mikinn afslátt!! Hvernig geturðu verið svona ómerkileg og svikul? Væri gaman að vita hvað aðrir segja ef þetta fréttist um þig! Svo þú skal borga kröfuna á mrg takk.“

Kannaðist ekkert við hreyfimyndina

Í framhaldinu fór parið hjá flutningsþjónustunni í innheimtuaðgerð og fór svo að þau stefndu konunni. Héraðsdómur Reykjaness taldi ósannað að konunni hefði verið lofuð ókeypis flutningsþjónusta. Framburður konunnar þótti mun trúverðugri en bílstjórans þar sem hann neitaði að hafa sent skilaboð sem til voru skjáskot af. Varðandi hreyfimyndina af fólki í rúmi sem hann sendi konunni sagði hann ekki hafa sent hana og átt hefði verið við síma hans um þetta leyti.

Var konan dæmd til að greiða parinu hjá flutningsþjónustunni 40 þúsund krónur fyrir þjónustuna. Flutningsþjónustan þurfti á móti að greiða konunni 380 þúsund krónur í málskostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×