Upp­gjör: Valur - FH 27-32 | Jón Þórarinn skellti í lás þegar FH sótti tvö stig á Hlíðar­enda

Hjörvar Ólafsson skrifar
Birkir Benediktsson spilaði sinn fyrsta deildarleik fyrir FH á Hlíðarenda í kvöld. 
Birkir Benediktsson spilaði sinn fyrsta deildarleik fyrir FH á Hlíðarenda í kvöld. 

FH vann afar sannfærandi sigur þegar í liðið sótti Val heim í N1-höllina að Hlíðarenda í annarri umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 32-27 FH í vil en gestirnir náðu mest 10 marka forystu. 

Valur lagði Stjörnuna að velli í fyrstu umferð deildarinnar á meðan FH laut í lægra haldi fyrir Fram. FH-ingar voru augljóslega áfjáðir í að ná sínum fyrstu stigum á töfluna í þessum leik en þeir mættur afar grimmir inn á parketið allt frá upphafsflauti.

Gestirnir úr Hafnarfirðinum náðu fljótlega upp fjögurra marka forskoti en það var góð markvarsla Jóns Þórarsins Þorsteinssonar bakvið þétta vörn FH í flútti við agaðan og ve luppsettan sóknarleik sem lagði grunninn að þeirri forystu.

Ómar Darri Sigurgeirsson setti þrjár slummur. Vísir/Anton Brink

FH jók svo muninn á lokakafla fyrri hálfleiks en þeir ógnuðu úr öllum áttum og varnarleikur Vals náði ekki að fljúga vængjum þöndum í fyrri hálfleik. Staðan var 18-12 fyrir FH í hálfleik.

Ágúst Þór Jóhansson, þjálfari Vals, tók tvö leikhlé í fyrri hálfleik og freistaði þess að kveikja neista og finna lausnir á vandamálum heimaliðsins. Það tókst ekki og brekkan var brött fyrir Valsliðið þegar það mætti til leiks í seinni hálfleik.

Það dró enn frekar í sundur með liðunum í upphafi seinni hálfleiks. Þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var munurinn orðinn 10 mörk, 23-13 fyrir FH. Valsmenn náðu að laga stöðuna með góðum lokakafla sínum en niðurstðan fimm marka sigur FH-inga. 

Simon Michael Guðjónsson var markahæstur hjá FH með átta mörk en Birgir Már Birgisson kom næstur með sex mörk. Hornamennirnir nutu góðs af varnarmúr FH-liðsins og markvörslu Jóns Þórarins. Dagur Árni Heimisson var atkvæðamestur hjá Val með sjö mörk. 

Sigursteinn Arndal hrósaði bæði leikmönnum sínum og aðstoðarmanni sínum. Vísir/Anton Brink

Sigursteinn: Löguðum alla þætti leiksins frá leiknum við Fram

„Þetta var flott frammistaða frá upphafi nánast til enda í þessum leik. Liðsheildin skilaði þessum sigri og það voru margir sem lögðu eitthvað í púkkinn. Við tækluðum vel leikinn við Fram og leikmenn eiga hrós skilið hvernig þeir nálguðust þau vandamál sem komu upp í Framleiknum og löguðu þau í kvöld,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, sigurreifur. 

„Mig langar að nefna líka sérstaklega þátt Einars Andra í æfingavikunni og undirbúningnum fyrir þennan leik. Einar Andri gerði mjög vel í að fara yfir þau atriði sem betur máttu fara og leikmenn brugðust svo vel við áhersluatriðum hans,“ sagði Sigursteinn um aðstoðarmann sinn í þjálfarateyminu. 

Jón Þórarinn átti stóran þátt í því að FH landaði þessum sigri og Sigursteinn var að vonum ánægður með markvörð sinn: „Það sást berlega í aðdraganda leiksins hvað Jón Þórarinn var spenntur fyrir því að láta til sín taka í þessum leik. Það gerði hann svo sannarlega og ég er ánægður með markvörsluna hjá honum,“ sagði FH-ingurinn um lærisveinn sinn. 

„Það eru nýir burðarásar í þessu liði og það er viðbúið að það taki nokkurn tíma að slípa liðið almennilega saman. Þessi leikur var skref í rétta átt en það er mikil vinna fram undan við að bæta leik liðsins. Við fengum gott framlag frá Ómari Darra að þessu sinni en hann líkt og aðrir leikmenn liðsins þurfa að halda áfram að leggja á þá vinnu sem þarf til þess að halda áfram að taka framförum,“ sagði Sigursteinn. 

Ágúst Þór: Viðbúið að það verði sveiflur í spilamennsku liðsins

„Við komumst aldrei á flug og mættum bara mjög flatir til leiks. Það komst aldrei neitt flæði í sóknarleikinn og varnarleikurinn var heilt yfir linur. Við komumst aldrei almennilega inn í leikinn og því fór sem fór,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals að leik loknum. 

„Við erum með leikmenn sem eru að koma seint inn í undirbúninginn hjá okkur eins og Dag Árna og það mun taka tíma fyrir hann að komast inn í hlutina hjá okkur. Dagur Árni sýndi hins vegar í þessum hvað í honum býr. Þá er Gunnar Róbertsson, sem er 16 ára gamall að bera uppi sóknarleikinn hjá okkar og annan ungan leikmann, Bjarka Snorrason, sem er í stóru hlutverki. 

Það er ekkert óeðlilegt að það verði sveiflur á milli leikja hjá jafn ungum leikmönnum og þeim sem ég var að nefna. Það mun þurfa þolinmæði og tíma til þess að ná upp þeim stöðugleika sem þarf til þess að liðið nái jafnvægi í spilamennsku sína í gegnum lengri tíma,“ sagði Ágúst Þór þar að auki.   

„Að sjálfsögðu söknum við Magnúsar Óla og Róberts Aron en við erum ekkert að skýla okkur á bakvið það. Lið munu missa lykilleikmenn í meiðslu og við erum með það breiðan leikmannahóp að við eigum að geta dílað við að missa leikmenn út. Bjarni í Selvindi er svo á leið i aðgerð þannig að þetta var síðasti leikur hans í einhvern tíma. Við þurfum að bregðast við því og maður verður að koma í manans stað,“ sagði hann um stöðu mála. 

Ágúst Þór Jóhannsson gefur leikmönnum sínum skipanir af hliðarlínunni. Vísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Varnarleikur FH var til fyrirmyndar í þessum leik en það var lýsandi dæmi um það hversu lítt leikmenn Vals komust áleiðis þegar Jón Bjarni Ólafsson tók Bjarna í Selvindi í bóndabeygju og hélt Færeyingnum eins og á litlu barni í fangi sínu. Valsmenn komust á löngum köflum hvorki lönd né strönd.  

Stjörnur og skúrkar

Að öðrum ólöstuðum var Jón Þórarinn maður leiksins en hann varði 15 skot þar af þrjú vítaköst. Jón Bjarni var svo aðsópsmikill á báðum endum vallarins. Spilaði feykisterka vörn og lagði fjögur mörk á vogarskálina. Garðar Ingi Sindrason skoraði síðan fjögur mörk, skapaði fjölmörg færi fyrir samherja sína og fiskaði nokkur vítaköst. 

Jón Þórarinn lokaði markinu á köflum. Vísir/Anton Brink

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, voru með allt í teskeið í kvöld eins og þeim er von og vísa. Þeir félagar fá átta í einkunn fyrir fumlausa frammistöðu og góð tök á verkefninu sem þeir fengu. 

Stemming og umgjörð

Það var fínasta mæting á Hlíðarenda. Stuðningsmenn Vals mega eiga það að þeir sýndu þrautseigju þrátt fyrir að það blési hressilega á móti hjá Valsliðinu. Þeir áttu sinn þátt í því að leikmenn Vals lögðu ekki árar í bát og klóruðu í bakkann undir lokin. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira