Viðskipti innlent

Kaupa bræðurna út: „Við vorum sam­mála um að vinna ekki lengur saman“

Árni Sæberg skrifar
Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs ehf.
Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs ehf. Arnar Halldórsson

Hjónin Jakob Valgeir Flosason og Björg Hildur Daðadóttir hafa keypt tvo bræður Jakobs Valgeirs út úr útgerðarfélaginu Jakobi Valgeiri ehf. Þeir áttu 25 prósent í félaginu á móti hjónunum.

Björg Hildur hefur um árabil verið eigandi 75 prósenta í fjölskyldufyrirtækinu, sem faðir bræðranna stofnaði, á móti fimmtán prósenta hlut Guðbjarts Flosasonar og tíu prósenta hlut Brynjólfs Flosasonar.

Gerði bræðrunum tilboð eftir að hafa rekið annan þeirra

Jakob Valgeir segir í samtali við Vísi að nú sé búið að ganga frá kaupum á öllum hlut bræðranna tveggja. Staðarmiðillinn Bæjarins besta greindi fyrst frá. Þegar faðir þeirra færði fyrirtækið til barna sinna hafi hvert þeirra fengið 12,5 prósenta hlut og þau hjónin hægt og rólega stækkað við sig.

„Í raun og veru sagði ég Guðbjarti upp í vor. Bróður mínum sem hefur verið að vinna þarna í mörg ár og kom til baka með tilboð sem þeir féllust á. Það var í raun sirka niðurstaðan. Við vorum sammála um að vinna ekki lengur saman,“ segir Jakob Valgeir. Hann vill ekki gefa upp hvernig tilboðið hljóðaði.

Sjávarútvegurinn sé lagður í einelti

Er þetta ekki skrýtinn tími til þess að kaupa stóran hlut í sjávarútvegsfyrirtæki?

„Jú, jú. Þetta er það alveg. En það þýðir ekkert annað en að berjast áfram. Það er ekkert annað að gera. Það er náttúrulega ekki mikið verið að fjárfesta í sjávarútvegi í dag. Það er frekar sorglegt hvað sjávarútvegurinn er lagður í mikið einelti.“

Þar vísar Jakob Valgeir til boðaðrar hækkunar veiðigjalda, sem tekur gildi um áramótin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×