Essengue var næstyngsti leikmaðurinn í nýliðavalinu í ár, þremur dögum eldri en Cooper Flagg sem valinn var fyrstur, en forráðamenn Bulls treysta á að það muni borga sig til framtíðar að veðja á þennan limalanga Frakka.
Essengue hóf meistaraflokksferil sinn í frönsku C-deildinni, með Pole France, áður en hann gekk til liðs við þýska félagið Ratiopharm Ulm. Þar hitti hann fyrir Baldur Þór Ragnarsson, núverandi þjálfara Íslandsmeistara Stjörnunnar, sem þjálfaði Essengue í akademíu þýska félagsins í fyrravetur áður en Baldur tók svo við Stjörnunni síðasta sumar.
„Fáránlega mikill íþróttamaður“
Saman fögnuðu þeir til að mynda sigri á Adidas Next Generation móti í Dubai, á vegum EuroLeague, með U18-liði Ulm:
„Þegar við unnum það mót þá var þessi gaur MVP. Hann er fáránlega mikill íþróttamaður. Nánast með eins konar geimverulíkama. Hann var yfirburðamaður. Hinir gaurarnir voru líka góðir en þetta var klárlega besti maðurinn,“ segir Baldur.
Essengue lék svo með aðalliði Ulm í vetur í efstu deild Þýskalands og náði að heilla stjórnendur Chicago Bulls. Bandarískir miðlar benda á að Essengue hafi einnig minnt á sig með því að skora 20 stig, taka 8 fráköst, stela boltanum þrisvar og verja tvö skot, í sýningarleik gegn Portland Trail Blazers í október í fyrra.
Þetta er annað árið í röð sem leikmaður sem Baldur þjálfaði í Þýskalandi er valinn í nýliðavali NBA, því New York Knicks völdu Pacome Dadiet í 25. valinu í fyrra.