Viðskipti innlent

Arion vill sam­einast Kviku

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka. Vísir/Vilhelm

Stjórn Arion banka ákvað á fundi sínum í dag að óska eftir því við stjórn Kviku banka að hafnar verði samrunaviðræður á milli félaganna tveggja.

Þetta kemur fram í tilkynningu Arion til Kauphallar, en þar segir að stjórnarformanni og bankastjóra Kviku hafi verið sent bréf þess efnis.

„Það er mat stjórnar Arion banka að samruni félaganna myndi skila verulegum verðmætum til hluthafa beggja félaga. Sameining félaganna fæli í sér tækifæri til tekjuaukningar, áhættudreifingar, hagræðingar og lækkunar á fjármögnunarkostnaði.“

„Þannig gæti sameining félaganna aukið skilvirkni á íslenskum fjármálamarkaði sem kæmi viðskiptavinum beggja félaga til góða,“ segir í tilkynningunni.

Jafnframt segir að ákveði stjórn Kviku að ganga til samrunaviðræðna sé það von Arion að viðræður hefjist sem fyrst.

„Tillaga stjórnar Arion banka er að við ákvörðun skiptihlutfalls verði horft til markaðsverðs félaganna, eftir atvikum að teknu tilliti til gengisþróunar á tímabili sem stjórnir félaganna koma sér saman um.“

Arion banki lýsti yfir áhuga á því að sameinast Íslandsbanka í febrúar, en stjórn Íslandsbanka hafnaði boðinu. Íslandsbanki þakkaði Arion fyrir áhugann og tók undir sjónarmið um mögulega hagræðingu sem hefði hlotist af samrunanum.


Tengdar fréttir

Ís­lands­banki af­þakkar boð Arion um samrunaviðræður

Stjórn Íslands­banka hefur afþakk­að boð um samrunaviðræður við Ari­on banka. Stjórn bank­ans þakk­ar Ari­on fyr­ir áhugann á samruna og segist taka undir sjónarmið um mögulega hagræðingu sem hefði hlotist af samrunanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×