Körfubolti

„Sann­leikurinn“ Edwards þarf að skjóta sópinn úr höndum OKC

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Edwards flýgur að körfunni.
Edwards flýgur að körfunni. William Purnell/Getty Images

Anthony Edwards, stórstjarna Minnesota Timberwolves í NBA-deildinni í körfubolta, var vissulega stigahæstur í síðasta leik liðsins en það verður þó ekki sagt að hann hafi skotið boltanum vel. Hann þarf að lyfta leik sínum á næsta getustig og þá mögulega eiga Úlfarnir möguleika gegn ógnarsterku liði Oklahoma City Thunder.

Hinn 23 ára gamli Edwards er oftast nær einfaldlega kallaður Ant en hann gekk svo langt að kalla sjálfan sig „sannleikann“ (e. truth) þegar hann ræddi við forsetann fyrrverandi Barack Obama fyrir Ólympíuleikana á síðasta ári.

@thesportingnews It doesn’t matter if you’re President Obama, Ant is gonna keep it real with you 😂🔥 #anthonyedwards #president #obama #basketball #lebron #nba ♬ original sound - The Sporting News

Eftir að fara nokkuð létt með Los Angeles Lakers og Golden State Warriors virðast úlfarnir frá Minnasota hafa lent á vegg gegn eldingunni frá Oklahoma City. Þegar tveir leikir eru búnir er staðan 2-0 OKC í vil og það verður ekki annað sagt en báðir sigrar hafi verið virkilega sannfærandi.

Sannleikurinn sjálfur skoraði 32 stig síðast þegar liðin mættust og varð þar með stigahæsti leikmaður Minnesota í úrslitakeppni NBA-deildarinnar frá upphafi. Verandi aðeins 23 ára gamall þá er það mikið afrek.

Það breytir hins vegar ekki því að hann hitti aðeins úr 13 af 35 skotum sínum í opnum leik. Sérstaklega var Ant kaldur fyrir utan þriggja stiga línuna, þar hitti hann aðeins úr einu af níu skotum.

Stórstjarnan var langt í frá eini leikmaður Minnesota sem skaut boltanum illa í leiknum en þar sem allt fer í gegnum Edwards þarf hann að eiga betri leik sóknarlega ætli Minnesota sér að eiga einhvern möguleika í einvíginu. Svo þarf liðið að sjálfsögðu að spila betri vörn en OKC hefur nú skorað samtals 232 stig í leikjunum tveimur.

Þriðji leikur liðanna fer fram í nótt. Útsending Stöðvar 2 Sport 2 hefst klukkan 00.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×