Umræðan

Lítill vöxtur milli ára hjá at­vinnu­fyrir­tækjum og þrýstingur á fram­legð

Jón Gunnar Jónsson skrifar

Í lok aprílmánaðar birti síðasta félagið á Aðalmarkaði Kauphallarinnar ársreikning sinn fyrir nýliðið fjárhagsár. Af þessum 28 félögum lauk fjárhagsárinu þann 31. desember síðastliðinn hjá 26 félögum, en hjá tveimur félögum þann 28. febrúar (í samanburðinum hér á eftir verður vísað til síðasta fjárhags-, rekstrar- eða starfsárs sem 2024 og ársins þar á undan sem 2023.) Þar sem nú styttist óðum í birtingu árshlutareikninga fyrir fyrsta ársfjórðung 2025 (sum hafa þegar birt) er ekki úr gera samantekt á afkomu félaga á síðasta fjárhagsári. Þegar þetta er ritað hafa 25 af þessum 28 félögum haldið aðalfundi sína vegna síðasta rekstrarárs.

Við greiningu á hlutabréfum virðast markaðsaðilar annaðhvort einblína á markaðinn í heild sinni, eða á einstök félög. Lítið hefur farið fyrir greiningu á afkomu einstakra atvinnugreina. Verður sú leið farin í þessari grein, enda getur hún brúað bilið á milli hinna tveggja leiðanna.

Þessi 28 skráðu félög eru flokkuð á tvo mismunandi vegu: Í fyrsta lagi sem skráð félög samkvæmt undirvísitölum Nasdaq og í öðru lagi sem íslensk félög samkvæmt ÍSAT2008 stuðli Hagstofu Íslands. Aftur á móti getur afstaða markaðsaðila til þessara skilgreininga atvinnugeira verið ósamþýðanleg þessari flokkun. Þar sem hagstofan birtir t.d. hlutdeild hvers og eins geira skv. ÍSAT2008 staðlinum í vergri landsframleiðslu (VLF) væri freistandi að bera saman afkomu félaga í sama geira miðað við þróun á VLF. Aftur á móti eru níu af þessum félögum felld undir ÍSAT2008 flokk 64, þ.e. fjármálaþjónusta fyrir utan starfsemi vátryggingafélaga og lífeyrissjóða, þrátt fyrir það að einungis fjögur félög ættu með réttum hætti að falla þar undir. Má ef til vill rekja þessa skekkju til þeirrar staðreyndar að hin skráðu félög eru móðurfélög í samsteypum dótturfélaga, sem mundu falla í aðra ÍSAT2008 flokka og endurspegla betur starfsemi þeirra.

Arðsemi eigin fjár hluthafa 24 félaga í Kauphöllinni, miðað við einfalt meðaltal hlutafjár í byrjun og lok fjárhagsárs, var 9,6% á árinu 2024, en 10,6% á fjárhagsárinu 2023. Lækkaði arðsemi eigin fjár einnig í samanburði við meginvexti Seðlabanka, en umfram arðsemi var 0,4% á árinu 2024, en 2,4% á árinu 2023.

Af þeim sökum getur verið rétt að líta frekar til flokkunar fyrirtækja eftir eðli starfsemi þeirra, sérstaklega þegar kemur að greiningu á afkomu, skilvirkni og efnahag þeirra. Þannig má fyrst skipta þessum 28 fyrirtækjum gróflega í tvo geira; fjármála- og vátryggingafyrirtæki (6) og atvinnufyrirtæki (22). Þessi skilgreining endurspeglar skilgreiningu Seðlabanka Íslands á atvinnugeirum, en bankinn skiptir fyrirtækjum við flokkun útlána innlánsstofnana, sem falla undir eftirlit hans, þ.e. annars vegar í „atvinnufyrirtæki“ (e. non financial companies) og hins vegar í „fjármálageiri“ (e. financial companies).

Því næst má svo skipta fyrirtækjum í þessum geirum í undirflokka, sem hafa að minnsta kosti þrjú félög í hverjum. Mætti þannig skipta fjármála- og vátryggingafyrirtækjum (6) í viðskiptabanka (3) og önnur fyrirtæki (3) og atvinnufyrirtækjum (22) í félög í fasteignaviðskiptum (4), fjarskiptum (3), flutningum (3), sjávarútvegi (3) og í annarri starfsemi (9). Þar sem greiningunni er ætlað að ná til íslenskra félaga munum við undanskilja frá þessum níu félögum í annarri starfsemi þau fjögur fyrirtæki sem réttilega ættu að teljast erlend. Þau eru með höfuðstöðvar í öðru landi og með aðalskráningu hluta í annarri kauphöll, en það eru félögin Alvotech, Amaroq, JBT Marel og Oculis.

Afkoma íslenskra félaga

Af þeim 24 félögum, sem umfjöllun okkar nær til, voru átta atvinnufyrirtæki sem birtu ársreikninga sína í erlendum framsetningargjaldmiðli. Var erlendum fjárhæðum ársreikninga þeirra því umbreytt í íslenskar krónur samkvæmt árlegu meðalgengi eða árslokagengi Seðlabanka Íslands, en gengið var mjög stöðugt á milli 2023 og 2024. Varðandi aðrar hagstærðir sem geta skipt máli við svona greiningu, þá jókst VLF á milli áranna 2023 og 2024 að nafnvirði um 6,4% og að raunvirði um 0,5%. Hækkaði því verðlag um 5,9% á milli ára. Meginvextir (eða stýrivextir) Seðlabanka Íslands hækkuðu einnig á milli ára og voru að meðaltali 8,2% árið 2023, en 9,1% árið 2024.

Á fjárhagsárinu 2024 nam hagnaður, sem tilheyrði hluthöfum þessara 24 félaga, samtals 118,9 ma.kr., í samanburði við 122,3 ma.kr. á fjárhagsárinu 2023, og lækkaði því um 2,8%. Af þessum félögum skiluðu þrjú tapi á fjárhagsárinu 2024, en tvö félög á fjárhagsárinu þar á undan. Arðsemi eigin fjár hluthafa félaganna, miðað við einfalt meðaltal hlutafjár í byrjun og lok fjárhagsárs, var 9,6% á fjárhagsárinu 2024, en 10,6% á fjárhagsárinu 2023. Lækkaði arðsemi eigin fjár einnig í samanburði við meginvexti Seðlabanka, en umfram arðsemi var 0,4% á árinu 2024, en 2,4% á árinu 2023. Í lok fjárhagsársins var eitt félag með neikvætt eigið fé, en ekkert í lok fyrra fjárhagsárs. Hagnaður félaganna á hvern hlut samsvaraði 3,37 kr. á fjárhagsárinu 2024, en 3,43 kr. á árinu 2023 og lækkaði því um 1,8%. Var lækkunin á milli ára minni en á hagnaði vegna endurkaupa á eigin bréfum.

Stjórnir þessara 24 félaga gerðu tillögu til aðalfunda þeirra um ráðstöfun hagnaðar fyrra árs og námu arðgreiðslur samtals 59,6 ma.kr. vegna fjárhagsársins 2024, í samanburði við samtals 48,5 ma.kr. vegna fjárhagsársins 2023, og hækkuðu því um 23,0%. Samsvöruðu arðgreiðslurnar 50,1% af samtals hagnaði allra félaganna á fjárhagsárinu 2024, í samanburði 39,6% á fjárhagsárinu 2023. Þá námu arðgreiðslurnar 3,6% af markaðsvirði hlutafjár þessara félaga í lok fjárhagsárs. Fimm félög greiddu engan arð vegna hagnaðar á fjárhagsárinu 2024, en átta félög vegna fjárhagsársins þar á undan. Arðgreiðslu vegna ársins 2024 voru greiddar út á árinu 2025 og arðgreiðslur vegna hagnaðar ársins 2023 á árinu 2024.

Afkoma fjármála- og vátryggingafyrirtækja: Viðskiptabankar og önnur félög

Af fyrrgreindum 24 fyrirtækjum eru sex í fjármálaþjónustu, sem skipta má á milli viðskiptabanka (3) og annarra félaga (3). Fjárhagsár allra þeirra endar þann 31. desember.

Á árinu 2024 nam hagnaður viðskiptabankanna – Arion, Íslandsbanka og Kviku – samtals 58,5 ma.kr. í samanburði við 54,4 ma.kr. á árinu 2023, sem samsvarar 7,6% hækkun. Allir þrír bankarnir skiluðu hagnaði bæði árin. Arðsemi eigin fjár hluthafa þeirra var 11,4% á árinu 2024, en 11,0% á árinu 2023. Í samanburði við meginvexti Seðlabanka Íslands var arðsemin því 2,2% hærri en meðaltal þeirra á árinu 2024, en 2,8% hærri en meðaltalið á árinu 2023.

Hagnaður viðskiptabankanna á hvern hlut nam 7,25 kr. á árinu 2024, í samanburði við 6,60 kr. á árinu 2023, og hækkaði því um 9,9%. Hækkunin var meiri en aukning á hagnaði, þar sem fjöldi útistandandi hluta lækkaði um 2,1% að meðaltali á milli ára. Skýrist breytingin á endurkaupum á eigin bréfum, sem námu samtals að fjárhæð 23,1 ma.kr. á árinu 2024. Aðalfundir bankanna fyrir nýliðið starfsár samþykktu arðgreiðslur vegna afkomu af reglulegum rekstri þeirra upp á 30,4 ma.kr., í samanburði við 25,4 ma.kr. á fyrra ári. Skýrist hækkunin, sem var 19,8%, aðallega af því að í fyrra greiddu einungis tveir bankar arð til hluthafa sinna, en allir þrír á þessu ári. Samsvöruðu arðgreiðslurnar 51,9% af hagnaði ársins 2024 og 5,4% af markaðsvirði hlutafjár í árslok.

Á árinu 2024 nam hagnaður annarra fjármála- og vátryggingafélaga – Sjóvár, Skaga og Skeljar – samtals 13,3 ma.kr. í samanburði við 11,8 ma.kr. á árinu 2023, sem samsvarar 11,6% hækkun. Arðsemi eigin fjár hluthafa þeirra var 15,3% á árinu 2024, en 15,4% á árinu 2023 og hélst því stöðug. Hagnaður á hvern hlut nam 2,69 kr. á árinu 2024, í samanburði við 2,38 kr. á árinu 2023. Þessi 12,9% hækkun skýrist bæði af hækkun hagnaðar og lækkunar á útistandandi hlutum vegna endurkaupa. Aðalfundir félaganna fyrir nýliðið starfsár samþykktu arðgreiðslur sem námu samtals 9,9 ma.kr., í samanburði við 4,2 ma.kr. á fyrra starfsári. Skýrist rúmlega tvöföldun á arðgreiðslum af verulegri hækkun á arðgreiðslu eins þessara félaga, sem verður greidd út í tveimur hlutum. Arðgreiðsla, sem hlutfall af hagnaði, hækkaði því í 74,7% vegna ársins 2024, úr 35,2% vegna ársins 2023, en öll félögin þrjú greiddu út arð bæði árin. Samsvöruðu arðgreiðslurnar 74,7% af hagnaði ársins 2024 og 7,6% af markaðsvirði hlutafjár í árslok.

Afkoma atvinnufyrirtækja

Rekstrartekjur þeirra 18 atvinnufyrirtækja, sem greiningin nær til, námu samtals 887,5 ma.kr. á starfsárinu 2024, í samanburði við samtals 876,8 ma.kr. árið 2023. Var nafnvöxtur í rekstrartekjum, sem var 1,2%, á milli starfsára, því töluvert lægri en nafnvöxtur í VLF, sem var 6,4% á milli 2023 og 2024. EBITDA þessara 18 fyrirtækja nam samtals 132,1 ma.kr. á starfsárinu 2024, en samtals 145,8 ma.kr. á starfsárinu 2023, og lækkaði þar af leiðandi um 9,4%. EBITDA, sem hlutfall af rekstrartekjum, féll því í 14,9% á starfsárinu 2024, úr 16,6% á starfsárinu 2023.

Hagnaður atvinnufyrirtækjanna nam samtals 47,1 ma.kr. á starfsárinu 2024, en 61,5 ma.kr. á starfsárinu 2023 og lækkaði því um 23,3% á milli ára. Á árinu 2024 skiluðu þrjú fyrirtæki tapi, í samanburði við tvö á árinu 2023. Eitt félag var með neikvætt eigið fé í árslok 2024, en ekkert í árslok 2023. Að meðtöldum þessum félögum nam arðsemi eigin fjár þeirra samtals 7,3% á starfsárinu 2024, en 10,6% á starfsárinu 2023. Var arðsemi eigin fjár því 1,8% lægri en meginvextir Seðlabanka Íslands á árinu 2024, en 2,4% hærri en meginvextir Seðlabanka Íslands á árinu 2023. Hagnaður á hvern hlut nam 2,11 kr. á starfsárinu 2024, en 2,52 kr. á starfsárinu 2023, og lækkaði því um 16,3% á milli ára, eða um lægra hundraðshlutfall heldur en hagnaður vegna kaupa sumra félaga á eigin bréfum. Stjórnir þessara 18 félaga hafa gert tillögur til aðalfunda þeirra um arðgreiðslu vegna nýliðins fjárhagsárs, sem samsvara samtals 19,3 ma.kr., í samanburði við samtals 19,7 ma.kr. vegna fjárhagsársins þar á undan, eða sem nemur 1,8% lækkun. Fimm af þessum atvinnufyrirtækjum greiddu engan arð vegna nýliðins starfsárs, en átta vegna starfsársins þar á undan, þar af öll fyrrgreind fimm félög.

Félög í fasteignaviðskiptum

Rekstrartekjur þeirra fjögurra félaga, sem stunda fasteignaviðskipti, þ.e. Eikar, Heima, Kaldalóns og Reita, námu samtals 47,3 ma.kr. á árinu 2024, í samanburði við 43,3 ma.kr. á árinu 2023, og hækkuðu þannig um 9,1% á milli ára. EBITDA félaganna, fyrir matsbreytingar, nam samtals 31,9 ma.kr. á árinu 2024, í samanburði við 29,5 ma.kr. á árinu 2023, og hækkuðu því um 8,1%. Hlutfall EBITDA af rekstrartekjum hélst því nokkuð stöðugt á milli ára.

Samtals hagnaður fasteingafélaganna nam 33,2 ma.kr. á árinu 2024, í samanburði við 20,3 ma.kr. á árinu 2023, sem samsvarar hækkun um 63,3% á milli ára. Rekja má þessa miklu hækkun á hagnaði, sem nam 12,9 ma.kr., í samanburði við hækkun á EBITDA, sem nam einungis 2,4 ma.kr., til matsbreytinga fjárfestingareigna, sem hækkuðu um 8,5 ma.kr. á milli ára. Hagnaður félaganna á hvern hlut nam 4,73 kr. á árinu 2024, í samanburði við 2,87 kr. á árinu 2023, og hækkaði þannig um 64,6%, eða sama hundraðshlutfall og hagnaður þeirra. Arðsemi eigin fjár félaganna var samtals 16,4% á árinu 2024, í samanburði við 11,1% á árinu 2023. Þá samþykktu aðalfundir hluthafa þeirra arðgreiðslu að samtals fjárhæð 6,7 ma.kr. vegna ársins 2024, í samanburði við 4,0 ma.kr. vegna ársins 2023. Skýrist hækkunin m.a. af því að þrjú félög greiddu út arð vegna ársins 2024, en tvö félög vegna ársins 2023.

Félög í fjarskiptum

Rekstrartekjur þeirra þriggja félaga í fjarskiptum – Nova, Síminn og Sýn – námu samtals 62,0 ma.kr. á árinu 2024, í samanburði við 59,7 ma.kr. á árinu 2023, og hækkuðu þannig um 4,0% á milli ára. EBITDA félaganna nam samtals 16,1 ma.kr. á árinu 2024, í samanburði við 15,4 ma.kr. á árinu 2023, og hækkuðu því um 4,9%. Hlutfall EBITDA af rekstrartekjum hélst þar af leiðandi nokkuð stöðugt á milli ára.

Hagnaður félaganna nam samtals 670 m.kr. á árinu 2024, í samanburði við 4,2 ma.kr. á árinu 2023. Hagnaður jókst hjá tveimur félögum á milli ára, en þriðja félagið sveiflaðist yfir í tap árið 2024, úr hagnaði árið 2023. Arðsemi eigin fjár þessara tveggja félaga, sem voru rekin með hagnaði bæði árin, nam 8,0% á árinu 2024, í samanburði við 5,8% á árinu 2023. Hagnaður þeirra á hvern hlut nam 0,35 kr. á árinu 2024, en 0,31 kr. á árinu 2023, og hækkaði því um 14,5% á milli ára. Félögin tvö greiddu samtals arð að fjárhæð 800 m.kr. vegna ársins 2024, en annað þeirra greiddi eitt félaga arð að fjárhæ 500 m.kr. vegna ársins 2023.

Félög í flutningum

Rekstrartekjur þeirra flutningsfyrirtækjanna þriggja – Eimskip, Icelandair og Play – námu samtals 383,4 ma.kr. á árinu 2024, í samanburði við 371,1 ma.kr. á árinu 2023, og hækkuðu þannig um 3,3%. Hækkunin var svipuð hjá öllum þremur félögum. EBITDA félaganna nam samtals 35,3 ma.kr. á árinu 2024, í samanburði við 41,6 ma.kr. á árinu 2023, og lækkaði því um 15,1% á milli ára. EBITDA allra þriggja félaga lækkaði á milli ára. Hlutfall EBITDA af rekstrartekjum var 9,2% á árinu 2024, en 11,2% á árinu 2023. Öll félögin nota erlenda framsetningargjaldmiðla í ársreikningum sínum.

Hagnaður félaganna var neikvæður um 7,4 ma.kr. á árinu 2024, en jákvæður um 4,8 ma.kr. á árinu 2023, en einungis eitt félag skilaði hagnaði bæði árin. Félagið greiddi eitt þessar fyrirtækja í flutningum bæði árin, þ.e. 2,2 ma.kr. vegna ársins 2024, í samanburði við 3,7 ma.kr. vegna ársins 2023.

Félög í sjávarútvegi

Rekstrartekjur sjávarútvegsfélaganna þriggja, þ.e. Brims, Ísfélags og Síldarvinnslunnar, námu samtals 126,5 ma.kr. á árinu 2024, í samanburði við 147,7 ma.kr. á árinu 2023, og lækkuðu þannig um 14,3% á milli ára. Af þeim flokkum atvinnufyrirtækja, sem við styðjumst við, var sjávarútvegurinn sá eini sem sá rekstrartekjur falla á milli ára. EBITDA félaganna nam samtals 28,0 ma.kr. á árinu 2024, í samanburði við 41,1 ma.kr. á árinu 2023, og lækkaði því um 31,8% á milli ára. Var lækkunin, sem var svipuð hjá öllum þremur félögum, nær tvöfalt meiri heldur en hjá fyrirtækjum í flutningum. Öll sjávarútvegsfyrirtækin nota erlenda framsetningargjaldmiðla í ársreikningum sínum, rétt eins og flutningafyrirtækin.

Hagnaður félaganna þriggja var samtals 14,3 ma.kr. á árinu 2024, í samanburði við 24,8 ma.kr. á árinu 2023, sem samsvarar 42,2% lækkun. Arðsemi eigin fjár var 6,1% á árinu 2024, í samanburði við 11,9% á árinu 2023. Hagnaður á hvern hlut nam að meðaltali 3,12 kr á árinu 2024, í samanburði við 5,58 kr. á árinu 2023 og lækkaði því um 44,0%, eða svipað hlutfall og samtals hagnaður. Félögin greiddu öll arð, sem nam 7,5 ma.kr. vegna ársins 2024 og 9,1 ma.kr. vegna ársins 2023, sem samsvarar 18,3% lækkun. Arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði námu 52,1% vegna ársins 2024, en 36,9% vegna ársins 2023. Arðgreiðslur, sem hlutfall af markaðsvirði í árslok, námu1,7%.

Félög í annarri starfsemi

Samantektin hér á undan hefur náð til 13 af 18 atvinnufyrirtækjum. Þau félög sem falla utan flokkunar eru því fimm, þ.e. Festi, Hagar, Hampiðjan, Iceland Seafood og Ölgerðin. Augljóst er að Festi og Hagar séu sambærileg, enda falla félögin undir sama ÍSAT2008 staðalinn – smásöluverslun – að undanskildum vélknúnum ökutækjum, sem er nr. 47. Aftur á móti er nauðsynlegt að skilgreina atvinnugreinaflokk á svo litlum markað eins og Aðalmarkaði Kauphallarinnar er með einungis 28 félögum. Þá er erfitt að bæta einhverjum af hinum félögunum við vegna ólíkrar starfsemi, enda eru þau flokkuð undir þrjá mismundandi flokka eftir fyrrnefndum staðli.


Höfundur er fyrrverandi forstjóri Bankasýslu ríkisins og hefur starfað á fjármálamarkaði í meira en þrjátíu ár, lengst af hjá alþjóðlega fjár­fest­ing­ar­bank­an­um Merrill Lynch. 


Tengdar fréttir

Greiðslur til hlut­hafa Kviku munu nema um þrjátíu milljörðum eftir söluna á TM

Góður gangur í rekstri TM á síðustu fjórðungum þýðir að endanlegt kaupverð Landsbankans á tryggingafélaginu verður að líkindum yfir 32 milljarðar og mun meðal annars skila sér í talsvert meiri útgreiðslum til hluthafa Kviku en áður var talið þegar viðskiptin klárast á næstu vikum. Uppgjör Kviku banka á fjórða ársfjórðungi, sem var að mestu í takt við væntingar, sýndi áframhaldandi bata á grunnrekstrinum en stjórnendur félagsins sjá tækifæri í að auka vaxtamuninn enn frekar með bættum vaxtakjörum í útgáfum á erlendum mörkuðum.

Stjórn SKEL boðar sex milljarða arð­greiðslu til hlut­hafa

Fjárfestingafélagið SKEL, sem fer með meirihluta í Styrkás, hefur ákveðið að bjóða um tíu til fimmtán prósenta eignarhlut í innviðafyrirtækinu til sölu en stefnt er að skráningu þess innan tveggja ára. Þá boðar stjórn SKEL arðgreiðslu til hluthafa – í tveimur jöfnum greiðslum – upp á sex milljarða, nánast allur hagnaður síðasta árs, en það er sambærileg fjárhæð og hefur verið greidd út samanlagt til hluthafa frá árinu 2018.




Umræðan

Sjá meira


×