Skoðun

Heims­sýn úr músar­holu – Gengur það?

Ole Anton Bieltvedt skrifar

Ég hef kynnst ýmsum ágætum mönnum, vel menntuðum og skynsömum í sumu, sem svo hafa verið alveg úti að aka í öðru. Vantar þar oft í þá heila brú. Þetta gæti t.a.m. átt við um veðurfræðinginn Harald Ólafssson, formann Heimssýnar.

Í Heimssýn er hópur manna, ekki vondra eða illviljaðra, en afkapalega þröngsýnna. Með – fyrir mér – músarholusjónarmið í mjög mörgu. Svona hægri-hægri menn. Svipaðir og fólkið í AfD í Þýzkalandi, Wilders-fólkið í Hollandi og Le Pen mannskapurinn í Frakklandi.

Þetta fólk er ekki bara yfirkeyrt í sinni þjóðlegu afstöðu, heldur hefur það alþjóleg viðhorf, sem fyrir mér eru undarleg; sumir/margir dá Trump, og aðrir, undarlegt nokk, Pútín. Standa jafnvel með Rússlandi í Úkrínustríðinu.

Nefndur Haraldur Ólafsson studdi Arnar Þór Jónsson í forsetakosningunum. Auðvitað mátti hann það, og Arnar Þór er fínn um margt, en þetta segir samt sína sögu um pólitísk viðhorf og stefnu Haraldar.

Haraldur skrifaði grein hér á Vísi á dögunum með fyrirsögninni: „Jæja, ræðum þá þetta dá­sam­lega Evrópusamband“, sem ég tel um margt eða flest gefa villandi eða ranga mynd af ESB.

Ég bjó í hjarta ESB í 27 ár, kynntist ESB innan frá, allan þennan tíma, og ég hef líka fylgzt gjörla með ESB og Evru eftir það. Ég hef ennfremur heimsótt höfuðstöðvar ESB í Brussel og Evrópska Seðlabankann í Frankfurt og átt þar viðræður við leiðandi menn um bæði almennar spurningar og mögulega aðild Íslands.

Haraldur talar um tíu ókosti“. Við skulum líta á það helzta, sem Haraldur fullyrðir:

Evrópusambandið er ólíkt Íslandi. Í þeim ríkjum sem þar fara með stjórn byggir efnahagurinn á framleiðslu og sölu á háþróuðum iðnvarningi, löndin eru þéttbýl og samfélögin stór“.

Það er langt í frá, að öll aðildarríkin séu háþróuð iðnríki, hvað þá þéttbýl eða stór samfélög. Eftirfarandi aðildarríki er öll lítil, sum svipuð og við eða litlu stærri og langt frá því að vera háþróuð, stór iðnríki. T.a.m. þessi: Eistland, Kýpur, Lettland, Lúxemborg, Malta, Slóvenía. Allt lítil ríki, með margvíslegan atvinnurekstur, að hluta til svipaðan og við, eins og t.a.m. Malta.

Haraldur segir svo:

Evrópusambandið er tollabandalag 5% mannkyns. Það hefur og mun eflaust eiga í viðskiptadeilum við aðra hluta heimsins“.

Þegar markaðs- eða tollabandalög eru mæld og ávinningur við þátttöku í þeim metinn, gildir auðvitað ekki mannfjöldi, heldur stærð markaðarins. ESB stendur fyrir 14% af heimsviðskiptunum, auk þess, sem ESB er með fríverzlunarsamninga við Japan, S-Kóreu og Kanada. Í gegnum EES-samninginn höfum við þó ekki aðgang að þessum fríverzlunar-samningum.

Þetta þýðir, að fullgilt ESB-aðildarríki, Ísland, ef við værum með, hefum frjálsan, ótakmarkaðan og mest tollfjálsan aðgang að 20% af heimsmarkaðinum, eins og staðan er nú, en ESB er líka langt komið í samningaumleitunum við Indland, Indónesíu og MERCOSUR ( Brasilíu, Argentínu o.fl.) um fríverzlun. Þarna er algjör risamarkaður í uppsiglingu.

Hvert mannsbarn ætti að skilja, hversu ómetanlegur frjáls, óheftur og tollfrjáls aðgangur að þessum risamarkaði væri.

Þá segir Haraldur:

Lög Evrópusambandsins gilda í öllum löndum Evrópusambandsins og ganga framar heimasömdum lögum“.

Hér hallar Haraldur réttu máli. Gefur alranga, falska, mynd. ESB er tolla- og markaðsbandalag, þar sem 30 þjóðir, 27 ESB-lönd og svo Noregur, Lichtenstein og Ísland koma saman á sameiginlegum frjálsum og mest tolllausum markaði.

Til að þessir 30 aðilar geti keppt á grundvelli sömu reglna, skilmála og laga, setið við sama borð, verða skilyrðin - reglur og lög fyrir þátttöku, leikreglur – að vera þau sömu. Öll ríkin 30, stór og smá, verða að sætta sig við þessar sömu leikreglur. Annars myndi þessi stóri, sameiginlegi markaður ekki virka.

Öll önnur önnur reglugerða- og lagasetning er hins vegar á allan hátt í höndum aðildarríkjanna sjálfra. Þjóðþinga þeirra. ESB kemur þar hvergi nálægt.

Þá þessi haldlausa fullyrðing Haraldar:

„Evra hentar Íslandi illa. Gengi evru tekur mið af öðrum aðstæðum en eru á Íslandi. Evra útvegar ekki ódýrt lánsfjármagn“.

Ég nefndi í byrjun 6 minni ríki, sem eru mjög ólík, hvað varðar innviði og hagkerfi, Eistland, Kýpur, Lettland, Lúxemborg, Möltu og Slóveníu, sem öll sóttu það fast að fá Evru og njóta hennar nú.

Nefna má líka 6 önnur smáríki, sem hafa allt aðra þjóðfélagsgerð og sóttu það fast á sínum tíma, að fá að nota Evru, þó að þau hefðu ekki fengið inngöngu í ESB; Svartfjallaland, Kosóvó, Vatíkanið, Monakó, Andorra, San Marinó.

Evran tryggir öllum þessum gjörólíku löndum efnahagslegan stöðugleika og veitir þeim traustan grunn fyrir þeirra efnahagslegu uppbyggingu og framsókn, auk allra lægstu vaxata á lánsfé, sem aftur örvar fjárfestingu og efnahagslega framsókn. Evran myndi henta Íslandi líka. 100%.

Loks vil ég fjalla um eftrifarandi rangfærslu Haraldar:

„Ógerningur er fyrir smáþjóð að komast aftur út úr sambandinu. Það er ekki ætlast til þess að þjóðir yfirgefi klúbbinn. Það kom mjög skýrt í ljós í tengslum við Brexit“.

Þessi fullyrðing er út í hött. Aðildarríki getur yfirgefið ríkjasambandið nánast með einnar línu einhliða tilkynningu og þá strax. Hins vegar myndi þá öll aðstaða og réttindi, aðgangur að ESB, falla úr gildi samstundis líka.

Ástæða þess, að Bretland lenti í miklum erfiðleikum við að komast út úr ESB, var ekki tæknilegir uppsagnar- eða útgönguörðugleikar, heldur sú staðreynd, að Bretar vildu halda margvíslegum réttindum og fríðindum, þó þeir væru að ganga út, sem auðvitað gekk ekki upp. Réttindi án skuldbindinga er auðvitað óþekkt fyrirbrigði, en það tók Boris Johnson og félaga nokkurn tíma að skilja það.

Hér hefur verið farið í gegnum það helzta af villandi málflutningi og rangfærslum Haraldar Ólfasson, formanns Heimssýnar, um ESB og hugsanlega fulla aðild okkar að sambandinu.

Þegar ég skoða stöðu Haraldar hér betur, á Facebook og annars staðar, sé ég, að hann er bæði veðurfræðingur og prófessor í veðurfræði. Eflaust er hann ágætur þar, en í alþjóðlegum efnahags- og markaðsmálum, Evrópusambandinu, ekki.

Ég mæli því með, að hann haldi sér við veðrið. Helzt alfarið.

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.




Skoðun

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×