Klinkið

Sara Lind ráðin fram­kvæmda­stjóri Cli­meworks á Ís­landi

Ritstjórn Innherja skrifar
Sara Lind mun taka við stöðu framkvæmdastjóra svissneska fyrirtækisins hér á landi um næstu mánaðarmót.
Sara Lind mun taka við stöðu framkvæmdastjóra svissneska fyrirtækisins hér á landi um næstu mánaðarmót.

Sara Lind Guðbergsdóttir, sem hefur meðal annars gegnt stöðu setts forstjóra Ríkiskaupa og Orkustofnunar, mun á næstunni taka við sem framkvæmdastjóri Climeworks hér á landi. Svissneska félagið starfrækir stærsta lofthreinsiver á heimsvísu á Hellisheiði í samstarfi við Carbfix og Orku náttúrunnar.

Climeworks sérhæfir sig í að fanga koltvísýring úr andrúmsloftinu og binda hann varanlega en fyrirtækið langstærst á þeim markaði. Fyrr á þessu ári opnaði lofthreinsiverið Mammoth, sem Climeworks hóf byggingu á í júní 2022, en það er hannað til að fanga allt að 36.000 tonn af kolt­ví­sýr­ingi á ári sem er síðan dælt niður og bund­inn í jarðlög með tækni Car­bfix, dótturfyrirtæki Orkuveitunnar.

Mammoth er önnur stöð Climeworks hér á Íslandi og er tíu sinn­um stærri en sú fyrri sem ber heitið Orca.

Sara Lind, sem er lögfræðingur að mennt, segir það vera heiður að taka við sem framkvæmdastjóri Climeworks hér á landi en hún mun hefja störf 1. október næstkomandi. Hún hlakki til að vinna með hæfileikaríku teymi Climeworks og öðrum þeim sem deila sýn fyrirtækisins um sjálfbæra framtíð.

Mammoth, stærsta lofthreinsiver heims, fangar koltvísýring úr andrúmslofti og breytir í stein með tækni Carbfix.

Sara Lind var tímabundið sett í embætti forstjóra Orkustofnunnar fyrr á þessu ári til að fylgja eftir verkefnum sem ráðuneytið setti af stað við greiningu á starfsemi raforkueftirlits og átaksverkefni um meðferð og afgreiðslu umsókna leyfa til nýtingar auðlinda sem þegar lágu fyrir hjá stofnunni. Áður hafði hún einnig um tíma verið settur forstjóri Ríkiskaupa auk þess að hafa gegnt þar stöðu sviðsstjóra til að stýra stefnumótun og áætlanagerð stofnunarinnar.

Þá starfaði Sara Lind áður meðal annars sem sérfræðingur í kjara- og mannauðssýslu hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og var í samninganefnd ríkisins í kjarasamningsviðræðum.

Climeworks hefur gefið það út að opnun lofthreinsiversins Mammoth í Jarðhitagarðinum á Hellisheiði sé mikilvægt skref í vexti og þróun fyrirtækisins en markmið þess er að fanga megatonn af kolt­ví­sýr­ingi árið 2030 og gígat­onn árið 2050.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×