Helix framleiðir og þróar hugbúnaðarlausnir sem styðja við íslenskt heilbrigðis- og velferðarkerfi. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Arna Harðardóttir, segir í tilkynningu að með ráðningunum sé þjónusta til notenda efld enn frekar auk þess sem stigið verði fasta til jarðar í sölu- og markaðsmálum.
Ingi Rúnar Kristinsson verður sölustjóri Helix og mun sinna söluáætlunum, samningagerðum og viðskiptatengslum fyrir fyrirtækið. Hann starfaði áður sem sölustjóri hjá Hreyfingu. Ingi útskrifaðist með BSc gráðu í heilbrigðisverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2019 og MSc gráðu í íþróttaverkfræði frá KTH í Stokkhólmi árið 2022.
Almar Daði Björnsson hefur verið ráðinn sem þjónustusérfræðingur hjá Helix og mun hann bera ábyrgð beiðnum sem koma frá viðskiptavinum, ásamt því að taka þátt í innleiðingum hugbúnaðarlausna. Hann starfaði áður sem sérfræðingur á upplýsingatæknideild á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Almar útskrifaðist með BSc gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2024.
Kristinn Skæringur Sigurjónsson tekur við sem þjónustusérfræðingur hjá Helix og mun hann sinna þjónustu í kringum samskiptanetið Heklu, ásamt því að veita þjónustu við Sögu sjúkraskrá og lyfjaafgreiðslukerfið Medicor. Hann starfaði áður hjá hugbúnaðarfyrirtækinu ZOLL Data Systems í Denver, Colorado. Kristinn útskrifaðist með BSc gráðu í tölvunarfræði frá Wofford College í Suður Karólínu árið 2021.
Henný Björk Birgisdóttir hefur verið ráðin sem sérfræðingsnemi í stafrænni heilbrigðistækni og mun hún taka þátt í innleiðingum á lausnum Helix, ásamt því að vera hluti af teyminu sem þróar smáforritið Iðunni. Síðastliðin sjö ár hefur hún starfað sem hjúkrunarfræðingur á Barnaspítala hringsins ásamt því að vera stundakennari við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Henný Björk útskrifaðist með MSc gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2019 og hún stefnir á að útskrifast með MSc gráðu í stafrænni heilbrigðistækni frá Háskólanum í Reykjavík í byrjun næsta árs.