Golf

Málið gegn Scheffler fellt niður: Ber engan kala til löggunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scottie Scheffler þarf ekki lengur óttast réttarhöld og málið ætti að vera úr sögunni.
Scottie Scheffler þarf ekki lengur óttast réttarhöld og málið ætti að vera úr sögunni. AP/LM Otero

Besti kylfingur heims sleppur með skrekkinn og þarf ekki lengur að óttast það að lenda á bak við lás og slá.

Lögreglan hefur fellt niður málið gegn bandaríska kylfingnum Scottie Scheffler sem vann handtekinn fyrir utan Valhalla klúbbhúsið á miðju PGA meistaramótinu fyrr í þessum mánuði.

Scheffler var sakaður um að keyra bílnum sínum inn á lokað svæði en banaslys varð fyrir utan golfvöllinn og langar bílaraðir mynduðust. Scheffler ætlaði að lauma sem fram hjá því en var stöðvaður.

Fyrst kom fram í fjölmiðlum svakaleg lýsing lögreglumannsins á að hann hafi dregist með bílnum og að Scheffler hafi sýnt mótþróa við handtökuna. Það var ekki kveikt á myndavél lögreglumannsins en myndbönd frá fólki sem var nálægt atvikinu sýndi ekki nærri því eins svarta mynd af hegðun Scheffler.

Málið vakti gríðarlega athygli enda Scheffler þarna að mæta til leiks til að byrja sinn annan hring á mótinu. Hann var leystur út gegn tryggingargjaldi og kláraði hringinn og svo mótið.

„Ég ber engan kala til lögreglumannsins [Bryan] Gillis. Ég óska þess að þetta má sé úr sögunni og ég vona að honum líði eins,“ skrifaði Scheffler á samfélagsmiðla.

„Starf lögreglumanna er erfitt og ég ber mikla virðingu fyrir þeim. Þetta var stór misskilningur í mikilli ringulreið,“ skrifaði Scheffler.

„Ég þakka fyrir þann stuðning sem ég hef fengið undanfarnar tvær vikur og vil aftur hvetja alla til að gleyma ekki alvöru harmleiknum sem varð 17. maí. Hugur minn og bænir halda áfram að vera hjá John Mills og fjölskyldu hans. Ég sendi þeim mínar samúðarkveðjur nú þegar málið er úr sögunni,“ skrifaði Scheffler en bílslysið fyrir utan golfklúbbinn var banaslys.

Þrátt fyrir allt sem gekk á þá lék Scheffler á þrettán höggum undir pari og endaði í áttunda sæti. Hann lék hringinn eftir fangelsisdvölina á 66 höggum eða fimm höggum undir pari.

Scheffler er efstur á heimslistanum í golfi og hefur verið lengi. Hann hefur unnið fjögur PGA-mót á þessu ári þar á meðal bæði Mastersmótið og Players mótið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×