Atvinnulíf

„Oft sömu aðilar og verða öskureiðir ef þú rangkynjar köttinn þeirra eða hundinn“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, frumkvöðull, framkvæmdastjóri og ráðgjafi heildræns nets- og upplýsingatækni, meðstofnandi future 404ehf og fulltrúi í ráðgjafahópi Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlega stjórnsýslu internetsins, telur eðlilegra að félagsstarf fyrir karlmenn ætti að opnast og aðlagast utan tvíkynjunar, eins og samtökin Vertonet sem er fyrir konur og kvára í tækniheiminum. Mikilvægt sé að enginn sé útilokaður.
Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, frumkvöðull, framkvæmdastjóri og ráðgjafi heildræns nets- og upplýsingatækni, meðstofnandi future 404ehf og fulltrúi í ráðgjafahópi Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlega stjórnsýslu internetsins, telur eðlilegra að félagsstarf fyrir karlmenn ætti að opnast og aðlagast utan tvíkynjunar, eins og samtökin Vertonet sem er fyrir konur og kvára í tækniheiminum. Mikilvægt sé að enginn sé útilokaður. Vísir/Vilhelm

„Þetta er ekkert svo flókið og snýst ekkert um það að fólk þurfi að passa sig á því hvort það eigi að segja hún, hann eða hán. Þetta snýst meira um þá sem rangkynja meðvitað, sem oft eru sömu aðilar og verða öskureiðir ef þú rangkynjar köttinn þeirra eða hundinn,“ útskýrir Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns.

Oktavía er frumkvöðull, framkvæmdastjóri og ráðgjafi heildræns nets- og upplýsingatækni. Oktavía er meðstofnandi þankatanksins future404 ehf. og hefur í og með unnið að verkefnum tengdum honum. Þá situr Oktavía í ráðgjafahóp Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlega stjórnsýslu internetsins.

„Oft bendi ég líka fólki bara á að nota nöfn ef fólk er ekki viss um hvaða fornafn þú átt að nota,“ segir Oktavía, en hán er líka nýkjörið í stjórn Vertonet, samtaka kvenna og kvára í upplýsingatækni á Íslandi.

Í Vertonet eru um eitt þúsund meðlimir og nú þegar hafa 21 fyrirtæki og menntastofnanir sameinast um að vinna að markmiðum Vertonet um að fjölga konum og kvárum í tæknigeiranum.

Stærsti viðburður Vertonet er Hvatningadagurinn sem haldinn var fyrr í vor. Í tilefni hans, fjallar Atvinnulífið um stöðu kvenna og kvára í tæknigeiranum.

Staða kvára: Íslenskan mjög kynjuð

Eitt af því sem er svolítið sérstakt við sögu Oktavíu er að hán hefur meira og minna búið erlendis lungað af sinni ævi.

Flutti til Danmerkur sjö ára en hefur síðan þá búið í Bandaríkjunum og Þýskalandi, en unnið í styttri tímabil um allan heim.

Hán talar því eða hefur kunnáttu í um sjö tungumálum en segir íslenskuna það tungumál sem kynjar hvað mest.

Við meira að segja kynjum lýsingarorðin og ég viðurkenni það alveg að þegar að ég flutti aftur heim til Íslands eftir um þrjátíu ára fjarveru, tók það mig nokkurn tíma að venjast því hversu kynjað tungumál íslenskan og þar með menningin getur verið. 

Því satt best að segja hef ég sjaldan talað svona kynjað tungumál annars staðar.“

En hvers vegna að efla konur og kvár í upplýsingatækni, er ekki venjan sú að horfa frekar til aðeins kvenna?

„Þessu er auðsvarað,“ svarar Oktavía að bragði.

„Þegar það var fyrst nefnt við mig að ganga í Vertonet var mér sagt að þetta væru samtök fyrir konur í upplýsingatækni. Og ég hugsaði bara með mér: Já frábært, en ég er ekki kona. Og afþakkaði því boðið. Stjórn Vertonet brást hins vegar hratt við og á næsta aðalfundi var því bætt við að samtökin væru fyrir konur og kvár.“

Hán segir mikilvægt í einu og öllu að fanga fjölbreytileikann. Annars er hætta á að dýrmæt þekking og reynsla sóast.

„Við byggjum betri hugbúnað og innviði internetsins með fjölbreyttu fólki.“

Í Vertonet eru um eitt þúsund meðlimir en markmið félagsins er að fjölga og efla konum og kvárum í tæknigeiranum. Þegar hafa 21 fyrirtæki og menntastofnanir gengið í samstarf við Vertonet enda fyrirséð að mikill skortur er og verður á tæknimenntuðu fólki næstu árin.

Lítil þjóð en stórt breytingarafl

Löngum hefur verið kvartað undan því hversu þreytandi það getur verið fyrir konur, þegar vinnuteymi tala saman og orðræðan er eitthvað á þá leið að vera til dæmis:

„Hey strákar, við bara klárum þetta.“

Það sama á við um hvernig kvár upplifa þessa orðræðu.

„Ég var 37 ára þegar að ég flutti aftur til Íslands og lærði þá fljótt að það er ýmislegt í umræðunni sem skiptir máli hér. En ég ólst ekki upp í samfélaginu, var ekki í menntaskóla með þessum eða hinum og fyrir vikið ekki í hefðbundum tengslanetum ósjálfráðu meðvirkni samtryggingarinnar sem líka Ísland býr yfir. Þar af leiðandi er mér tamt að taka ekkert endilega þátt í því að vera í einhverju óskilgreindu boxi sem samfélagið hefur búið til,“ segir Oktavía.

Að mati Oktavíu væri því eðlilegra að félagsstarf gengi út á að útiloka enga hópa. Félagsstarf fyrir karlmenn ætti frekar að opnast og aðlagast þeim utan tvíkynhyggjunar og sama gildir félagsstarf fyrir konur sem eins og Vertonet er fyrir konur og kvár.

Ísland er lítil þjóð en risastórt breytingarafl og af því að við erum svo fámenn, höfum við tækifæri til að leiða breytingar til betri vegar.“

Sem dæmi segir Oktavía.

„Ísland er til dæmis eitt af um þrettán löndunum í heiminum sem er með þrjú kyn. Þetta þýðir að í hagstofutölum er hægt að sjá hversu fjölmennur hópur er skráður sem kvár og hér getur fólk fengið kynsegin vegabréf til að ferðast með. Sem er mjög jákvætt en því miður jafnvel hættulegt í sumum tilvikum því fyrir kvár getur það einfaldlega verið hættulegt.“

Sem dæmi tekur Oktavía Saudí Arabíu, en þar verður haldin stór ráðstefna í desember á vegum ráðgjafahóps Sameinuðu þjóðanna sem Oktavía situr í.

Þessi staðsetning var ákveðin fyrir mína tíð, og hefur Saudí Arabía beit sér gegn kynrættusjálfræði og opnu og frjálsu interneti innan Sameinuðu þjóðanna. 

En ég spurði strax: Og hvernig sjáið þið fyrir ykkur e-visa skráningu og öryggi kvára? Og á hvaða klósett á ég að fara þar? 

Því í Saudí Arabíu er ekki langt síðan maður var hálshöggvinn fyrir það eitt að vera hommi.“

Oktavía segist ekkert vita það enn, hvort hán muni taka ákvörðun um að fara á umrædda ráðstefnu í desember.

„En ef ég geri það, væri það gott dæmi um hvernig fulltrúi frá litla landinu Ísland gæti verið sterk rödd á alþjóðavettvangi sem myndi spyrja um slík réttindi. Þannig erum við oft svo leiðandi sem lítil þjóð en stórt breytingarafl.“

Oktavía situr í ráðgjafahópi Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlega stjórnsýslu internetsins og hún segir Ísland litla þjóð en risastórt breytingarafl sem svo sannarlega geti haft áhrif á alþjóðlegum vettvangi. Oktavía bjó erlendis í 30 ár og segir að af þeim sjö tungumálum sem hún þekki til, er íslenskan það tungumál sem er hvað mest kynjuð. Vísir/Vilhelm

Fjölbreytileikinn tryggir betri árangur

Oktavía hélt erindi á Hvatningardegi Vertonet í vor og var yfirskrift fyrirlestursins: Að fitta inn eða fríka út.

Sem Oktavía segir málið svolítið snúast um.

„Við viljum tryggja fjölbreytileika í tæknigeiranum til að búa til betri vörur. Þannig sé ég þetta. Fjölbreytileikinn í tæknigeiranum er því ekki rjóminn af kökunni, heldur kakan sjálf.“

Til þess að fagna fjölbreytileikanum, segir Oktavía mikilvægt að fyrirtæki vinni mjög markvisst að sterkri vinnustaðamenningu, sem endurspeglar þetta.

„Ég nefni sem dæmi vinnustaðamenninguna hjá fyrirtækinu Kolibri. Sem er geggjuð flott og tryggir meira en að fólk fái bara að vera með. Því sterk vinnustaðamenning sem fagnar fjölbreytileikanum tryggir líka að allt fólk fái að njóta sín og vaxa og dafna í starfi.“

Oktavía segir fjölbreytileikann svo mikilvægan, enda nái hann ekki aðeins yfir kynin, heldur líka til dæmis þjóðerni og mismunandi menningarbakgrunna.

„Það er staðreynd að hér er til dæmis fullt af fólki erlendis frá sem starfar í tæknigeiranum en finnst ekkert endilega sviðasulta góð og leiðist líka að fara á árshátíðir þar sem Íslendingarnir enda með að drekka sig blindfulla. Spurningin er: Hvernig getum við vandað okkur betur í því að fagna fjölbreytileikanum í allri sinni dýrð? Þótt fólk borði ekki sviðasultu eða fíli árshátíðir.“

Að mati Oktavíu er það oft hræðsla sem kemur í veg fyrir að inngildingin á fjölbreytileikanum tekst.

Það er alltaf viss hópur sem hræðist það að við séum að missa frá okkur menninguna eða jafnvel íslenska tungu ef við fögnum fjölbreytileikanum. 

En það þarf ekkert að óttast það. Ég missti ekkert ræturnar mínar hér eða íslenskuna þótt ég byggi erlendis í þrjátíu ár. 

Okkur er því alveg óhætt að treysta okkur sjálfum nógu vel til að halda áfram að breyta og bæta við okkur, þannig að allt fólk geti tekið þátt.“

Þannig segir Oktavía að það sé svo mikill missir á tækifærum, ef fólk fær ekki að njóta sín eins og það er.

„Ég hef oft orðið vitni að því að konur í tæknigeiranum á Íslandi séu settar í það sem kallast mjúku málin og þá oftar en ekki mannauðstengd mál. Á meðan karlarnir eru í hörðu málunum; að forrita. Hið rétta er að forritun er mjög mjúk, það er bara ekkert harkalegt við forritun. Að sinna mannauðsmálum ólíks hóps er hins vegar þrælerfitt verkefni og langt frá því að teljast mjúkt að mínu mati,“ segir Oktavía og bætir við:

„Oft heyri ég konur í tæknigeiranum tala um þessar kröfur til þeirra. Að það sé verið að vænta þess af þeim að leiða teymin og svo framvegis. Þegar staðreyndin er sú að það eina sem þeim langar að gera er að fá bara að forrita í friði.“

Að kynja svona hlutverkin í tæknigeiranum er því eitt af því sem Oktavía vill reyna að uppræta sem mest.

„Orðræðan er oft: Vertu karl, en bara ekki svona. Eða vertu flink og góð kona. Að fagna fjölbreytileikanum og efla hann, er leið til að veita öllum aðkomu og tryggja að við endum með að búa til enn betri tæknivörur. Fjölbreytileikinn felur í sér okkur öll; konur, karla og kvára. Við þurfum ekkert að flækja það neitt. Mér finnst við oft flækja þetta um of en satt best að segja finnst mér aldrei vegið að mínu frelsi, nema ég verði vör við að fólk sé að rangkynja viljandi.“


Tengdar fréttir

„Ég var pæja sem vildi ekki vera með ljótan gulan hatt á hausnum“

„Það er fyrirséð að um allan heim mun vanta fleira fólk í tæknigeirann í framtíðinni. Það er skortur á fólki nú þegar og fyrirséð að sá skortur er. Þannig að óháð öllu öðru, þá er það líka einfaldlega staðreynd að samfélögum vantar að fá fleiri konur til að velja tækni,“ segir Lena Dögg Dagbjartsdóttir, verkefnastjóri Vertonet.

Hinseginvænn vinnustaður: Sæll, sæl, sælt

„Eldri fordómafullir karlar sem ráða stærri fyrirtækjum sem geta sýnt fordóma sína á hátt sem bitnar á hinsegin fólki,” eru meðal ummæla sem birt eru í samantekt um niðurstöður könnunar sem gerð var um stöðu hinsegin samfélagsins á vinnumarkaði í fyrra. Sú viðamesta til þessa.

Fyrirtæki hvött til að halda upp á daginn í dag og gera sér dagamun

„Á þessum degi eru fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar hvattir til að halda upp á daginn, gera sér dagamun og sýna hvað við stöndum fyrir sem fag,” segir Sigrún Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Mannauðs í tilefni Alþjóðlega Mannauðsdagsins sem haldinn er í dag.

Ástin laðar að: Gott að vera kona á Íslandi, en ekki innflytjandi

„Ég er bara alls ekki sammála því að allar konur af erlendu bergi brotnu þurfi að byrja á því að vinna á leikskóla. Því okkur er endalaust sagt að það sé svo gott fyrir okkur að læra íslenskuna þar,“ segir Randi Stebbins og bætir við:

Fimm konur og fjörutíu karlar: „Ertu ekki að djóka í mér?!“

„Við erum að tala um þvílíkar rokkstjörnur á sviðinu. Þannig var stemningin,“ segir segir Tanya Zharov, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Alvotech, í upphafi viðtals um Heimsþing kvenleiðtoga sem haldið var í Reykjavík þessa vikuna.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×