Handbolti

„Um­gjörðin er bara engu lík, gæsa­húð að hlaupa inn á völlinn“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Vignir Stefánsson hefur verið leikmaður Vals síðan 2012 og tekið þátt í sjö Evrópukeppnum með liðinu.
Vignir Stefánsson hefur verið leikmaður Vals síðan 2012 og tekið þátt í sjö Evrópukeppnum með liðinu. Vísir

Eftir vonbrigði í vikunni býður handboltaliði Vals heldur betur spennandi og krefjandi verkefni þegar liðið leikur til úrslita Evrópubikarsins gegn Olympiacos. Fyrri leikur liðanna fer fram á Hlíðarenda í kvöld, einvíginu lýkur svo í Grikklandi eftir viku. 

„Við erum bara að verða þokkalega stemmdir, setjum fókusinn á þetta eftir að hafa dottið út úr Íslandsmótinu en við þurfum bara að nýta þau vonbrigði inn í þetta verkefni“ sagði Vignir Stefánsson, hornamaður Vals, fyrir stórleikinn í kvöld. 

Vignir hefur verið leikmaður Vals í rúman áratug og upplifað mörg Evrópuævintýri með félaginu. Hann sagði reynsluna dýrmæta sem hann sjálfur og liðið allt hefur sankað að sér undanfarin ár.

„Við erum búnir að hafa allavega síðasta tímabil svolítið á bakvið eyrað, lærðum helling þar og vorum auðvitað í miklu álagi. Liðið er bara á flottum stað og við verðum að nýta orkuna úr því sem er að gerast hjá okkur inn í þetta.“

Gríðarlega gaman að vera Valsmaður undanfarna viku

Það er einmitt mikil orka á Hlíðarenda þessa dagana. Handboltalið kvenna varð Íslandsmeistari á fimmtudag og í öðrum greinum lék félagið til úrslita eða útsláttar nánast á hverjum degi undanfarna viku. 

Þessi ótrúlega vika nær svo ákveðnum hápunkti á Hlíðarenda í kvöld þegar úrslitaleikur Evrópubikarsins fer fram hér á landi í fyrsta sinn. 

„Umgjörðin er bara engu lík, gæsahúð að hlaupa inn á völlinn og fá mikinn stuðning af pöllunum eins og hefur verið í þessum leikjum hjá okkur.“

Viðtalið allt við Vigni úr Sportpakka gærkvöldsins má sjá hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×