Lífið

Meistari B-kvikmyndanna látinn

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Roger Corman með verðlaun sem hann hlaut á kvikmyndahátíð í Sviss, ágúst 2016.
Roger Corman með verðlaun sem hann hlaut á kvikmyndahátíð í Sviss, ágúst 2016. EPA

Roger Corman, leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi er látinn 98 ára að aldri. Hann framleiddi mörg hundruð kvikmyndir og gaf mörgum stórstjörnum kvikmyndaheimsins sín fyrstu tækifæri.

Corman er goðsögn í heimi B-kvikmyndanna, en það eru myndir sem eru ódýrar í framleiðslu, hljóta gjarnan ekki góða dóma og þykja jafnvel ekki listrænt merkilegar, en eru oft mjög vinsælar meðal ákveðinna hópa. Myndirnar eru margar „költ“ myndir sem eiga sér dyggan aðdáendahóp.

Francis Ford Coppola, Martin Scorsese, James Cameron, Ron Howard, Johnathan Demme, og Joe Dante fengu allir sinn fyrsta séns hjá Corman og lærðu af honum.

Corman fékk heiðursóskarsverðlaun árið 2009, verðlaun sem afhent eru goðsögnum í kvikmyndabransanum.

Hann lést 9. maí síðastliðinn á heimili sínu í Kaliforníu umkringdur fjölskyldu sinni. Fjölskylda hans gaf út yfirlýsingu sem segir: „Myndir hans voru brautryðjandi, táknrænar, og fönguðu vel stemningu samtímans. Þegar hann var spurður að því hvernig hann vildi að fólk myndi eftir honum sagði hann: Ég var kvikmyndagerðarmaður“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×