Handbolti

Jóhanna Margrét skiptir um lið innan Sví­þjóðar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í landsleik gegn Lúxemborg.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í landsleik gegn Lúxemborg. vísir/diego

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, landsliðskona í handbolta, skiptir um félag í Svíþjóð eftir tímabilið. Hún fer frá Skara til Kristianstad.

Jóhanna gekk í raðir Skara 2022 eftir nokkurra mánaða dvöl hjá Önnered. Hér heima lék hún með HK og varð meðal annars markadrottning Olís-deildarinnar tímabilið 2021-22.

Auk Jóhönnu leikur Aldís Ásta Heimisdóttir með Skara. Katrín Tinna Jensdóttir lék einnig með liðinu áður en hún fór til ÍR í ársbyrjun. Jóhanna mun einnig leika með Íslendingi hjá Kristianstad því Haukakonan Berta Rut Harðardóttir er á mála hjá félaginu. Andrea Jacobsen lék með Kristianstad á árunum 2018-22.

Kristianstad endaði í 5. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar en Skara í því sjötta. Nú stendur úrslitakeppnin um meistaratitilinn yfir. Kristianstad er 1-0 undir gegn Önnered á meðan H 65 Hoor er 1-0 yfir gegn Skara.

Jóhanna hefur leikið með íslenska landsliðinu undanfarin misseri, meðal annars á HM undir lok síðasta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×