Körfubolti

Arnór átti Play leiksins: „Hann var stór­kost­legur“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Tristan Helgason er orðinn þekktur fyrir troðslurnar sínar.
Arnór Tristan Helgason er orðinn þekktur fyrir troðslurnar sínar. Vísir/Hulda Margrét

Arnór Tristan Helgason átti heiðurinn að „Play leiksins“, það er að segja atvikinu sem stóð upp úr í sigri Grindavíkur gegn Tindastóli í 8-liða úrslitum Subway-deildarinnar í körfubolta í gærkvöld.

Arnór greip sendingu Daniels Mortensen í loftinu og tróð boltanum með tilþrifum, þegar Grindavík jók forskot sitt í meira en tuttugu stig í fyrri hálfleiknum, 44-23. Það þótti Play leiksins, eins og sjá má í broti úr Körfuboltakvöldi hér að neðan.

Klippa: Arnór átti Play leiksins

„Er hann ekki bara í áskrift?“ spurði Ómar Örn Sævarsson enda átti Arnór einnig ein bestu tilþrifin í fyrsta leik einvígisins. Stefán Árni Pálsson þáttastjórnandi velti því þá fyrir sér hvort að Arnór ætti ekki að fá flugmiða eða einhvers konar verðlaun:

„Mér myndi finnast það. Alla vega til Köben eða eitthvað,“ sagði Ómar.

Ólafur Ólafsson, liðsfélagi Arnórs, mætti í viðtal við Körfuboltakvöld eftir leikinn í gær og var spurður út í Arnór:

„Hann var stórkostlegur í kvöld og gerði sitt hlutverk 150 prósent. Við erum að biðja hann um að gera þetta – koma inn á með kraft og orku, skjóta opnum skotum og troða inn á milli. Hann var æðislegur í kvöld,“ sagði Ólafur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×