Viðskipti innlent

Skipaður deildar­for­seti laga­deildar HR

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnar Þór Pétursson hóf störf við lagadeild HR sem stundakennari árið 2005.
Gunnar Þór Pétursson hóf störf við lagadeild HR sem stundakennari árið 2005. HR

Dr. Gunnar Þór Pétursson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, hefur verið skipaður deildarforseti lagadeildar HR.

Í tilkynningu frá HR segir að Gunnar Þór hafi lokið doktorsprófi í lögum frá lagadeild Háskólans í Lundi árið 2014, LLM-prófi frá sama háskóla árið 1998 og Cand. jur-gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1997. Gunnar Þór hafi hlotið lögmannsréttindi árið 2002.

„Gunnar Þór hóf störf við lagadeild HR sem stundakennari árið 2005, hefur verið með fasta stöðu við deildina frá árinu 2008 og hlaut framgang í prófessorsstöðu árið 2016. Þá er hann jafnframt gestaprófessor við lagadeild Parísarháskóla, Panthéon-Assas (Paris II), frá árinu 2017, og á þessari önn gestaprófessor við lagadeild Háskólans í Lille. Gunnar Þór er nefndarmaður í Fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands og Ad-Hoc dómari við EFTA-dómstólinn (frá 1. júlí 2022).

Rannsóknir Gunnars Þórs eru aðallega á sviði Evrópuréttar, EES-samningsins og mannréttinda. Gunnar Þór hefur birt fjölda ritrýndra fræðigreina á innlendum og erlendum vettvangi og haldið erindi á alþjóðlegum ráðstefnum, og hefur meðal annars fjallað um grundvallarréttindi í Evrópurétti, svo sem áhrif mannréttindareglna og annarra meginreglna í Evrópurétti,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×