Viðskipti innlent

Stýrir nýju sölu­sviði eftir upp­sagnir hjá Nóa Síríus

Atli Ísleifsson skrifar
Hinrik Hinriksson hefur starfað hjá Nóa Síríus frá árinu 2022.
Hinrik Hinriksson hefur starfað hjá Nóa Síríus frá árinu 2022. Aðsend

Hinrik Hinriksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýs sölusviðs hjá Nóa Siríus hf. Fjórum var sagt upp í tengslum við endurskipulagningu á skipuriti fyrirtækisins.

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, forstjóri Nóa Síríusar, segir í samtali við fréttastofu að ákveðið hafi verið að endurskipuleggja skipurit fyrirtækisins og skipta upp markaðs- og sölusviði í þeim tilgangi að einfalda skipulag og auka arðsemi. Hún segir að fjórum hafi verið sagt upp í tengslum við breytingarnar.

Í tilkynningu segir að um sé að ræða nýtt svið sem sett hafi verið á fót og undir það heyri sölustýring, viðskiptagreining og þjónusta við viðskiptavini.

Hinrik mun stýra sviðinu en hann hefur gegnt starfi markaðsstjóra innfluttra vara Nóa Siríus frá 2022. Áður var hann vörumerkjastjóri hjá Nathan og Olsen, sölustjóri hjá Ion hótelum auk þess að hafa starfað hjá Vistor og Distica.

Hinrik er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá háskólanum í Reykjavík og með BS gráðu í sálfræði frá sama skóla með markaðsfræði sem aðaláherslu. Unnusta Hinriks er Laufey Lilja Ágústsdóttir, bakhjarl í fjárfestingarverkefnum hjá Veitum, og eiga þau tvö börn.

Sigríður Hrefna segir þetta mikilvæga breytingu á þeirri vegferð að nýta þau tækifæri sem fram undan séu hjá fyrirtækinu. Reynsla Hinriks í stjórnun viðskiptasambanda muni efla sókn Nóa Síríusar og treysta enn betur samskipti og þjónustu við viðskiptavini.

Haft er eftir Hinriki að hann hlakki til að taka við nýju hlutverki innan Nóa Síriusar. „Hjá fyrirtækinu starfar öflugur og skemmtilegur hópur fólks sem hefur mikinn metnað í að efla og styrkja viðskiptasambönd við okkar viðskiptavini og munum við halda áfram að veita þá úrvals þjónustu sem við erum þekkt fyrir á markaðnum,“ segir Hinrik.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×