Viðskipti innlent

Mun leiða arki­tekta­stofuna Arkitema á Ís­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Hallgrímur Þór Sigurðsson arkitekt hefur starfað sem framkvæmdastjóri Nordic Office of Architecture síðustu ár.
Hallgrímur Þór Sigurðsson arkitekt hefur starfað sem framkvæmdastjóri Nordic Office of Architecture síðustu ár. Aðsend

Hallgrímur Þór Sigurðsson, arkitekt og fyrrverandi framkvæmdastjóri Nordic Office of Architecture, hefur verið ráðinn til að stýra útibúi dönsku arkitektastofunnar Arkitema á Íslandi.

Frá þessu segir í tilkynningu. Þar kemur fram að Hallgrímur Þór sé mörgum kunnur innan Arkitema enda hafi hann starfað þar í ellefu ár, bæði í Árósum og í Kaupmannahöfn, áður en hann hélt til Nordic Office of Architecture í Noregi.

„Á síðustu árum hefur hann starfað hjá Nordic á Íslandi. Hallgrímur hefur komið að mörgum spennandi verkefnum hér á landi sem og erlendis og má þar nefna hönnun á stækkun Keflavíkurflugvallar og hönnun á Menningarhúsinu Hofi á Akureyri sem opnaði árið 2010, en það síðarnefnda var unnið af Nordic, þá Arkþing, í samstarfi við Arkitema.

Hallgrímur hefur nú starfað á Íslandi undanfarin fimm ár og hefur mikla þekkingu á byggingariðnaðinum almennt sem hann telur að muni gagnast við uppbyggingu nýrrar skrifstofu Arkitema hér á landi.“

Arkitema hefur verið í eigu COWI frá árinu 2018, en í lok maí síðastliðinn keypti COWI ráðgjafar- og verkfræðifyrirtækið Mannvit. Segir að margir viðskiptavinir sjái tækifæri í því að þjónusta arkitekta og verkfræðinga sé á sömu hendi og að ráðgjafar svari þannig kröfu um samþætta þjónustu og aukna áherslu á sjálfbærar lausnir. Því hafi þótt eðlilegt skref að Arkitema setti á laggirnar skrifstofu hér á landi.

Skrifstofa Arkitema á Íslandi opnaði formlega 2. apríl í höfuðstöðvum COWI á Íslandi og er þar með níunda útibúið á Norðurlöndunum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×