Körfubolti

Rugluð frammi­staða Clark skaut Iowa í undan­úr­slit og kveikti í sam­fé­lags­miðlum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Caitlin Clark, númer 22, er hreinlega óstöðvandi um þessar mundir.
Caitlin Clark, númer 22, er hreinlega óstöðvandi um þessar mundir. Sarah Stier/Getty Images

Iowa Hawkeyes er komið í undanúrslit (e. Final Four) í Marsfárinu í Bandaríkjunum en þar mætast bestu háskóla-körfuboltalið landsins. Um var að ræða liðin sem mættust í úrslitum í fyrra og þar hafði LSU betur. 

Caitlin Clark var í vígahug og vildi greinilega ná fram hefndum. Clark komst í fréttirnar fyrir ekki svo löngu þegar rapparinn Ice Cube bauð henni fúlgur fjár til að spila í körfuboltadeild á hans vegum. Upphæðin var margfalt hærri en það sem Clark mun þéna á fyrstu árum sínum í WNBA-deildinni í körfubolta.

Hvað varðar leik Iowa og LSU þá var um að ræða leik sem var beðið eftir með mikilli eftirvæntingu. Ekki nóg með að Clark og frammistaða hennar í liði Iowa hafi vakið mikla athyglu heldur hefur Angel Reese, leikmaður LSU, einnig vakið mikla athygli fyrir vasklega frammistöðu sína. Var hún til að mynda valin besti leikmaður Final Four á síðasta ári.

Að þessu sinni var það þó Clark og hennar ótrúlega hittni fyrir utan þriggja stiga línuna sem stal fyrirsögnunum í 94-87 sigri Hawkeyes. Skoraði hún 41 stig, gaf 12 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Slík var frammistaðan að samfélagsmiðlar hreinlega loguðu.

Reese átti einnig frábæran leik en hún skoraði 17 stig, tók 20 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og varði 3 skot. Flau‘jae Johnson var stigahæst í liði LSU með 23 stig. Hjá Hawkeyes var Kate Martin næst stigahæst með 21 stig.

Hailey Van Lith fékk það verkefni að dekka Caitlin í leiknum og verður að viðurkennast að það gekk vægast sagt skelfielga. Hefur Kim Mulkey, þjálfari LSU, fengið sinn skarf af gagnrýni fyrir að bregðast ekki við og reyna verjast Caitlin á annan hátt.

Marsfárið 2024 tekur enda nú um helgina þegar South Carolina, NC State, UConn og Hawkeyes mætast í Cleveland.


Tengdar fréttir

„Við höfum aldrei séð konu spila svona“

Vinsældir Caitlin Clark í Bandaríkjunum eru engu líkar en þessi 22 ára gamla körfuboltakona hefur breytt gríðarlega miklu með frábærri framgöngu sinni og um leið komið kvennakörfunni í sviðsljósið í bandarísku íþróttalífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×