Körfubolti

„Það sem við höfum verið að bíða eftir í vetur“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pétur Rúnar skýtur þriggja stiga skoti í leiknum í dag.
Pétur Rúnar skýtur þriggja stiga skoti í leiknum í dag. Vísir/Hulda Margrét

Pétur Rúnar Birgisson fyrirliði Tindastóls var stoltur af sínu liði eftir sigur á Álftanesi í undanúrslitum VÍS-bikarsins. Hann sagði að nú þyrfti liðið að horfa fram á við það sem eftir er tímabils.

„Það sem við höfum verið að bíða svolítið eftir í vetur er að við höfum ekki verið að ná mikið af áhlaupum þegar líða fer á leikinn, nema við séum langt undir. Þetta kom inn í lokin að við fengum vörn með smá hittni. Þá erum við ansi góðir og vonandi náum við að halda uppteknum hætti inn í laugardaginn,“ sagði Pétur við Vísi eftir leik í kvöld.

Stólarnir náðu góð áhlaupi í öðrum leikhluta en misstu forskotið svo niður í þeim þriðja.

„Þetta byrjar svolítið stál í stál og var jafnt. Síðan stingum við aðeins af og förum inn í hálfleik með tólf stiga forystu. Þeir koma síðan til baka og við klikkum á tveimur sniðskotum til að halda þessu í þægilegum sex stigum en erum með tveggja stiga forskot fyrir fjórða leikhluta.“

Lið Tindastóls fékk góðan stuðning úr stúkunni í dag líkt og svo oft áður.Vísir/Hulda Margrét

Eftir erfiðan þriðja leikhluta hófu Stólarnir fjórða leikhlutann á 11-0 áhlaupi og gengu frá leiknum.

„Við töluðum um það í vikunni að þetta vantaði svolítið. Við höfum ekki verið að ná neinum áhlaupum í allan vetur. Kannski átta stig en missum það aftur niður en náum aldrei þessum alvöru stemmningsáhlaupum þar sem við fáum þau upp í stúku með.“

Pétur Rúnar keyrir stuðningsmenn Tindastóls í gang í leiknum í dag.Vísir/Hulda Margrét

Ansi mikið hefur gengið á í kringum lið Tindastóls að undanförnu. Þjálfarinn Pavel Ermolinskij fór í veikindaleyfi og viðurkenndi Pétur Rúnar að hann væri stoltur af liðinu eftir leikinn í dag.

„Þetta er geggjað. Þetta er það sem ég trúi að við getum verið. Við þurfum líka að líta svolítið inn á við og sjá að við höfum ekki verið að standa okkur. Við getum ekkert verið að horfa til baka heldur bara horfa fram og taka það með okkur í það sem eftir er af deildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×