Um­fjöllun og við­töl: Þór Þ. - Njarð­vík 100-110 | Gestirnir upp í annað sæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Njarðvík vann sterkan sigur í kvöld.
Njarðvík vann sterkan sigur í kvöld. vísir/diego

Njarðvík vann sterkan tíu stiga sigur er liðið heimsótti Þór Þorlákshöfn í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld, 100-110.

Liðin virtust skora að vild í upphafi leiks, en það voru þó gestirnir frá Njarðvík sem náðu yfirhöndinni á fyrstu mínútunum. Njarðvíkingar röðuðu niður þristum og skoruðu heil 35 stig í fyrsta leikhluta. Þrátt fyrir það voru heimamenn aldrei langt undan og munurinn því aðeins fimm stig þegar 1. Leikhluta lauk, staðan 30-35.

Liðin skiptust svo að miklu leyti á að skora í öðrum leikhluta og náðu heimamenn tveimur góðum áhlaupum þar sem þeir höfðu tækifæri til að taka forystuna. Mikill hiti var kominn í leikmenn og þjálfara liðanna og fannst öllum þátttakendum leiksins halla á sig í dómgæslu.

Það breytti því þó ekki að heimamönnum tókst ekki að ná forystunni fyrir hlé og Njarðvíkingar gengu því til búningsherbergja með þriggja stiga forskot í stöðunni 48-51.

Í síðari hálfleik var svo boðið upp á meira af því sama. Þórsarar náðu góðum áhlaupum og minnkuðu muninn á milli þess sem Njarðvíkingar byggðu upp forskot sitt á ný. 

Munurinn á liðunum varð aldrei meiri en ellefu stig í þriðja leikhluta og aldrei minni en tvö stig og svo virtist sem liðin væru að spóla í sömu hjólförunum.

Gestirnir frá Njarðvík leiddu með níu stigum þegar þriðja leikhluta lauk og brekkan varð alltaf brattari fyrir heimamenn. 

Njarðvíkingar komu sér svo í góða stöðu með góðri byrjun í fjórða leikhluta þar sem liðið náði mest 13 marka forskoti. Þrátt fyrir enn eitt áhlaup heimamanna náðu Þórsarar aldrei að brúa það bil og niðurstaðan varð að lokum tíu marka sigur Njarðvíkinga, 100-110.

Af hverju vann Njarðvík?

Ætli það megi ekki segja það að ótrúlegur fjöldi sóknarfrákasta og vítaskota hafi í það minnsta átt stóran þátt í sigri gestanna. Alls tóku Njarðvíkingar 19 sóknarfráköst og fengu þar af leiðandi oft og tíðum annan séns í sókninni. Þá tók liðið alls 36 skot af vítalínunni og skoraði þar 25 auðveld stig.

Hverjir stóðu upp úr?

Chaz Williams átti hörkuleik í sóknarleik Njarðvíkinga og skoraði 31 stig fyrir liðið ásamt því að taka 13 fráköst. Dwayne Lautier-Ogunleye kom svo næstur með 25 stig, en Dominykas Milka var að öllum líkindum maður leiksins fyrir Njarðvíkinga með 22 stig og heil 19 fráköst.

Hvað gekk illa?

Enn eina ferðina eru Þórsarar að elta stærstan hluta leiksins á heimavelli og það er eitthvað sem hefur ekki gengið vel hjá Þorlákshafnarliðinu í undanförnum leikjum. Liðið vill klárlega spila betri vörn en það gerði í kvöld og það að gefa gestunum 36 skot af vítalínunni er eitthvað sem Þórsarar munu naga sig í handabökunum yfir.

Hvað gerist næst?

Bæði lið spila eftir slétta viku þegar Njarðvíkingar taka á móti föllnum Hamarsmönnum en Þórsarar heimsækja Íslandsmeistara Tindastóls.

Lárus: 

Lárus Jónsson fer yfir málin með sínum mönnumVísir/Bára Dröfn

„Við höfum verið að ná litlum takti hérna á heimavelli að undanförnu. Erum búnir að tapa þremur í röð núna hérna heima og mér fannst þessi leikur aldrei vera neitt spes hjá okkur,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, í leikslok.

„Við vorum að spila ágætlega sóknarlega, en þeir voru bara að skora allt of auðveldar körfur og taka 36 víti í leiknum. Þú vinnur ekki lið sem tekur hátt í 40 víti í leik. Þetta er besta skotið sem þú getur fengið fyrir utan kannski galopið layup. Þannig að við þurfum að fara að finna leiðir til að koma í veg fyrir að hitt liðið sé að fara á vítalínuna. Svo fannst mér Milka líka bara vera að pakka okkur í sóknarfráköstum og við vorum ekki að hjálpast að í því. Mér fannst vanta upp á hjálpina og að hjálpa hvorum öðrum, ákveðnina í vörnina og mér fannst Njarðvík bara vera ákveðnari í þessum leik.“

Njarðvíkingar enduðu með 19 sóknarfráköst í leiknum og eins og gefur að skilja segir Lárus það erfitt að ætla að vinna leiki þegar hitt liðið fær nánast að spila sókn þangað til það skorar.

„Þeir fengu bara eiginlega alltaf annan séns. Og ef þeir skoruðu ekki eftir þennan seinni séns þá fóru þeir á vítalínuna. Þannig að þeir voru alltaf að taka skot í mjög hárri prósentu.“

Þá hélt Lárus áfram að tala um slakan varnarleik Þórsara í leik kvöldsins.

„Við spiluðum litla vörn í fyrsta leikhluta, og í rauninni bæði lið, það var mikið skorað í fyrsta. Þetta var svona fyrsti og þriðji sem voru mjög slakir varnarlega. Annar og fjórði voru bara fínir þar sem við höldum þeim bara í kringum 20 stig. Þetta voru samt tveir leikhlutar þar sem við vorum arfaslakir varnarlega og ekki nóg með það að þeir voru að ná öðrum séns heldur voru þeir líka að fá frekar auðveld hraðaupphlaup á okkur. Það vantaði smá kraft í okkur.“

Eftir að hafa verið í toppbaráttu framan af tímabili eru Þórsarar nú dottnir niður í fimmta sæti deildarinnar og eiga í hættu á því að missa af heimaleikjarétti í úrslitakeppninni. Lárus segir að það sé ýmislegt sem liðið þarf að laga fyrir lokasprett deildarkeppninnar.

„Við þurfum að reyna að laga það sem miður fór í þessum leik. Við sjáum nú samt kannski eitthvað jákvætt í þessu þegar við skoðum þennan leik aftur. Vonandi voru menn bara smá ryðgaðir eftir langa pásu og vonandi snýst þetta bara um það að það taki smá tíma fyrir okkur að komast aftur í gang.“

„En það er kannski augljóst bara að vera ekki að brjóta svona mikið svo hitt liðið sé að fara á vítalínuna og stíga út, það eru kannski helst þessi tvö atriði,“ sagði Lárus að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira