Viðskipti innlent

Sig­rún Helga og Birgir Örn í fram­kvæmda­stjórn Skaga

Atli Ísleifsson skrifar
Sigrún Helga Jóhannsdóttir og Birgir Örn Arnarson.
Sigrún Helga Jóhannsdóttir og Birgir Örn Arnarson. Skagi

Sigrún Helga Jóhannsdóttir og Birgir Örn Arnarson hafa tekið sæti í framkvæmdastjórn Skaga, nýs móðurfélags VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar. 

Í tilkynningu segir að Sigrún Helga Jóhannsdóttir gegni nú starfi yfirlögfræðings Skaga, en hún hafi frá árinu 2018 starfað sem yfirlögfræðingur VÍS. 

„Sigrún hefur 20 ára reynslu af lögfræðistörfum á sviði fyrirtækja og eftirlitsskyldra aðila. Áður starfaði hún sem lögfræðingur Eikar fasteignafélags og lögmaður og síðar meðeigandi hjá ADVEL lögmönnum. Sigrún Helga er með Cand. Jur. gráðu frá Háskóla Íslands, málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi, með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og er viðurkenndur stjórnarmaður. 

Birgir Örn Arnarson gegnir nú starfi framkvæmdastjóra áhættustýringar Skaga og ber ábyrgð á áhættustýringu samstæðunnar. Birgir hefur víðtæka og mikla reynslu á sviði áhættustýringar en hann hefur meðal annars gegnt stöðu framkvæmdastjóra áhættustýringar (e. Chief Risk Officer) í PayPal Europe og yfirmanns lausafjárgreiningar í PayPal samstæðunni. Birgir starfaði einnig sem yfirmaður markaðsáhættugreiningar (e. Head of Market Risk Analytics) á fjárfestingasviði alþjóðlega tryggingafélagsins Zurich. Birgir er með doktorspróf í kennilegri og hagnýtri aflfræði frá Cornell háskólanum í Bandaríkjunum. Hann er jafnframt með próf í verðbréfaviðskiptum. 

Sigrún Helga og Birgir Örn sitja í framkvæmdastjórn Skaga, ásamt Haraldi Þórðarsyni, forstjóra, Brynjari Þór Hreinssyni, fjármálastjóra samstæðu, Arnóri Gunnarssyni, framkvæmdastjóra SIV eignastýringar, Steingrími Arnari Finnssyni, forstjóra Fossa og Guðnýju Helgu Herbertsdóttur, forstjóra VÍS trygginga,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×