Viðskipti innlent

Mun færri nýir bílar á götum landsins þetta árið

Bjarki Sigurðsson skrifar
Flestir nýir bílar í febrúar voru frá Toyota.
Flestir nýir bílar í febrúar voru frá Toyota. Vísir/Vilhelm

Sala nýrra fólksbíla hefur dregist verulega saman í byrjun árs miðað við síðustu ár. Samdrátturinn mælist 57,5 prósent í febrúar samanborið við sama mánuð síðasta árs.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Bílgreinasambandsins. 397 nýir bílar voru skráðir í febrúar en 935 í fyrra. Alls hafa 854 nýir bílar verið skráðir það sem af er árs en þeir voru 1.668 í fyrra. 

Það hafa ekki verið færri nýir bílar skráðir í að minnsta sex ár. Fyrstu tvo mánuði 2019 voru þeir 1.647, árið 2020 1.403, árið 2021 1.133, árið 2022 1.767 og 2023 1.668.

Gögn Bílgreinasambandsins fyrir fyrstu tvo mánuði síðustu sex ára.

Sala nýrra fólksbíla dregst meira saman hjá fyrirtækjum en einstaklingum. Í febrúar 2023 keyptu einstaklingar 443 nýja bíla en  nú 207. Fyrirtæki keyptu 178 bíla í fyrra, nú einungis 67.

Flestir nýskráðra bíla eru rafbílar eða 31,1 prósent. Tengiltvinnbílar eru 21,8 prósent, hybrid 19,6 prósent, dísel 19,4 prósent og bensín átta prósent. Samdrátturinn er mestur hjá bensínbílum, 64,6 prósent, og rafmagnsbílum 60,1 prósent.

María Jóna Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.Bílgreinasambandið

Rafmagnsbílar voru mun stærri hluti nýskráðra bíla á síðasta ári, 50,1 prósent. Hlutfallið náði hámarki í desember þegar 91,7 prósent nýskráðra bíla voru rafmagnsbílar. Ætla má að margir hafi drifið sig í að kaupa rafbíla áður en virðisaukaívilnun vegna sölu á rafbílum féll úr gildi um áramótin.

Flestir nýir bílar þetta árið eru af gerðinni Toyota, eða 20,5 prósent. Næst á eftir kemur Dacia með 8,1 prósent og svo Land Rover með 7,7 prósent. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×