Skoðun

Blóð er ekki mjólk

Rósa Líf Darradóttir skrifar

Framkvæmdastjóri Ísteka sagði í Kastljósi í gær að blóðtaka úr fylfullum hryssum væri ekkert annað en hefðbundinn landbúnaður. Þetta er rangt. Það liggur fyrir í ítarlegri niðurstöðu ESA, heilar 32 blaðsíður af rökstuðningi þess efnis hvers vegna blóðtakan er ekki og getur aldrei talist til landbúnaðar.

Blóð er lífsnauðsynlegur vessi í hjarta og æðakerfi dýra. Hraðar breytingar á rúmmáli þess eru lífshættulegar. Mjólk, framleidd af kirtlum líkamans er á engan hátt sambærileg blóði. Blóðið er sótt með læknisverki með tilheyrandi lífshættu. Blóðtakan er inngrip í æðakerfi lifandi dýra sem krefst deyfingar og dýralæknar þeir einu sem mega framkvæma verknaðinn. Að líkja þessu við mjólkun kúa eða rúning kinda er fásinna.

Áhættan og þjáningin sem blóðtakan veldur dýrunum er ástæða þess að reglugerð um notkun dýra í vísindaskyni gildir fyrir hryssurnar. Frá árinu 2002 til 2020 féll starfsemin undir þessa reglugerð. Þessu var breytt árið 2020 að ósk Ísteka til þess að þjóna hagsmunum fyrirtækisins. Mast féllst ranglega á þau rök að um væri að ræða framleiðslu en ekki notkun dýra í vísindaskyni og því ætti reglugerðin ekki við. Vissulega er um framleiðslu að ræða. Sökum eðli iðjunar og þjáningar dýranna verður starfsemin að falla undir reglugerð um notkun dýra í vísindaskyni. Með því að flokka starfsemina ranglega sem hefðbundinn landbúnað hlífði MAST blóðsuguiðnaðinnum við þeim skilyrðum sem reglugerð um notkun dýra í vísindaskyni felur í sér. Með þessu rændi stofnunin hryssurnar réttindum sínum.

Stofnunin lét undan áfergju fyrirtækisins og skaut hryssunum undan þeirri vernd sem reglugerðin veitir þeim. Það virðist vera ásetningur Matvælastofnunnar að standa vörð um fjárhagslegan ávinning fyrirtækja en ekki velferð dýra. Þetta viðhorf eftirlitsstofnunarinnar birtist okkur ítrekað og sýnir glöggt að eftirlit með velferð dýra og matvælaframleiðslu getur ekki verið sinnt af sömu stofnun. Fjölmörg dæmi sýna að hagur dýra lítur jafnan í lægra haldi fyrir hag framleiðenda við núverandi skipulag.

Höfundur er læknir og situr í stjórn Samtaka um dýravelferð á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×