Umræðan

Ó­tíma­bær birting inn­herja­upp­lýsinga

Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Pólitísk samstaða náðist nýlega á vettvangi Evrópusambandsins um aðgerðir sem ætlað er að skjóta styrkari stoðum undir evrópska verðbréfamarkaði sem hafa átt erfitt uppdráttar í samkeppni sinni við bandaríska markaði undanfarin ár.

Aðgerðirnar snúa meðal annars að því að sníða að einhverju leyti af þá agnúa sem eru á ákvæðum Markaðssvikareglugerðar Evrópusambandsins, oft vísað til sem MAR, um upplýsingaskyldu skráðra félaga:

  • Með MAR var sú meginregla fest í sessi að skylda skráðra félaga til þess að birta innherjaupplýsingar vaknar um leið og upplýsingarnar liggja fyrst fyrir hjá félögunum.
  • Um leið víkkaði MAR hugtakið „innherjaupplýsingar” út þannig að upplýsingar sem eru óvissu háðar og ekki endanlegar – til dæmis ófullbúin drög að fjárhagsuppgjöri eða ákvörðun félags um að ganga til samrunaviðræðna við annað félag – geta falið í sér innherjaupplýsingar. 
  • Afleiðingin er sú að skylda til þess að birta innherjaupplýsingar um tilteknar aðstæður getur vaknað enda þótt umtalsverð óvissa ríki um hvort aðstæðurnar gangi eftir.

Skráðum félögum er ákveðinn vandi á höndum í þessu sambandi. Matið á því hvort fyrirliggjandi upplýsingar teljist til innherjaupplýsinga getur enda reynst afar vandasamt, eins og þekkt er, en á sama tíma geta ströng viðurlög legið við því ef markaðurinn er ekki upplýstur tafarlaust um innherjaupplýsingar og heimild félaga til þess að fresta birtingu slíkra upplýsinga er háð ströngum skilyrðum.

Fyrirhuguðum breytingum á MAR er ætlað að létta á upplýsingaskyldu skráðra félaga, hvað framangreint varðar, og takmarka meðal annars upplýsingaskyldu félaga við endanlegar innherjaupplýsingar, það er innherjaupplýsingar sem varða aðstæður sem þegar hafa átt sér stað. Áfram verður litið á „óvissar upplýsingar” sem innherjaupplýsingar, uppfylli þær á annað borð hugtaksskilyrði þess, en skylda félaga til þess að birta slíkar upplýsingar mun hins vegar ekki vakna fyrr en þær eru orðnar endanlegar. 

Sem dæmi þyrfti skráð félag þannig ekki að upplýsa markaðinn um samrunaviðræður fyrr en gengið hefur verið frá samrunasamningi og viðkomandi innherjaupplýsingar eru ekki lengur háðar óvissu. Að sama skapi yrði upplýsingaskylda félags líkast til ekki virk fyrr en stjórn þess hefur samþykkt fjárhagsuppgjör, jafnvel þótt innherjaupplýsingar hafi myndast í uppgjörsvinnunni.

Ekki þarf að fjölyrða um að sú breyting sem hér um ræðir mun létta verulega á þeim kröfum sem gerðar eru til upplýsingaskyldu skráðra félaga.

Auk þess að létta á upplýsingaskyldu skráðra félaga er framangreind breyting einnig til þess fallin að koma í veg fyrir að fjárfestar taki ákvarðanir um fjárfestingar sem byggjast á óvissum og snemmbúnum upplýsingum um aðstæður sem munu mögulega ekki verða að veruleika.

Ekki þarf að fjölyrða um að sú breyting sem hér um ræðir mun létta verulega á þeim kröfum sem gerðar eru til upplýsingaskyldu skráðra félaga, þar á meðal íslenskra félaga, þegar og ef breytingin hefur verið samþykkt á vettvangi Evrópusambandsins og innleidd í íslenskan rétt.

Höfundur er lögfræðingur og fulltrúi á LEX.


Tengdar fréttir

Sam­skipti skráðra fé­laga við hlut­hafa: Vand­rataður vegur

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi góðra og hreinskiptinna samtala á milli stjórnar félags og hluthafa þess. Slík samtöl hafa á undanförnum árum orðið snar þáttur í eigendastefnum fjárfesta, þá sér í lagi stofnanafjárfesta sem kjósa í auknum mæli að beita sér sem virkir hluthafar, auk þess að gagnast stjórnum félaga við að draga fram og öðlast skilning á sjónarmiðum ólíkra hluthafa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×