Viðskipti innlent

Stórir hlut­hafar mót­fallnir eða hugsi yfir fram­boði Þórðar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórður Már Jóhannesson hyggur á endurkomu í stjórnina hjá Festi eftir tveggja ára fjarveru.
Þórður Már Jóhannesson hyggur á endurkomu í stjórnina hjá Festi eftir tveggja ára fjarveru.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, stærsti hluthafinn í Festi sem er móðurfélag Krónunnar, N1 og Elko, leggst gegn því að Þórður Már Jóhannesson verði kjörinn í stjórn félagsins á ný. Fleiri lífeyrissjóðir eru sama sinnis.

Heimildin greinir frá.

Þórður Már sagði sig úr stjórn Festar í janúar fyrir tveimur árum vegna ásakana konu á þrítugsaldri um kynferðisbrot. Málið var kært til lögreglu en rannsókn þess látin niður falla. Sömuleiðis rannsókn á hendur konunni og ástmanni hennar fyrir fjárkúgun.

Konan, Vítalía Lazareva, lýsti því í hlaðvarpsþætti Eddu Falak að þjóðþekktir menn hefðu verið í heitum potti ásamt ástmanni hennar. Þeir hefðu farið að káfa á henni í heitum potti í sumarbústaðaferð og farið yfir öll mörk, meðal annars með því að stinga inn í hana fingrum.

Vítalía nafngreindi engan en eftir útbreiddar sögur um hverja ræddi stigu Þórður, Hreggviður Jónsson og Ari Edwald fram. Hreggviður sagðist harma að hafa ekki stigið út úr aðstæðum. Hann teldi sig þó ekki hafa gerst brotlegan við lög.

Þórður og Hreggviður stærstu einstöku hluthafarnir

Aðalfundur er framundan hjá Festi 6. mars og rennur frestur til framboðs til stjórnar út á sunnudaginn. Tilnefningarnefnd félagsins hefur lagt til að Þórður verði aftur kjörinn í stjórn félagsins. Hann er næststærsti einkafjárfestirinn í Festi. Aðeins fyrrnefndur Hreggviður á stærri hlut. Lífeyrissjóðir eiga þó rúmlega þrjá fjórðu hlutafjár félagsins.

Heimildin fjallar um stjórnarkjörið í Festi og hefur eftir stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), sem er stærsti hluthafinn í Festi og mjög stór aðili á íslenska hlutabréfamarkaðnum, að hún lýsi yfir vonbrigðum með störf tilnefningarnefndar Festis.

Vísar stjórnin til þess að í eigendastefnu LSR sé fjallað um helstu atriði sem líta beri til við beitingu hluthafaréttinda í starfsemi sjóðsins. Varðandi val á stjórnarmönnum og kröfur til þeirra segi að við kosningu stjórnamanna sé litið til þess að stjórnarmenn hafi ekki sýnt af sér hegðun sem kann að rýra traust þeirra og trúverðugleika.

„Í ljósi þessara áherslna í eigendastefnu LSR lýsir stjórn sjóðsins yfir vonbrigðum með störf tilnefningarnefndar Festis. Svo virðist sem nefndin hafi ekki tekið sérstakt tillit til nokkurra af þeim meginatriðum sem hún þó í skýrslu sinni telur upp að hafi verið höfð til hliðsjónar við tilnefningu sína.“

Gagnrýndi tilnefningarnefndir

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR, gagnrýndi tilnefningarnefndir í aðsendri grein á Innherja á Vísi á þriðjudag. Framboð séu lögð fram í trúnaði hjá nefndunum sem tilefni þá sem þeim þyki hæfust til stjórnarsetu.

„Þótt öllum sé heimilt að bjóða sig fram til stjórnar óháð ákvörðun tilnefningarnefndar draga aðrir frambjóðendur framboð sín nánast undantekningalaust til baka. Þetta leiðir til þess að í yfirgnæfandi fjölda tilvika er sjálfkjörið í stjórnir og hluthafar fá hvorki að vita hverjir buðu sig fram til stjórnarkjörsins né fá þeir tækifæri til að nýta atkvæðisrétt sinn,“ segir Harpa í greininni.

Þá segir hún að þetta fyrirkomulag hafi síðustu ár frekar dregið úr gagnsæi en hitt og hafi leitt til þess að hluthafar hafi ekkert val í stjórnarkjöri.

„Það er að mínu mati ótæk niðurstaða að hluthafar framselji tilnefningarnefndum í framkvæmd atkvæðisrétt sinn. Réttara væri að tilnefningarnefndir skili hluthöfum rökstuddum opnum umsögnum um alla þá frambjóðendur sem tilnefningarnefndin telur hæfa,“ segir Harpa.

„Sérstaklega er það mikilvægt ef fulltrúum sjóðsins þykir tilnefningarnefndin hafa farið út af sporinu við tillögugerð sína.“

Harpa nefnir aldrei Festi í grein sinni en tímasetning birtingar hennar vekur óneitanlega athygli.

Tíu frambærileg framboð

Fimm eru í framboði til stjórnar nú þegar tilnefningarnefnd hefur lokið störfum. Þórður Már er einn þeirra. Fram kemur í svörum LSR til Heimildarinnar að tíu hafi skilað inn framboði til nefndarinnar.  

„Ekki liggja fyrir upplýsingar um hina fimm umsækjendurna sem tilnefninganefnd tilnefndi ekki og eins og sakir standa liggja ekki fyrir önnur framboð en þessi fimm frá tilnefningarnefnd. Framboðsfrestur rennur út sunnudaginn 25. febrúar kl. 10.“

Sigrún Ragna Ólafsdóttir viðskiptakona er meðal þriggja í tilnefningarnefndinni en hún var á sínum tíma forstjóri VÍS.

Tilnefningarnefndin er skipuð þeim Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur, Ólafi Arinbirni Sigurðssyni og Tryggva Pálssyni. Í skýrslu nefndarinnar til aðalfundar kemur fram að af tíu framboðum sem hafi borist hafi aðeins tvö verið frá konum sem þegar eigi sæti í stjórninni. Öll framboð hafi verið frambærileg.

Þekki félagið vel sem stór hluthafi

Í rökstuðningi fyrir tilnefningu Þórðar Más segir:

„Þekking og reynsla af rekstri og virkri fjárhagsskipan, langtímafjárfestir í Festi og þekkir félagið vel. Er meðal 20 stærstu hluthafa.“

Auk hans eru þau Guðjón Reynisson, Hjörleifur Pálsson, Margrét Guðmundsdóttir og Sigurlína Ingvarsdóttir tilnefnd. Þau eru öll núverandi stjórnarmenn ásamt Magnúsi Júlíussyni. Guðjón er formaður stjórnar.

„Það er mat tilnefningarnefndar að ofangreindir frambjóðendur séu allir hæfir og líklegir til að geta sameiginlega myndað öfluga stjórn Festi fyrir næsta starfsár.

Tilnefningarefnd þakkar fyrir góð samskipti við alla í ferlinu og ítrekar að nefndin er aðeins ráðgefandi. Hluthafanna er valdið og ábyrgðin á að vel takist til með hagsmuni félagsins að leiðarljósi,“ segir í lokaorðum skýrslu nefndarinnar.

Mótfallin endurkomu Þórðar

Fjórir stærstu hluthafarnir í Festi eru auk LSR þrír aðrir lífeyrissjóðir; Lífeyrissjóður Verzlunarmanna, Gildi - lífeyrissjóður og Brú lífeyrissjóður. Heimildin sendi fyrirspurnir á alla fjóra og spurðu meðal annars hvort fulltrúar sjóðsins myndu styðja kjör Þórðar á komandi aðalfundi.

LSR lýsti sem fyrr segir yfir vonbrigðum með störf nefndarinnar en svaraði ekki spurningunni beint hvort Þórður Már ætti þeirra stuðning.

Auður Kjartansdóttir er formaður Lífeyrissjóðsins Brú sem er fjórði stærsti hluthafinn í Festi.

Brú var afdráttarlaus í svari sínu:

„Við erum mótfallin því að Þórður Már taki aftur sæti í stjórn,“ sagði í svarinu. Þau myndu ekki styðja hans kjör.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna sagði ekkert liggja fyrir um ráðstöfnun atkvæða sjóðsins. Þá hafði ekkert svar borst frá Gildi - lífeyrissjóði.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að forsvarsmönnum Gildis sé ekki skemmt yfir tilnefningu Þórðar Más. Hvað fulltrúar sjóðsins gera með atkvæði sín á aðalfundinum 6. mars verður að koma í ljós.


Tengdar fréttir

Rannsókn á Vítalíu fyrir fjárkúgun felld niður

Héraðssaksóknari hefur fellt niður rannsókn sína á Vítalíu Lazarevu og Arnari Grant fyrir tilraun til fjárkúgunar. Vítalía fagnar niðurstöðunni sem sé staðfesting á því að um þöggunartilburði hafi verið að ræða af hálfu þriggja karlmanna í viðskiptalífinu.

Yfirlýsing frá Hreggviði: Léttir að málinu sé lokið

Hreggviður Jónsson, stærsti hluthafi Veritas samstæðunnar sem rekur nokkur stór fyrirtæki í lyfja- og heilbrigðisgeiranum, segir að honum sé létt eftir að héraðssaksóknari felldi niður rannsókn á kynferðisbrotamáli sem höfðað var gegn honum og tveimur öðrum áberandi mönnum í viðskiptalífinu.

Arnar Grant snúinn aftur

Arnar Grant hefur hafið störf sem einkaþjálfari hjá líkamsræktarstöðinni Pumping Iron. Verktakasamningi hans hjá World Class var sagt upp á seinasta ári eftir að Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson kærðu Arnar og Vítalíu Lazarevu til héraðssaksóknara fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífsins. Þau hafa bæði hafnað ásökununum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×