Skoðun

Forustusauðir sverja af sér á­byrgð

Vilhelm Jónsson skrifar

Náttúruhamfarir á Reykjanesskaganum gefa fullt tilefni til að farið sé ofan í saumana á hversu óábyrgt verklag og forvarnir áttu sér stað í þeim umbrotum og jarðhræringum sem staðið hafa yfir síðustu fjögur ár. Yfirklór og afneitun um slakt verklag eru allsráðandi hjá stjórnvöldum, Almannavörnum, lögreglustjóra að ekki sé minnst á yfirstjórn HS Orku og Svartsengi. Það mætti ætla að þjóðin sé staurblind og láti allt yfir sig ganga og virðist ekki gera sér grein fyrir vítaverðri forræðishyggju yfirvalda og hvernig fyrirtækjum og heimilum hefur verið mismunað að bjarga eigum sínum.

Það var ekki fyrr en eldgos hófst 14. janúar við Hagafell að forsvarsmenn virkjana ásamt yfirvöldum rönkuðu úr rotinu og fóru að vinna vinnuna sína og skynja að innviðir voru í mikilli hættu. Sviðsmyndin hefði geta orðið önnur og þungbærari við síðustu jarðhræringar þegar hraunið vall í túnfætinum á Svartsengi og Bláa Lóninu. Það vantaði lítið upp á að svartasta sviðsmyndin myndi raungerast og raflínur rofna að ekki sé minnst á að virkjunin við Svartsengi hefði þurrkast út.

Sé litið til þeirrar kvikusöfnunar sem var að hlaðast upp við Svartsengi og Bláa Lónið í desember og byrjun janúar og raungerðist sem skammvinnt gos að allt fór á hliðina þar sem yfirvöld höfðu hunsað ástandið. Það er ekki sjálfgefið að þjóðin sleppi alltaf svona vel frá hraungosi sé litið til þess hvernig hefði getað farið. Ekki einu sinni þó svo að hlaupið hefði verið korteri fyrir gos og mokað upp varnargörðum á mettíma ásamt uppsprengdu verði og vonast til þess að gos kæmi upp réttum megin.

Hótelgestir Bláa Lónsins sluppu með skrekkinn að þessu sinni á hlaupum í morgunsárið frá eldtungum sem streymdu á ógnarhraða að Lóninu, sem var rýmt á 40 mínútum, og það vildi svo vel til að fáir næturbaðgestir voru sem betur fer ekki í Lóninu. Það er ekki sjálfgefið að stjórnvöld geti skautað frá hugsanlegum hörmungum ef svifaseinir baðgestir verða soðnir og grafnir úti í miðju Lóni þar sem gaus ekki á réttum stað og tíma.

Ferðamaðurinn áttar sig heldur ekki á því að verði slys og manntjón vegna jarðhræringanna munu eigendur Lónsins verða fljótir að sverja af sér ábyrgð og benda á að bótaskyldan liggi hjá íslenskum skattgreiðendum sem ekki munu fara varhluta af afleiðingunum. Framkvæmdarstjóri verksviðs Bláa Lónsins hefur verið iðin að benda á að hún treysti Almannavörnum og öðrum fræðingum til að meta aðstæður. Velta má fyrir sér hvort slíkt sé sagt til að firra Lónið ábyrgð verði manntjón þar.

Verði stórslys í Bláa Lóninu er eðlilega ekki sjálfgefið að alþjóðasamfélagið eftirláti íslenskum yfirvöldum að stýra réttargæslu og réttarhöldum. Væntanlega yrðu bótaábyrgð og refsramminn af öðrum toga þegar vítaverð vanræksla og græðgi eru metin. Refsiramminn verður væntanlega einnig þyngri og meiri en skilorðsbundinn dómur og meiri en kattarþvotturinn sem viðgengst á Íslandi, engu mun skipta þó svo að stjórnvöld líti málið alvarlegum augum. Ísland er ofarlega á lista sem eitt af spilltustu ríkjum heims, og sá stimpill hverfur ekki svo auðveldlega.

Rafmagnslínur héngu nánast á lyginni þegar fljótandi hraun streymdi kringum staurastæður og hitaveitulögn sem sér Suðurnesjunum fyrir jarðvarmaorku gaf sig að lokum, að ekki sé minnst á að virkjun við Svartsengi hefði getað þurrkast út með skelfilegum afleiðingum. Til að kóróna bullið (fréttaflutning) spurði fréttamaður hvort tjónið væri svartasta sviðsmynd sem ætti sér stað þegar hitaveitulögnin gaf sig.

Tjón og afleiðingar voru lágmarkað á síðustu stundu fyrir tilverknað þess að forustusauðir fóru að vinna vinnuna sína ásamt að vinnusamar hendur öxluðu ábyrgð óábyrgra manna. Eignatjón sem þúsundir heimila og fyrirtækja hafa orðið fyrir mun koma í ljós á næstum vikum og mánuðum og verða þjóðinni dýrkeyptara en þingmenn við Austurvöll gera sér grein fyrir.

Almannavarnir ásamt lögreglustjóra Suðurnesja hafa verið einn helsti þrándur í götu þess að íbúar Grindavíkur hafi fengið svigrúm til að bjarga fasteignum sínum frá skemmdum. Stjórnvöld moka milljörðum út með óábyrgum hætti og í örvæntingu til að draga úr áhrifum af skeytingarleysi og sinnuleysi óábyrgra manna síðustu ár.

Stjórnsýslan varpar ábyrgð frá sér sem fyrr og telur rétt að læra af þessum hamförum, sem hafa legið í loftinu síðustu fjögur ár. Þó svo að vel hafi verið staðið að verki þegar allt var komið í óefni og samtakamátturinn til fyrirmyndar er full ástæða til að fara ofan í kjölinn á skeytingarleysi- og verkleysi sem hefur viðgengst undanfarin ár. Sveitarfélagið Vogar hlýtur að líta í eigin barm eftir að hafa verið árum saman einn helsti farartálmi fyrir nýju línustæði sem umhverfissinnar en raungerðist samt ekki í skiptum fyrir Laxeldi síðastliðið haust.

Víðast hvar í siðmenntuðum löndum hefðu ráðherrar og önnur yfirstjórn ásamt veitu fyrirtækja verið gert að axla ábyrgð og taka pokann sinn en á Íslandi er þrælslundin allsráðandi. Stjórnvöld og forsvarsmenn HS Orku og Svartsengi eru óábyrg og ættu að biðja þjóðina afsökunar á vítaverðu kæru- og verkleysi sem þjóðin er að súpa seiðið af og segja af sér.

Til að kóróna bullið og fréttaflutning af hörmungunum við Svartsengi er bitlaus fréttakona frá RÚV fengin til að stýra Kastljósþætti (drottningarviðtal) og kryfja mál sem hún hafði ekki hundsvit á og bulla tóma steypu við forsætisráðherra. Ráðherrann hafði einnig litla sem enga þekkingu á sviðsmyndinni og reyndi að útskýra með gamalkunnugu handapati hvað allt væri flókið. Það muna eflaust fleiri fara á taugum næstu misserin en sviðsstjóri Almannavarnar, sem óskaði eftir veikindaleyfi, og er hugsanlega kominn í þrot að svara fyrir óánægjuraddir Grindvíkinga.

Það hefði mátt afstýra miklum skemmdum á fasteignum í Grindavík hefði verið brugðist við með markvissari forvörnum, t.d. með því að girða af hættumestu svæði.

Sem betur fer var brugðist við með því að reyna að afstýra skemmdum í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjunum með markvissari hætti en í Grindavík. Skaðinn er skeður og mun koma enn frekar í ljós næstu vikurnar. Það mun víða leka úr frostsprungnum lögnum í veggjum og undir parketi, hurðarkörmum og víðar að ekki sé minnst á hitaslaufur í bílastæðum og gangstéttum.

Það er tímabært að þjóðin fari að skilja að það þarf líka að borga fyrir óstjórn og verkleysi ofan á náttúruhamfarir og sá reikningur verður hár. Almannavarnir ásamt lögreglustjóra Suðurnesja hafa verið einn helsti dragbítur að íbúar Grindavíkur og iðnaðarmenn hafi fengið svigrúm til að bjarga fasteignum frá skemmdum. Bæjaryfirvöld sváfu á verðinum síðastliðið haust þar sem forvarnir voru hunsaðar. Það gafst nógur tími í Grindavík til að afstýra skemmdum, sem var ekki nýttur. Kröfur, óánægja og málsóknir um bætur og viðgerðir á húseignum munu ef að líkum lætur streyma inn næstu mánuði ef ekki ár á ríkissjóð Íslands.

Hraunið var vart farið að kólna þegar Blá Lónið var umsvifalaust opnað fyrir tilverknað óvandaðra manna sem sjá ekkert athugavert við það að spila rússneska rúllettu gagnvart baðgestum og starfsfólki þar sem ofsahagsmunir eru í húfi.

Það verða margir viljugir að draga fram svívirðilegt verklag Almannavarna hversu frjálslega öryggiskröfum er stýrt í Bláa Lóninu týni baðgestir og starfsfólk lífi sínu þar. Sé litið til umbrota og kvikusöfnunar sem áttu sér stað við Svartsengi og Bláa Lónið eru verulegar líkur á að hættulegar sprungur leynist þar og ætti að gilda sama verklag og í Grindavík.

Á sama tíma og Reykjanesskaginn stóð í björtu báli og stórt byggðarlag gekk í gegnum miklar hörmungar svaf Alþingi Íslands fimm vikna þyrnirósarsvefni til að klára jólafríið sitt. Það er eitthvað mikið að íslenskum stjórnarháttum sé litið til þess hversu oft sérsveitinni er beitt með ógeðfelldum hætti þegar börn og viðkvæmt fólk eru annars vegar sem hafa ekkert til saka unnið. Einnig er óboðlegt að bæjarbúar sem eru að reyna að bjarga eigum sínum og ævistarfi skulu þurfa að standa í orðaskaki við yfirvöld sem leynt og ljóst bera fyrir sig sérsveit ríkislögreglustjóra með blakandi byssukjafta og aðra ógnandi tilburði til að berja íbúana til hlýðni.

Höfundur er athafnamaður. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×