Um­fjöllun, við­töl og myndir: Haukar - FH 33-29 | Haukar unnu Hafnarfjarðarslaginn og fara í Höllina

Andri Már Eggertsson skrifar
Einar Bragi Aðalsteinsson í baráttunni í leik kvöldsins
Einar Bragi Aðalsteinsson í baráttunni í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Haukar tryggðu sér farseðilinn í undanúrslit Powerade-bikarsins eftir sigur á nágrönnum sínum 33-29. FH gerði fyrstu tvö mörkin en það var eina forysta liðsins í leiknum. 

Aron Pálmarsson lék sinn fyrsta leik með FH í kvöld eftir Evrópumótið í Þýskalandi í síðasta mánuði. Aron átti sitt besta stórmót með landsliðinu í mörg ár og stimplaði sig strax inn á Ásvöllum í kvöld með fyrsta marki leiksins. Gestirnir gerðu tvö fyrstu mörkin en síðan hrundi leikur FH.

Aron Pálmarsson var mættur aftur í FH treyjuna eftir EM Vísir/Hulda Margrét

Haukar skrúfuðu upp hraðann sem gekk glimrandi vel gegn hægum og seinum FH-ingum sem voru í miklum vandræðum. Heimamenn gerðu fimm mörk í röð og komust í 5-2. Gestirnir skoruðu ekki mark í tæplega sjö mínútur.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleik fór að ganga betur hjá FH-ingum. Gestirnir settu Jakob Martin Ásgeirsson fyrir framan í vörn sem var orkumikill og steig hátt upp. Haukar voru í vandræðum eftir að FH breytti um vörn. Gestirnir minnkuðu forskot Hauka niður í eitt mark 12-11 og þá tók Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, leikhlé.

Aron Rafn Eðvarðsson fagnar markvörslu Vísir/Hulda Margrét

Haukar skoruðu síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og voru þremur mörkum yfir í hálfleik 17-14.

Heimamenn gerðu fyrsta mark síðari hálfleiks og höfðu þá gert þrjú mörk í röð. Markvarsla FH í fyrri hálfleik var lítil sem engin og það breyttist ekki í síðari hálfleik. Nánast öll skot Hauka sem rötuðu á markið enduðu inni.

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, reyndi að bregðast við og tók leikhlé fimm mörkum undir 23-18.

Brynjólfur Snær Brynjólfsson fagnar marki Vísir/Hulda Margrét

Það dróg til tíðinda um miðjan síðari hálfleik þegar að Jakob Martin Ásgeirsson fékk beint rautt spjald. Geir Guðmundsson fór í árás og þar setti Jakob Martin olnbogann beint í andlitið á Geir sem hrundi niður í kjölfarið. Þetta gerðist á óheppilegum tíma fyrir FH þar sem gestirnir voru að spila betur og höfðu minnkað muninn niður í eitt mark

Eftir að Jakob Martin fékk rautt spjald gáfu Haukar í og gerðu fimm mörk gegn aðeins einu hjá gestunum. Eftir það var munurinn orðinn of mikill og Haukar unnu að lokum fjögurra marka sigur 33-29.

Haukar fögnuðu sigri gegn FHVísir/Hulda Margrét

Af hverju unnu Haukar?

Haukar spiluðu virkilega vel í kvöld. Heimamenn gerðu fimm mörk í röð í upphafi fyrri hálfleiks og eftir það tókst FH aldrei að jafna eða komast yfir. Vörn og markvarsla Hauka var töluvert betri en hjá FH.

Hverjir stóðu upp úr?

Aron Rafn Eðvarðsson var öflugur í marki Hauka með 16 varin skot. Aron endaði með 36 prósent markvörslu.

Þráinn Orri Jónsson var öflugur á báðum endum vallarins í kvöld. Þráinn skoraði sex mörk úr sjö skotum.

Hvað gekk illa?

FH fékk afar litla markvörslu. Daníel Freyr Andrésson náði sér ekki á strik fyrr en undir lokin sem var of seint. Daníel varði tíu skot og endaði með 25 prósent markvörslu.

Sóknarlega voru FH-ingar mjög hægir og voru ekki að gera hlutina á fullri ferð. Á sama tíma var miklu meiri hraði í leik Hauka.

Hvað gerist næst?

Grótta og Haukar mætast næsta föstudag klukkan 18:00.

FH mætir Tatran Presov í Slóvakíu næsta föstudag klukkan 17:00.

Ásgeir Örn: Náðum að halda ró sem hefur ekki alltaf gerst í vetur 

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var afar ánægður með sigurinn gegn FH.

„Það er yndislegt að vera búinn að tryggja sér sæti í undanúrslit bikarsins. Þetta var geggjað og að vinna FH á heimavelli í bikarleik var æði og ógeðslega gaman. Strákarnir eiga risa hrós fyrir frammistöðuna í kvöld,“ sagði Ásgeir Örn og hélt áfram.

„Í byrjun vorum við hrikalega þéttir varnrarlega og vorum mjög öflugir. Sóknarleikurinn fylgdi í kjölfarið og mörkin sem þeir skoruðu voru eftir mistök hjá okkur. Númer eitt, tvö og þrjú var þetta okkar leikur í dag og Aron Rafn var stórkostlegur.“

Ásgeir var ánægður með að Haukar áttu alltaf svör þegar FH náði nokkrum mörkum í röð

„Við gerðum það og þeir reyndu ýmislegt. Við náðum að halda ró okkar sem hefur ekki verið alltaf í vetur. Sóknarlega vorum við ekki að flýta okkur og náðum að taka langar sóknir þegar að við vorum komnir með boltann og það var lykilatriði,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira