Innherji

Nýr for­stjóri Reita fór fyrir 200 milljarða banka í Katar

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
„Ég tel að félagið sé í einstakri stöðu til að mæta vaxandi þörfum opinberra aðila fyrir uppbyggingu samfélagslegra innviða sem og húsnæðis á almennum markaði fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina,“ segir Guðni Aðalsteinsson, nýráðinn forstjóri Reita.
„Ég tel að félagið sé í einstakri stöðu til að mæta vaxandi þörfum opinberra aðila fyrir uppbyggingu samfélagslegra innviða sem og húsnæðis á almennum markaði fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina,“ segir Guðni Aðalsteinsson, nýráðinn forstjóri Reita. samsett

Guðni Aðalsteinsson, fyrrverandi forstjóri þriðja stærsta viðskiptabanka Katar, hefur verið ráðinn forstjóri Reita. Markaðsvirði bankans er yfir 200 milljarðar króna en til samanburðar er markaðsvirði Reita um 65 milljarðar króna. Guðni hefur á ferli sínum gegnt fjölbreyttum stjórnunarstöðum á Íslandi, Englandi, Þýskalandi og Katar.

Upplýst var um miðjan desember að Guðjón Auðunsson, sem gegnt hefur stöðu forstjóra Reita í 13 ár, myndi rétta öðrum stjórntaumana 1. apríl, daginn sem Guðni tekur við starfinu. Reitir eiga meðal annars Kringluna og vinna að umfangsmikilli fasteignaþróun á því svæði.

Guðni er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá háskólanum í Cambridge. Hann hefur jafnframt lokið diplómu í fjárfestingum frá Harvard viðskiptaháskólanum og er um þessar mundir í doktorsnámi við UBIS viðskiptaháskólann í Genf.

Hann var áður forstjóri Doha Bank, þriðja stærsta viðskiptabanka Katar, en var áður framkvæmdastjóra fjárfestinga og fjárstýringar bankans. Á einu ári hefur gengi bankans lækkað um eitt prósent.

Þar á undan var Guðni framkvæmdastjóri fjármálasviðs fjártæknifyrirtækisins Alva, sem rak Netgíró, Aktiva og Inkasso, um skamma hríð en áður hefur hann meðal annars starfað hjá breska fjármálafyrirtækinu Legal & General, Allied Irish Bank, Lehman Brothers, Credit Suisse og breska fjármálaeftirlitinu.

Þá var Guðni framkvæmdastjóri fjárstýringar Kaupþings banka á árunum 2005 til 2008.

„Það er eru forréttindi,“ segir Guðni í tilkynningu frá Kauphöllinni, „að vera valinn til að leiða hóp framúrskarandi starfsfólks Reita í þeirri umfangsmiklu uppbyggingu félagsins sem framundan er. Staða fyrirtækisins sem öflugasta fasteignafélags landsins er sérstaklega traust og það vel í stakk búið að taka næstu skref sem leiðandi afl í þróun fasteigna og fleiri innviða. Ég tel að félagið sé í einstakri stöðu til að mæta vaxandi þörfum opinberra aðila fyrir uppbyggingu samfélagslegra innviða sem og húsnæðis á almennum markaði fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina.“

Þórarinn V. Þórarinsson, stjórnarformaður Reita, segir að það sé mikill fengur fyrir fasteignafélagið að fá notið víðtækrar reynslu og þekkingar Guðna nú þegar við blasa afar fjölbreytt og áhugaverð sóknarfæri til þróunar á starfsemi félagins. 

„Hann kemur til starfa úr kröfuhörðu alþjóðlegu umhverfi með áherslur og sýn m.a. um sjálfbærni, sem vel falla að stefnumótun félagsins um uppbyggingu, þjónustu og arðsemi.Guðni er vel til þess fallinn að nýta krafta félagsins og leiða það inn í nýtt uppbyggingarskeið til að svara nýjum þörfum og áskorunum.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×