Handbolti

„Þær hafa verið fyrst og fremst ó­geðs­lega heppnar og ég held að þær viti það“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Sólveig Lára á hliðarlínunni.
Sólveig Lára á hliðarlínunni. vísir/Hulda Margrét

ÍR tapaði í dag naumlega gegn Haukum í leik sem réðist á lokamínútu leiksins. Lokatölur 27-28 í æsispennandi leik í Skógarselinu.

Sólveig Lára Kjærnested, þjálfari ÍR, var gífurlega svekkt eftir leik. Þegar hún var beðin um fyrstu viðbrögð eftir leik sagði hún þetta.

„Bara algjör stuldur, bara hreinn og klár stuldur. Við áttum svo tvö stig skilið úr þessum leik, það eru bara fyrstu viðbrögð,“ sagði Sólveig Lára.

Aðspurð hvað hún ætti við um stuld hafði hún þetta að segja.

„Maður á ekki að tjá sig um dómgæsluna en mér finnst ansi margt mjög skrítið þegar þær [Haukar] eru að komast aftur inn í leikinn og vafaatriði og ekki vafaatriði sem mér finnst bara falla með þeim. Það er ömurlegt að standa hérna og tala um dómgæslu eftir svona leik en hún hefur oft verið slök í vetur en þetta er bara svo dýrt að þetta svíður.“

Sólveig Láru fannst sitt lið spila frábærlega í dag á báðum endum vallarins.

„Mér fannst þetta frábær leikur, ég er bara ógeðslega stolt af þeim, mér fannst þær gjörsamlega frábærar. Varnarleikurinn fannst mér vera frábær í 60 mínútur. Við vorum óheppnar með nokkur fráköst og lítil atriði, vorum kannski að klikka eftir að vera búnar að standa lengi. Mér fannst sóknarleikurinn líka mjög góður og fullt af stelpum að standa sig gríðarlega vel.“

Sólveig Lára var ekki alveg klár á því hvað í spilamennsku síns liðs á lokakafla leiksins olli því að liðið tapaði leiknum. Telur hún helst heppnina hafa verið í liði Hauka undir lokin.

„Ég veit það ekki, kannski eitthvað reynsluleysi. Matthildur óheppin, dettur og kastar boltanum út af og einhver svona lítil atriði en mér finnst þær hafa verið fyrst og fremst ógeðslega heppnar og ég held að þær viti það.“

Sólveig Lára ætlar klárlega að byggja ofan á frammistöðu síns liðs í dag upp á framhaldið að gera en liðið gæti hæglega náð sæti í úrslitakeppninni í vor.

„Við erum búnar að vaxa hægt og rólega og ég held að þetta hafi verið einn af okkar bestu leikjum í vetur og með svona frammistöðu eigum við bara séns í nánast alla,“ sagði Sólveig Lára að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×