Um­fjöllun, við­töl og myndir: Grinda­vík - Álfta­nes 79-90 | Álftnesingar á leið í Laugar­dals­höll eftir æsi­spennandi leik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Haukur Helgi átti frábæran leik og skoraði 19 stig fyrir Álftanes.
Haukur Helgi átti frábæran leik og skoraði 19 stig fyrir Álftanes. vísir / hulda margrét

Álftanes gerði sér ferð í Smárann og vann 79-90  gegn Grindavík eftir æsispennandi leik í 8-liða úrslitum VÍS bikarsins. Álftnesingar eru þar með komnir í undanúrslitin sem fara fram í Laugardalshöll þann 19. mars.

Frá fyrstu mínútu buðu bæði lið upp á hraðan og skemmtilegan leik, sóttu vel og skoruðu mikið. Hvorugt lið hafði sjáanlega yfirburði á vellinum og þau skiptust á því að taka forystuna allan fyrsta leikhlutann.

Haukur Helgi Pálsson hefur verið sjóðheitur í liði Álftaness undanfarið og byrjaði þennan leik á því að skora fyrstu sjö stig gestanna. Það hægðist svo aðeins á honum en Douglas Wilson tók þá við og leiddi stigasöfnun Álftnesinga.

Eitt af nokkrum skiptum sem Douglas Wilson skildi menn eftir í rykinu og tróð boltanum niðurvísir / hulda margrét

Sóknarleikur Grindvíkinga var í höndum þriggja manna sem skoruðu eða lögðu upp allar körfur liðsins í fyrri hálfleiknum., DeAndre Kane, Dedrick Basile og Julian De Assis.

Álftanes byrjaði annan leikhlutann stigi undir en vann sér fljótt inn nokkurra stiga forystu. Þeim gekk vel að halda henni þar til á síðustu mínútu fyrri hálfleiksins. Dedrick Basile setti þá langan þrist fyrir Grindavík, Álftanes klikkaði svo í næstu sókn og gáfu Grindavík lokaskotið. Dedrick lokkaði Hörð Axel í að brjóta á sér í þriggja stiga skoti. Setti svo öll þrjú vítaskotin og kom Grindavík yfir, 45-42, tveimur sekundúbrotum áður en flautað var til hálfleiks.

Ærandi fagnaðarlæti í lok fyrri hálfleiksvísir / hulda margrét

Grindavík byrjaði seinni hálfleikinn frábærlega og leiddi með sex stigum þegar Álftanes ákvað að taka leikhlé til að stilla saman strengi. Það gekk ekki vel, Álftnesingar töpuðu boltanum þá tvisvar í röð og lentu tíu stigum undir, 59-49. Þá stigu reynsluboltarnir Haukur Helgi og Hörður Axel vel upp fyrir liðið og minnkuðu muninn með tveimur góðum þriggja stiga skotum.

DeAndre Kane fórnar höndumvísir / hulda margrét

Þegar þriðja leikhluta lauk voru liðin svo jöfn að stigum, 62-62. Hingað til höfðu liðin skipt oftar á forystum en undirrituðum tókst að telja, stemningin í Smáranum var magnþrungin og engin leið var að spá fyrir um sigurvegara.

Dino Stipcic tók forystuna á nýjan leik fyrir Álftanes í upphafi fjórða leikhluta með tveimur þriggja stiga skotum í röð. Grindavík fór þá að flýta sér um of í sóknunum og gerðust sekir um klaufaleg mistök í nokkur skipti.

Álftanes var komið níu stigum yfir þegar Grindavík bað um leikhlé, fyrirliðinn Ólafur Ólafsson hitti þrist úr horninu í kjölfarið, minnkaði muninn í sex stig og blés lífi í liðið en í næstu sókn ruddist DeAndre Kane að körfunni og braut klaufalega af sér.

Álftanes breikkaði bilið aftur og Grindavík átti ekki afturkvæmt, ellefu stiga sigur varð það eftir hnífjafnan og æsispennandi leik.

Áhorfendur ryðjast inn á völl og fagna með liðinuvísir / hulda margrét
Fyrirliðinn horfir á Álftnesinga fagna sigri vísir / hulda margrét
Niðurlútir að leik loknum. vísir / hulda margrét
vísir / hulda margrét
Svekkelsið var sjáanlegt í augum Vals. vísir / hulda margrét

Afhverju vann Álftanes? 

Bæði lið lentu tíu stigum undir á einum tímapunkti, annað en Grindavík fór Álftanes ekki að flýta sér um of. Héldu skipulagi og einbeitingu í varnarleik á mikilvægum stundum og kláraðu leikinn að endingu af nokkru öryggi.

Hverjir stóðu upp úr?

Douglas Wilson var frábær í liði Álftaness, sem og Haukur Helgi sem hefur verið að spila afar vel upp á síðkastið. Dino Stipcic á líka mikið hrós skilið fyrir sína innkomu, setti tvo þrista í fjórða leikhluta sem blésu góðu lífi í Álftanes.

Grindavíkurmegin var þríeyki DeAndre Kane, Dedrick Basile og Julian De Assis allt í öllu.

Hvað gekk illa?

Grindavík var að klikka á einföldum hlutum á vondum tíma. Misstu boltann frá sér, hittu ekki opnum skotum og vítaskotum. Virkuðu stressaðir þegar Álftanes tók forystuna í fjórða leikhluta og fóru að pirra sig á sjálfum sér.

Hvað gerist næst?

Dregið verður í undanúrslit á morgun. Liðin í pottinum eru Álftanes, Stjarnan, Tindastóll og Keflavík. Bikarúrslitin verða svo leikin dagana 19.-24. mars nk., þar sem karlarnir leika undanúrslit þann 19. mars, konurnar 20. mars og úrslitaleikir í báðum flokkum verða 23. mars.

„Fannst við bara sjálfum okkur verstir á löngum köflum“

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur vísir / hulda margrét

„Svekkelsi er númer 1, 2 og 3. Við ætluðum okkur að taka þetta og fara í Höllina  og halda heilsu í mars og fá einhverja leiki. En mér fannst við bara sjálfum okkur verstir á löngum köflum, sérstaklega í fjórða leikhluta. Það er eins og það er og við dottnir út“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, vonsvikinn á svip að leik loknum. 

Leikurinn var æsispennandi frá fyrstu mínútu og liðin skiptust endalaust á forystu í fyrri hálfleik. Grindvíkingar náðu svo góðu áhlaupi í byrjun seinni hálfleiks og allt leit út fyrir að gæfan myndi snúast þeim í hag. 

„Við förum tíu upp þarna, reyndar bara í þriðja leikhluta þannig að það var nóg eftir. Svo í þeim sóknum sem koma eftir það gerum við asnaleg mistök varnarlega og þeir refsa. Í svona jöfnum leik þurfum við að þora að vera til og setja niður opin skot, víti og annað. Við gerðum það ekki og leikurinn liggur þar.“

Kvennalið Grindavíkur komst áfram í undanúrslit í gær. Í ljósi undanfarinnar ógæfu Grindvíkinga mætti segja að liðið hafi átt gott bikarævintýri skilið og gaman hefði verið að bæði lið félagsins spiluðu í Laugardalshöll í úrslitakeppninni. Jóhann sagði þessar aðstæður þó ekki gera tapið neitt sárara en ella. 

„Neinei, alltaf jafn erfitt að tapa. Við erum í þessum aðstæðum sem við erum í og margfarið yfir það, þetta er erfitt og alltaf fúlt. Auðvitað hefði þetta verið gaman fyrir samfélagið en nú bara flykkir samfélagið sig bakvið stelpurnar og þær koma heim með bikarinn“

Hann ætlar þó ekki að hengja haus til lengri tíma og er strax farinn að huga að komandi átökum í Subway deildinni. 

„Jújú, leikur á fimmtudaginn og eins og maðurinn sagði: Áfram gakk.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira