Viðskipti innlent

Ekki hægt að hugsa lengra fram í tímann en klukku­tíma í senn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf.
Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. Vísir/Arnar

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf, útgerðarfélags í Grindavík, segir ekki hægt að hugsa lengra fram í tímann en eina klukkustund í senn. Hann segir starfsmenn sína merkilega bratta miðað við aðstæður.

„Það er ekki hægt að sjá neitt fyrir í sjálfu sér. Við miðum bara við klukkutíma og klukkutíma. Við erum tilbúin í vinnslu en getum ekki sagt eitt né neitt annað í rauninni,“ segir Pétur í samtali við Vísi.

Hann segir að starfsmenn hafi unnið í Grindavík í síðustu viku. Fyrir eldgosið síðastliðinn sunnudag.

„Þá ætluðum við nú að fara að gera eitthvað í þessari viku en þá bara gaus. Áætlanir sem menn gera endast yfirleitt ekki sólarhringinn.“

Pétur segir hús og tæki Vísis óskemmd. Helst hafi menn haft áhyggjur af frostskemmdum. Það sé lítið hægt að hugsa til framtíðar í ástandi líkt og þessu.

„En við erum tilbúnir að byrja, það er allt óskemmt og klárt til að halda áfram vinnslu. En það þarf náttúrulega leyfi, aðstæður og öryggi til. Við vitum ekkert meira en aðrir í þessu, síðasta helgi náttúrulega breytti mjög miklu.“

Hefurðu eitthvað verið í sambandi við þitt starfsfólk?

„Já já, svona eins og hægt er. En þetta gerist allt svo hratt. Eins og ég segi, við tökum þetta bara klukkutíma í senn.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×