Körfubolti

„Al­gjör draumasending frá Dan­mörku“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grindavíkurstelpur voru að fá mjög góðan liðstyrk frá Danmörku.
Grindavíkurstelpur voru að fá mjög góðan liðstyrk frá Danmörku. Vísir/Hulda Margrét

Sarah Sofie Mortensen spilaði sinn fyrsta leik með Grindavík í Subway deild kvenna í körfubolta í vikunni og sérfræðingarnir í Subway Körfuboltakvöldi voru hrifnir af frammistöðu þeirrar dönsku í frumrauninni.

Mortensen, sem er systir Daniels Mortensen hjá karlaliðinu, kom til Grindavíkur í byrjun ársins. Hún lék sinn fyrsta leik á móti Haukum og skoraði 25 stig á 27 mínútum, tók 8 fráköst og stal 3 boltum.

„Hún var frábær, þvílík frumraun,“ sagði Hörður Unnsteinsson, umsjónarmaður Subway Körfuboltakvölds kvenna. Grindavík fagnaði sigri eftir jafnan og spennandi leik.

„Ég er svo hrifin af henni. Hún er hávaxin, sterk og eins og Lalli (Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur) segir, bara klár. Hún kann að setja boltann ofan í körfu í kringum körfuna, hún er að stela boltanum, það má sjá körfuboltahreyfingarnar hjá henni og hún fer sterkt á körfuna,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir, annar sérfræðingur þáttarins.

„Það sem mér fannst líka áhugavert var það að í fyrsta leikhlutanum þá er hún að taka liðið saman í hóp á vítalínunni. Nýr leikmaður og örugglega ekki búin að æfa með þeim lengi. Það er hún sem er að taka liðið saman og mér fannst geggjað að sjá það,“ sagði Berglind Gunnarsdóttir, annar sérfræðingur þáttarins.

„Hún er augljóslega frábær leikmaður, hreyfanleg varnarlega og getur gert þetta allt saman. Með fína boltafærni og getur skotið fyrir utan og inn í teig. Hún er með flottar hreyfingar undir körfunni og svo er hún líka með þetta. Þetta er algjör draumasending frá Danmörku,“ sagði Berglind.

Það má sjá umfjöllunina um Söruh Sofiu hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld: Sarah Sofie Mortensen frábær í fyrsta leik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×