Körfubolti

„Síðasta mínútan var svo­lítið grind­vísk“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Þór, þjálfari Grindavíkur.
Jóhann Þór, þjálfari Grindavíkur. Vísir/Hulda Margrét

Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var afar sáttur með sigur Suðurnesjaliðsins gegn Álftanesi í kvöld. Úrslitin réðust undir lokin eftir að gestirnir höfðu leitt lengst af.

„Já og nei,“ sagði Jóhann Þór þegar blaðamaður spurði hann hvort það væri ósanngjarnt að kalla þetta stuld hjá Grindvíkingum í kvöld. 

„Við vorum góðir í leikhluta tvö og fjögur en það var lítið að frétta þarna inni á milli. Álftnesingar gerðu vel í að svæfa leikinn og koma honum niður á tempóið þar sem þeir vilja hafa þetta. Okkur gekk illa að bregðast við því. Ekkert mál, en ég tek það líka bara. Við unnum og það er það sem skiptir máli, að vera yfir í restina.“

Varnarlega voru Grindavíkingar slakir í upphafi leiks og Álftanes skoraði 27 stig í fyrsta leikhluta og hitti gríðarlega vel fyrir utan enda að fá opin skot.

„Leikhluti eitt og þrjú, þar erum við á hælunum. Við erum í vandræðum með að komast í takt við þetta og finna lausnir í vörn og sókn. Við kláruðum þetta og tókum mjög sterkan sigur á góðu liði Álftnesinga. Þetta er mikilvægt fyrir baráttuna sem framundan er.“

Ólafur Ólafsson og DeAndre Kane settu báðir stóra þrista undir lok leiksins. Karfa Kane kom þegar 14 sekúndur voru eftir og tryggði Grindvíkingum sigurinn.

„Ég er með nóg af mönnum sem þora að taka sénsinn á því að vera hetja eða skúrkur. Það er ekkert vesen á því. Þessi síðasta mínúta var svolítið grindvísk og það er mjög ánægjulegt. Mætingin hér í kvöld var geggjuð og stemnningin. Álftnesingar eiga líka hrós skilið fyrir góða mætingu og þetta var bara geggjað kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×