Körfubolti

Spoelstra fær nýjan átta ára risasamning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik Spoelstra sést hér lifandi á hliðarlínunni hjá Miami Heat.
Erik Spoelstra sést hér lifandi á hliðarlínunni hjá Miami Heat. Getty/Rich Storry

Erik Spoelstra, þjálfari Miami, hefur komist að samkomulagi við NBA körfuboltafélagið um að framlengja samning sinn um átta ár.

Bandarískir fjölmiðlar segja frá því að Spoelstra fái meira en 120 milljónir Bandaríkjadala fyrir nýja samninginn eða meira en sextán og hálfan milljarð íslenskra króna.

Hinn 53 ára gamli Spoelstra hefur þjálfað Miami liðið í næstum því sextán ár og hefur komið því sex sinnum í úrslitin um NBA-titilinn.

Hann gerði Miami Heat tvisvar að NBA-meisturum en var þá með LeBron James og Dwyane Wade í liðinu. Hann er bara einn af fjórtán þjálfurum í sögunni sem hafa unnið tvo titla.

Spoelstra hefur bara unnið hjá Miami Heat því hann vann sig upp hjá félaginu áður en hann fékk aðalþjálfarastarfið árið 2008.

Hann kom fyrst í vinnu fyrir félagið árið 1995, þá 25 ára gamall. Hann byrjaði að klippa saman myndbönd en tveimur árum síðar var hann orðinn einn að aðstoðarþjálfurum liðsins. Hann varð yfirmaður leikgreiningar árið 2001 og svo aðalþjálfari þegar Pat Riley hætti þjálfun. Riley ákvað eftirmann sinn og valdi Spoelstra.

Miami er eins og er í fimmta sætinu í Austurdeildinni með 21 sigur og 15 töp en liðið hefur verið mjög óheppið með meiðsli leikmanna á leiktíðinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×