Um­fjöllun og við­töl: Grinda­vík - Haukar 86-83 | Rafmagnaðar lokamínútur í Smáranum

Siggeir Ævarsson skrifar
Eve Brasilis fór mikinn í kvöld og skoraði 20 stig
Eve Brasilis fór mikinn í kvöld og skoraði 20 stig Vísir/Vilhelm

Grindavík setti smá pressu á topplið Subway deildar kvenna með sigri á Haukum í Smáranum í kvöld í æsispennandi leik þar sem bæði lið áttu möguleika á sigrinum.

Heimakonur virkuðu nokkuð ryðgðar í byrjun eftir tæplega mánaðarfrí frá keppni en Haukar náðu þó ekki að nýta sér það nema upp að vissu marki og á einhvern ótrúlegan hátt munaði aðeins sex stigum eftir fyrsta leikhluta.

Annar leikhluti fór vel af stað hjá gestunum en þó kom ótrúlegur kafli hjá Grindvíkingum sem breyttu stöðunni úr 31-39 í 50-47 í hálfleik. Áfram var boðið upp á klassískan leik áhlaupa og nú var komið að Haukum sem voru aftur komnar í bílstjórasætið fyrir lokaátökin en þær leiddu þá með tveimur stigum, 65-67.

Sarah Mortensen lék sinn fyrsta leik fyrir Grindavík í kvöld og lét mikið að sér kveða en hún varði megninu af 3. leikhluta á bekknum eftir að hún fékk sína fjórðu villu og munaði um minna fyrir Grindvíkinga. 

Haukar urðu svo fyrir áfalli í upphafi 4. leikhluta þegar Keira Robinson fór meidd af velli. Grindvíkingar gengu á lagið og komust aftur yfir en liðin skiptust á að taka forystuna á rafmögnuðum lokamínútum. Dani Rodriguez, sem hafði haft fremur hægt um sig í stigaskori, reyndist hetja Grindvíkinga og skoraði fjögur síðustu stig liðsins af vítalínunni.

Síðustu tvö komu eftir að Keira braut á henni í þriggjastiga tilraun, en Keira mætti aftur til leiks í lokin og var næstum búin að jafna leikinn í lokasókninni en bæði hún og Tinna Alexandersdóttir fengu gullin tækifæri til að jafna sem geiguðu bæði.

Af hverju vann Grindavík?

Þær höfðu heppnina með sér í kvöld og reynslu og stáltaugar Dani Rodriguez sem kláraði leikinn af vítalínunni.

Hverjar stóðu upp úr?

Sarah Mortensen kom eins og þrumufleygur inn í lið Grindavíkur í sínum fyrsta leik, skoraði 25 stig og tók átta fráköst, þrátt fyrir að geta ekki klárað leikinn vegna villuvandræða og spila aðeins 27 mínútur.

Eve Brasilis var einnig drjúg og skoraði nánast öll stig liðsins á köflum, 20 stig frá henni og fimm fráköst.

Hjá Haukum var það Keira Robinson sem dró vagninn með 22 stig, 15 fráköst og átta stoðsendingar. Tinna Alexandersdóttir kom næst með 15 stig en hefur oft átt betri skotdaga, 27 prósent nýting hjá henni í kvöld.

Hvað gekk illa?

Grindvíkingum gekk illa að láta boltann ganga en liðið var aðeins með níu stoðsendingar samanlagt. Þá voru varnarfærslur liðsins stundum algjörlega út úr kú en það kom þó ekki að sök í kvöld.

Hvað gerist næst?

Haukar taka á móti Þórsurum 16. janúar og daginn eftir sækir Grindavík topplið Keflavíkur heim.

Bjarni: „Mér fannst við eiga skilið að vinna þennan leik“

Bjarni fer yfir málin.Vísir/Bára Dröfn

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var bersýnilega svekktur eftir að hafa verið grátlega nærri því að leggja Grindvíkinga að velli í kvöld.

„Heldur betur. Ég veit að Lalli [þjálfari Grindavíkur] er ekki sammála mér en mér fannst við eiga skilið að vinna þennan leik. Mér fannst þetta ein besta liðsframmistaða okkar í vetur og tek það út úr þessu. Eftir góðar tvær æfingavikur erum við að verða betri og betri. Við erum að bæta ofan á Keflavíkurleikinn. Erum að skjóta fínt, frákasta vel, spila vel saman og hlaupa á þær.“

„Annar leikhluti fór illa með okkur, það er kannski sá partur þegar upp er staðið sem skiptir máli. Eins líka þegar við missum Keiru út af í fjórða leikhluta þá dettum við aðeins niður á hælana. En við náðum að koma til baka og komast aftur yfir. Ég er svekktur yfir að hafa ekki náð þessum tveimur stigum.“

Keira Robinson hefur þurft að glíma við sinn skammt af meiðslum en kláraði leikinn í kvöld og Bjarni hafði ekki miklar áhyggjur af henni, frekar en fyrri daginn.

„Þetta var ekkert alvarlegt sko. Hún var frá í tvo mánuði út af meiðslum og við erum búin að vera að reyna að passa upp á að hún spili ekki of margar mínútur í einu. Við lögðum mikla áherslu á það að gefa allt í þennan leik og reyna að skipta dálítið ört og vera á fullu meðan við vorum inn á vellinum og kannski var það bara aðeins of mikið sem við settum á hana í dag. “

„En ekkert alvarlegt, hún kom inn á og vildi klára þetta og var nálægt því. Við fengum náttúrulega tvö góð færi í síðustu sókninni til að jafna leikinn en stundum er þetta stöngin út.“

Stöngin út er kannski akkúrat rétti frasinn til að draga þennan leik saman hjá ykkur í kvöld?

„Já, þetta var svolítið þannig. Fyrir utan þennan kafla í öðrum leikhluta, þegar þær skora á okkur einhver 32 stig á okkur sem er ekki nógu gott og við fórum yfir það í hálfleik, get ég ekki beðið um mikið meira frá liðinu. Það lögðu allir í þetta og voru að reyna sitt besta og spiluðu góðan leik. Við vorum að spila á móti góðu liði en við áttum að vinna þennan, þú veist það eins og ég.“ – Sagði Bjarni og glotti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira