Skoðun

Yfir­standandi kjara­við­ræður og þjóðar­sátt – fyrir suma

Aðalgeir Ásvaldsson skrifar

Legið hefur fyrir um langt skeið að Samtök atvinnulífsins (SA) fara ekki með umboð þeirra 170 fyrirtækja sem eru aðildarfélög Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Félagsmenn SVEIT búa til um 5.500 störf á veitingamarkaði og fráleitt að hefðir eða reglur annarra hagsmunafélaga haldi SVEIT frá kjaraviðræðum og kalli það þjóðarsátt. Í heildina starfa 12.000 manns og 1.000 fyrirtæki á veitingamarkaði og engum blöðum er um það að fletta að bág staða og óstöðugleiki greinarinnar er bein afleiðing afleiddra kjarasamninga. Þar sem ítrekað hefur verið samið umfram innistöðu og þvert á hagsmuni greinarinnar.

Umboðslaus aðili enn við stýri

Óhjákvæmilegt er að samtökin verði hluti af kjaraviðræðum greinarinnar enda einn af aðilum vinnumarkaðsins, stærsta hagsmunafélag fyrirtækja á veitingamarkaði og hefur óumdeilanlega umboð sinna félagsmanna. Óboðlegt er að umboðslaus aðili semji fyrir okkar hönd. SA fara ekki með umboð félagsmanna SVEIT, sem eru sjálfstæðir atvinnurekendur og standa utan SA. Þar af leiðandi getur SA vart tekið sér það vald að gera kjarasamninga sem gildir almennt á markaði. Hvorki er lagaheimild fyrir því né samningur við SVEIT um að semja í umboði samtakanna. Samningsumboð SVEIT er ótvírætt og samtökin ættu með réttu að leiða kjaraviðæður fyrir greinina.

Breytt fyrirkomulag EKKI lægri laun

Krafa SVEIT er EKKI að lækka laun heldur sérkjarasamningur sem byggir á breyttu launafyrirkomulagi vegna sérstöðu greinarinnar. Slíkur samningur mun stuðla að stöðuleika bæði í rekstri og starfi auk þess að skapa samkeppnishæfan veitingamarkað. Það eru ekki nema tæplega 300 gildir kjarasamningar í dag og við þurfum sannarlega okkar. Hverra hagur er það að halda áfram á sömu braut og neyða fyrirtæki á veitingamarkaði í rekstrarumhverfi sem er ýtir undir hlutastörf og óstöðugleika?

Neyðarástand veitingaþjónustu er ásættanlegur fórnarkostnaður

Á veitingamarkaði ríkir neyðarástand, sérstaða greinarinnar hefur verið hundsuð ítrekað þegar kemur að því að semja um kaup og kjör. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að launakostnaður er stærsti kostnaður greinarinnar. Eftir miðlunartillögu og brúarsamning er launahlutfall komið í 50% af veltu fyrirtækja. Hagsmunum greinarinnar hefur verið leikið sem peði og fórnað ítrekað í hagsmunaskák þeirra sem ráða ferð innan SA. Samningsaðilar sem bera ábyrgð á óstöðugleika og ómögulegum rekstrarskilyrðum vita mæta vel hverjar afleiðingar fórnfýsinnar yrðu. Samt sem áður er haldið áfram sömu leið og skilaboðin ótvíræð… gerið eins og ykkur er sagt!

Höfrungasátt ekki þjóðarsátt

Ef aðilar vinnumarkaðsins ætla raunverulega að stefna að þjóðarsátt er ljóst að SVEIT þarf sitt sæti. Höfrungahlaupið heldur áfram því flöt krónutöluhækkun upp á 26.000 krónur ofan á 50% launakostnað fyrirtækja á veitingamarkið mun ekki skapa né viðhalda störfum í greininni. Heldur þvert á móti og ósjálfbær þróun greinarinnar heldur áfram. SA og verkalýðshreyfingin hafa samið milli sín um, hvorki meira né minna en 63% launahækkun frá 2016. Útséð er að í þessu neyðarástandi þurfum við að fara aðrar leiðir. Þegar kerfið virkar ekki getum við annaðhvort sokkið með því eða lagað það.

Óásættanlegt er að SVEIT sé haldið frá jafn mikilvægum ákvörðunum og kjarasamningum sem ramma inn einn mikilvægasta þátt rekstrarumhverfisins. Núverandi ástand og þróun er hvorki ásættanleg fyrir rekstraraðila né starfsmenn greinarinnar.

Höfrungahlaupið heldur því áfram.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVEIT - Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×