Handbolti

Bene­dikt Óskars­son sagður á leið til Kolstad

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Benedikt Óskarsson hefur notið góðs gengis með Val undanfarin ár.
Benedikt Óskarsson hefur notið góðs gengis með Val undanfarin ár. vísir / hulda margrét

Benedikt Gunnar Óskarsson, leikmaður Vals og besti sóknarmaður Olís deildar karla á síðasta tímabili, er sagður á leið til norska meistaraliðsins Kolstad. Greint er frá því að hann muni klára tímabilið með Val og færa sig um set næsta sumar. 

RThandball greindi fyrst frá málinu á samfélagsmiðlum sínum og orðrómar þeirra hafa reynst áreiðanlegir. 

Kolstad lagði af stað í metnaðarfullt verkefni fyrir örfáum árum og stefndu að því að skapa stórveldi í norska handboltanum. Það hefur gengið vel, liðið er ríkjandi Úrvalsdeildar- og bikarmeistari í Noregi og situr sem stendur í efsta sæti deildarinnar. En eftir síðasta tímabil kom í ljós að félagið væri í fjárhagskreppu og leikmenn liðsins neyddust til að taka á sig 30% launalækkun. 

Meginþorri norska landsliðsins leikur með liðinu en orðrómar hafa verið á sveimi að einhverjir þeirra yfirgefi félagið að þessu tímabili loknu. 

Landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur leikið með liðinu síðan 2021 og er í dag fyrirliði liðsins. Janus Daði Smárason kom á sama tíma til liðsins en yfirgaf það síðasta sumar þegar fjárhagsörðugleikar félagsins komu í ljós. 

Valur er sem stendur í 2. sæti Olís deildarinnar, jafnir Haukum að stigum í efsta sætinu með 18 stig úr 10 leikjum. Benedikt er sonur Óskars Bjarna Óskarssonar, þjálfara liðsins. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×