Skoðun

Um skaða­minnkun og við­halds­með­ferð

Arndís Vilhjálmsdóttir skrifar

Á síðustu vikum hafa fregnir borist um að Landlæknisembættið hafi svipt lækninn Árna Tómas Ragnarsson réttindum til ávísunar sterkra verkjalyfja, svokallaðra ópíóða. Ekki þarf að hafa langt mál um lyf þessi en þau hafa meðal annars verið notuð við lífslok til að lina þjáningar deyjandi. Hins vegar jókst ávísun þessara lyfja allgríðarlega í gegnum ósiðlegar markaðssetningar og falsaðra rannsóknarniðurstöður lyfjafyrirtækja. Var þeim þá jafnvel ávísað vegna stoðkerfisvanda og annarra heilsufarskvilla. Gengið var svo langt að skilgreina verki sem hið „fimmta lífsmark“ og verkjakvörðum, vel merktum lyfjafyrirtækjum, var dreift á sjúkrahús víðsvegar um heim. Innreið þessara lyfja er nú talin hafa valdið faraldri notkunar sterkra verkjalyfja, með tilheyrandi þjáningu fyrir notendur, fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild. 

Flestir skjólstæðingar Árna Tómasar eru sammála um að lyfjaskömmtunin hafi aukið lífsgæði þeirra og margir náð ákveðnum stöðugleika í lífi sínu miðað við þær aðstæður sem þeir lifa og búa við. Það er þó hins vegar ljóst að lyf þessi eru ekki ætluð til inndælingar í æð og aukin hætta er á alvarlegum sjúkdómum í tengslum við lyfjanotkun á þann hátt. Á Íslandi höfum við fá gagnreynd meðferðarúrræði við ópíóðafíkn, en eins og við aðra langvinna sjúkdóma hentar ekki sama meðferð eða aðferð öllum; það er ekkert “one size fits all” í þessum efnum. Það er því von mín að umræðan hvetji heilbrigðisyfirvöld til þess að íhuga og innleiða fjölbreyttari meðferðarúrræði. Það hefur verið gert í löndunum í kringum okkur og þurfa Íslendingar því ekki að finna upp hjólið í þeim efnum.

Það má deila um aðferðir Árna Tómasar en við skulum ekki gleyma því að flest mannúðleg og skaðaminnkandi inngrip hafa sprottið upp úr grasrótinni og í einstaklingsframtaki - frá fólki sem vildi minnka skaðann og mæta einstaklingnum á hans forsendum.

Höfundur er geðhjúkrunarfræðingur og faghandleiðari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×