Innherji

Guð­mundur að hætta sem ráðu­neytis­stjóri í fjár­mála­ráðu­neytinu

Hörður Ægisson skrifar
Guðmundur Árnason hefur stýrt fjármálaráðuneytinu allt frá árinu 2009.
Guðmundur Árnason hefur stýrt fjármálaráðuneytinu allt frá árinu 2009.

Guðmundur Árnason, sem hefur verið ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í fjórtán ár, lætur senn af störfum í ráðuneytinu. Hann mun að eigin sögn taka við skipun sem sendiherra í utanríkisþjónustunni á næsta ári.

Guðmundur tilkynnti um stafslok sín í pósti til starfsmanna fjármála- og efnahagsráðuneytisins fyrr í dag, samkvæmt upplýsingum Innherja, en hann hefur stýrt ráðuneytinu allt frá því sumarið 2009. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir tók sem kunnugt er við sem fjármálaráðherra í október samhliða því að Bjarni Benediktsson færði sig yfir í utanríkisráðuneytið.

Í krafti þess að hafa verið ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu um langt skeið hefur Guðmundur á sama tíma verið einn áhrifamesti embættismaðurinn í íslensku stjórnkerfi. Hann hefur jafnframt meðal annars áður setið í stjórnum LSR og Söfnunarsjóði lífeyrissréttinda auk þess að hafa verið í stjórn Þjóðarsjóðs Ómanríkis frá árslokum 2020.

Fram kemur í pósti Guðmundar til starfsmanna ráðuneytisins að hann hafi tekið við skipun sem sendiherra í utanríkisþjónustunni. Gert sé ráð fyrir því að hann muni taka til starfa í Róm á Ítalíu seinna á næsta ári.

Ísland starfrækir ekki sérstakt sendiráð á Ítalíu heldur er það sendiráðið í París sem gætir hagsmuna Íslands gagnvart Ítalíu. Utanríkisþjónustan heldur hins vegar úti sendiskrifstofu í Róm þar sem fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum gætir hagsmuna landsins í samstarfi við þrjár stofnanir: Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO), Matvælaáætlun SÞ (WFP) og Alþjóðaþróunarsjóð landbúnaðarins (IFAD).

Guðmundur, sem er með háskólapróf í stjórnmálafræði og alþjóðastjórnmálum, var um árabil ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu áður en hann fór yfir í fjármálaráðuneytið. Þar áður hafði hann verið deildarstjóri og síðar skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.

Fyrr í þessum mánuði var Tómas Brynjólfsson gerður að vararáðuneytistjóra í fjármálaráðuneytinu en hann hefur undanfarin ár verið skrifstofustjóri yfir skrifstofu efnahagsmála í ráðuneytinu.


Tengdar fréttir

Ráðuneytisstjóri situr í stjórn Þjóðarsjóðs Ómanríkis

Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins, hefur setið í stjórn Þjóðarsjóðs Ómanríkis (OIA) í tæplega ár. Þetta kemur fram í hagsmunaskráningu Guðmundar á vef Stjórnarráðsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×