Viðskipti innlent

Ragnar yfir­gefur Brandenburg eftir upp­á­komu í af­mæli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar í fremstu röð með viðurkenninguna auglýsingastofa ársins árið 2021.
Ragnar í fremstu röð með viðurkenninguna auglýsingastofa ársins árið 2021. Brandenburg

Ragnar Gunnarsson, einn af fimm eigendum auglýsingastofunnar Brandenburg, hefur ákveðið að selja hlut sinn í félaginu. Samkvæmt heimildum fréttastofu tengist sala hlutarins uppákomu á skemmtun sem starfsmenn auglýsingastofunnar sóttu á dögunum.

„Eft­ir að hafa stofnað Brand­en­burg, ásamt fé­lög­um mín­um, fyr­ir tólf árum síðan og starfað í aug­lýs­inga­brans­an­um í yfir 20 ár er kom­inn tími til að breyta til og tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir,“ seg­ir Ragn­ar í til­kynn­ing­u sem Mbl.is vísar til.

Samkvæmt heimildum fréttastofu þótti öðrum eigendum Brandenburgar Ragnar hafa sýnt af sér óeðlilega hegðun í fimm ára afmæli Datera, dótturfélags Brandenburgar, í byrjun nóvember sem starfsmenn auglýsingastofunnar sóttu. Var hann beittur þrýstingi um að yfirgefa eigendahópinn.

Fimm eigendur Brandenburgar sem bráðum verða fjórir.CreditInfo

Umræður hafa staðið yfir síðan milli eigendanna fjögurra og Ragnars um brottför hans þar sem tekist hefur verið á um virði hlutar Ragnars í auglýsingastofunni. Miðað við tilkynningu Ragnars í morgun virðist hafa náðst samkomulag um virði hlutarins.

Fréttastofa reyndi ítrekað að ná í Ragnar og aðra eigendur Brandenburgar vegna málsins í gær en án árangurs.

Tæplega tvö ár eru liðin síðan Ragnar steig til hliðar sem framkvæmdastjóri Brandenburgar vegna viðtals barnsmóður hans Haddar Vilhjálmsdóttur, almannatengils og lögfræðings, í Vikunni. Þar lýsti hún andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu Ragnars.

Ragnar var um árabil einn fjögurra eigenda Brandenburgar ásamt þeim Jóni Ara Helgasyni, Braga Valdimar Skúlasyni og Hrafni Gunnarssyni. Tilkynnt var fyrir rúmu ári að tveir eigendur hefðu bæst í hópinn, þau Arnar Líndal Halldórsson og Sigríður Theódóra Pétursdóttir. Síðan þá virðist Sigríður Theódóra hafa yfirgefið eigendahópinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Koma ný inn í eig­enda­hóp Branden­burgar

Sigríður Theódóra Pétursdóttir og Arnar Halldórsson hafa bæst í eigendahóp auglýsingastofunnar Brandenburg. Þau hafa bæði starfað sem stjórnendur á stofunni undanfarin ár.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×