Viðskipti innlent

Fjögur ráðin í stjórn­enda­t­eymi Helix

Atli Ísleifsson skrifar
Hinir nýju stjórnendur hjá Helix.
Hinir nýju stjórnendur hjá Helix. Aðsend

Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir, Elfa Ólafsdóttir, Héðinn Jónsson og Gunnar Ingi Widnes Friðriksson hafa öll verið ráðin til starfa í stjórnendateymi Helix.

Í tilkynningu kemur fram að Helix sé nýtt og sjálfstætt heilbrigðistæknifyrirtæki stofnað í kringum heilbrigðislausnir Origo. Markmið félagsins sé að flétta saman tækni, hugviti og innsæi til að bæta líf þeirra sem þiggja og veita heilbrigðisþjónustu.

„Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir tekur við starfi mannauðstjóra Helix en hún hefur víðtæka reynslu af mannauðsstjórnun innan tæknigeirans, bæði hér á landi og erlendis. Ingibjörg starfaði áður sem breytingaleiðtogi innan Origo þar sem hún tók þátt í að leiða sjálfstæðisvegferð Helix en hún starfaði einnig um árabil hjá Spotify. Hún lauk viðskiptafræðidiplóma með áherslu á stjórnun frá International Business Academy en hún lagði einnig stund á viðskiptafræði í Háskólanum í Bifröst.

Elfa Ólafsdóttir var ráðin sem markaðsstjóri Helix í október og mun hún stýra markaðsmálum og stefnumótun á vörumerki fyrirtækisins. Elfa sinnti áður markaðsmálum hjá heilbrigðistæknifyrirtækinu Sidekick Health og sem markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni. Elfa er hjúkrunarfræðingur að mennt og er einnig með meistaragráðu í alþjóða markaðssetningu frá Emerson College í Boston.

Héðinn Jónsson var ráðinn sem sviðsstjóri Sögu í nóvember. Hann leiðir hópinn sem er ábyrgur fyrir þróun Sögu hugbúnaðarins. Saga er útbreiddasta rafræna sjúkraskrárkerfið á landinu og er notað á öllum helstu heilbrigðisstofnunum og heilsugæslum landsins, fjölda einkarekinna stöðva og á hjúkrunarheimilum. Héðinn hefur um 20 ára reynslu í velferðartæknigeiranum og starfaði áður hjá Sidekick Health og Landlæknisembættinu. Héðinn er menntaður sjúkraþjálfari og með MS-gráðu í heilsuhagfræði frá Háskóla Íslands.

Gunnar Ingi Widnes Friðriksson var ráðinn sem tæknistjóri Helix í október og ber hann ábyrgð á að leiða stefnu Helix í tæknimálum. Gunnar hefur starfað í heilbrigðisupplýsingatæknimálum í 25 ár og var m.a. ráðgjafi fyrir hönd Íslands hjá Evrópusambandinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni við ýmis heilbrigðistækniverkefni í Covid faraldrinum. Hann er með BSc gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni. 

Arna Harðardóttir er framkvæmdastjóri félagsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×