Samhliða gengisfellingunni tilkynnti Luis Caputo, nýskipaður fjármálaráðherra Argentínu, víðtækar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálunum. Þær fela meðal annars í sér að dregið verður úr niðurgreiðslu eldsneytis og samgangna og frysting opinberra verksamninga.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir Caputo að hann hafi tekið við versta þjóðarbúi í sögu Argentínu og að hann væri að stíga skref í átt að því að forðast óðaverðbólgu.
„Við verðum í verri málum en áður næstu mánuði, sérstaklega hvað varðar verðbólgu. Ég segi ykkur það vegna þess að, eins og forsetinn segir, það er skárra að segja óþægilegan sannleik en þægilega lygi,“ sagði Caputo í sjónvarpsávarpi í gær.