Körfubolti

Ingi­bergur um hand­töku Charis­se Fairl­ey: Lenti í ein­hverjum úti­­­stöðum síðasta sumar

Andri Már Eggertsson skrifar
Ingibergur Þór Jónasson formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur og Eva Braslis.
Ingibergur Þór Jónasson formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur og Eva Braslis. Vísir/Hulda Margrét

Charisse Fairley, leikmaður Grindavíkur, var handtekin í Bandaríkjunum þann 2. nóvember síðastliðinn. Fairley hefur spilað síðustu fjóra leiki með Grindavík eftir handtökuna. 

Ingibergur Þ. Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, tjáði sig um málið í viðtali við Vísi.

„Ég veit ekki almennilega hvað gerðist annað en það að hún sé komin hingað aftur og með leyfi til þess að spila. Hún er okkar stelpa þar sem hún er hugljúf og góð. Við stöndum með henni og þess vegna er hún komin aftur.“

Mál Fairley rataði í fréttirnar skömmu eftir að hún var handtekin en hvernig horfði það við stjórn Grindavíkur?

 

„Enn þann dag í dag veit ég ekki ekki almennilega hvað gerðist og ég veit ekki alveg um hvað málið snýst. Auðvitað dauðbrá manni þar sem hún var á leiðinni í frí í landsleikjahléi deildarinnar þar sem hún fór með öðrum leikmanni erlendis og var handtekin.“

„Þú getur verið handtekinn fyrir hraðasekt í Bandaríkjunum. Ég held og vona að þetta hafi verið stormur í vatnsglasi og að hún sé komin til að vera.“

Þrátt fyrir að vita ekki allt um málið hafði Ingibergur ekki áhyggjur af því að Fairley væri að leyna einhverju frá Grindavík.

„Ég veit að hún lenti í einhverjum í útistöðum síðasta sumar við einhverja manneskju. Ég hef í rauninni ekkert verið að draga upp úr henni hvað gerðist enda er það hlutverk þjálfarans frekar en mitt.“ 

Það verða ekki spilaðir fleiri leikir í Subway-deild kvenna á þessu ári. Leikmenn Grindavíkur eru því komnir í frí en Ingibergur hafði ekki áhyggjur af því að það yrðu eftirmálar af handtöku Fairley fari hún til Bandaríkjanna.

 

„Nei, alls ekki. Annars hefði hún aldrei komið aftur. Það var skoðað hvort þetta mál væri ekki afgreitt svo hún væri ekki að fara á miðju tímabili eða á óheppilegum tíma fyrir liðið,“ sagði Ingibergur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×